Mel 27. nóv. 1902

 

            Kæra Guðný mín!

 

Árni Zakaríasson kom í vikunni sem leið norður aptur til þess að koma brúnni á Sveðjustaðará, og lýkur hann að öllum líkindum við það í dag eða snemma á morgun og hefir hann lofað mjer að taka þessar línur til þín. Hann sagði mikil tíðindi að sunnan eptir miklar sunnanveðrið, sem og ég lenti í á Stað, þegar ég var að sitja um póstinn um daginn; þá höfðu fokið tvær kirkjur, önnur á Kjalarnesi, en hann vissi ekki hvort það var Brautarholtskirkja eða Saurbæjar, hitt var Hrafnseyrarkirkja, og upp í Borgarfirði höfðu orðið talsverðir skaðar bæði á húsum og heyjum, mest á Geldingará í Leirársveit, þar hafði svipt ofan af húsi yfir 300 fjár. Hjer fyrir norðan hefir ekki frjest neitt af slíkum sköðum þótt veðrið væri mikið, en svo var ofsinn mikill á Hvammstanga að Sigurbjarni með öllu sínu heimilisfólki hafi um nóttina flúið ofan í kjallara. Þetta er líka eina veðrið sem komið hefir, og eptir þetta veður hefir hver dagurinn verið öðrum betri, hægð og frostleysur, jörð nú víðast alauð og má heita alveg klakalaus, getur þú ráðið í það að klaki muni ekki mikill af því að í gær vorum við að rífa upp grjót til þess að hafa í flór í nýja hesthúsinu, sem tóftir var byggt að í vor, og eru nú piltarnir að reiða heim grjótið og fara svo að flóra húsið; ég læt gjöra það til þess að ég síðar getir haft það fyrir sumarfjós. Þú getur getið því nærri að hjer þótti öllum vænt um að frjetta það, að þú ert þó heldur á batavegi; Guðmundi lækni þykir ekkert annað að en hitaveikin; telur hana tefja fyrir batanum, en ég vona samt alls hins besta.

            Á fyrra sunnudaginn var skírt barn þeirra Sigurvins og Katrínar; það heitir Sigurbjörg Helga; á sunnidaginn kemur á ég að skíra hjá Sigurbjarna og Soffíu á Hvammstanga, og menn eru að spá í því að ég í sömu ferð verði rekinn út að Syðri-Kárastöðum til þess að skíra hjá Jóhanni Albert og Dagmeyju, sem eignaðist barn fyrir tæpum 3 vikum. Andrjes í Skarði hefir legið mjög lengi; hann var um tíma talinn af, og einum var sjeð, að hann hjarni við. Læknirinn er hræddur um að sullur í lifrinni sje að grafa úr honum upp eftir lungum. Margrjet dóttir Stefáns á Sauðadalsá liggur mjög þungt, en ekki veit ég hvað að henni gengur; Helga kona Sveins á Reykjum hefir lengi verið mjög vesöl, og veikist mjög alvarlega núna í vikunni, svo að læknirinn var sóttur, en ekki veit ég hvert álit hann hefur á sóttarfari hennar, því að síðan hefir hefir engin ferð fallið. Með næsta pósti vona ég að fá enn betri frjettir af þjer; þegar hann fer af stað úr Reykjavík verður þú búin að vera á 9. viku á sjúkrahúsinu, og vona ég að þá hafi hitaveikin yfirgefið þig, svo að þú takir vel eldi næsta mánuðinn, og verðir orðin spikfeit með þorra. Hjeðan af bæ er ekki neitt tíðinda. Imba frá Kobeinsá kom hjer fyrir helgina og verður hjer framundir jólin til þess að sauma með nöfnu sinni; oss hefir öllum liðið vel, nema hvað giktin hefir einstöku sinnum kvalið mig; hefir nú í vetur tekið fyrir vinstri mjöðmina, þar sem hún áður ávallt hefir legið í þeirri hægri. Ófeigur er að herða sig við að skrifa svo að hann hið bráðasta getir skrifað þjer, en hvenær það verður er ekki gott að segja.

            Flýtisklór þetta verðurðu að sætta þig við að sinni, það er eingöngu aukageta, því vitanlega skrifum við þjer með pósti. Berðu kæra kveðju frá mjer öllum þeim sem vitja þín, og bið ég guð að blessa þá; sjálfa þig tel ég líknarforsjá guðs og árna þjer fyrir hann allra heilla og blessunar.

Þinn elskandi faðir

Þorvaldur Bjarnarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband