Eyfjord 9. desember 1889

 

            Ástkæra nafna mín!

 

            Þó langt sé síðan jeg hafði þá ánægju að njóta nærveru þinnar og alúðlegu vinkynningar hefi jeg samt ekki gleymt þér; nei, þitt innilega og einlæga viðmót hefur opt vakað í huga mér, það styttir marga stund lífsins að apturkalla í huganum ýmsar góðar og glaðar endurminningar liðins tíma. Einkum þeirra stunda er jeg naut í umgengni hollvina minna heima á fróni og þó að okkar kunningsskapur væri ekki langur, fannst mér hann svo innilegur og einlægur, að jeg skoða endurminning þína ásamt minna bestu vina. Um leið og ég skrifa þessar línur finnst mér skylt að minnast á og þakka þér fallegu brjóstnálina sem þú sendir mér áður jeg alfarin steig á skip og sem jeg ætla að bera sjálf til dauðadags sem endurminning frá þér. Jeg mun hafa gleymt að minnast á þetta í bréfinu sem jeg skrifaði þér 11/2 ári eptir að jeg kom hingað vestur. Mig hefur alltaf langað til að fá bréf frá þér aptur, en það hefur orðið ónýt von til þessa. Þú vonast nú eptir kæra nafna að þú fáir langt bréf og fullt af fréttum frá mér þar sem svo langir tímar eru liðnir síðan jeg skrifaði þér síðast, en því miður verður það hvorki svo greinilegt nje fróðlegt sem jeg vildi kjósa. Því þó margt sé hér sem ber fyrir sjónir manns og mætir eigin reynslu á langri og fjölbreytilegri leið eins og lífið mætti sýnast þegar litið er til baka þá verður þó margt smátt atvik - (sem máski er þó vert að muna) – að ríma burt úr minni manns fyrir öðrum stærri atvikum lífsins sem festa sér dýpri rætur. Þess vegna verður það ekki nema höfuð atriðið um hagi okkar og dagleg lífskjör sem jeg vil reyna að segja þér frá. Þó ég viti að Bjarni minn skrifar manni þínum allt hið markverðasta sem fyrir okkur hefur komið hér vestra, það er þá hið fyrsta og besta, að okkur líður öllum vel hvað heilsufar snertir og er það dýrmætt. Guði sé lof fyrir öll gæði okkar veitt.

Uppskera varð hér í rýrasta lagi og orsakaði það af sífelldum kuldum og þurrkum framan af vorinu. Þurrkarnir héldust fram yfir mitt sumar og skrælnaði því víða hveitið og sums staðar sló hagl akrana. Þó urðu fáir Íslendingar hér fyrir þeim óvin og við hér alls ekkert. Og yfir höfuð rættist betur úr uppskerunni en út leit fyrir í sumar. Okkar uppskera var e. ½ hundrað búsel af hveiti. Það sýnist nú nokkuð mikið en við höfum nú sem stendur töluvert við peninga að gjöra því skuldir kalla hvaðanæfa. Því þegar við erum nú búin að borga allt hvað við gátum í haust verða þó eptir um 300 dollara skuld óborguð. En ef lukkan er með vonum við með guðs hjálp að verða laus við þessar skuldir að hausti ef við lifum. Svo þú skiljir nú hvernig á þessum skuldum stendur verð jeg að segja þér hvað við höfum keypt af akuryrkjuvélum. Þá er nú fyrst 2 vélar, önnur að slá og hina að raka engjar með, og kostuðu þær báðar um 100 doll. Svo keyptum við stóra og margbrotna vél til að slá og binda hveiti með, hún kostar 1,50 d. Líka keyptum við hestapar (2 hesta) sem kostuðu 3½ hundruð dollara. Upp í þá skuld létum við 5 nautgripi en borgum í peningum 1.50. Og enn fremur höfum við keypt ýmis akuryrkjutól, svo sem sáðmaskínu, herfi og plóga m.f. og verði maður hér skuldugur er þungt að borga rentur, þær eru háar. Það er mér óhætt að segja að þó margt gangi hér vel þá hefði nú komið í góðar þarfir hefði Ásgeir sent okkur eitthvað af peningunum sem hann heldur leyfislaust fyrir okkur. Þó ekki hefði verið nema helmingurinn af þeim. En það verður seint að Ásgeir borgi, nema ef einhver duglegur gangi í það fyrir okkur. Svo sem til að mynda maður þinn, enda þætti mér það betur niður komið hjá ykkur en Ásgeir. Þú mátt nú ekki taka þetta svo sem jeg sé að berja mér, en þú sérð af því hér undantöldu að peningar verða hér ekki mosavaxnir meðan verið er að eignast öll þau áhöld sem bóndinn þarf að eiga hér til að geta heitið sjálfstæður, en þegar þetta allt er orðin skuldlaus eign bóndans með sæmilega góðu landi, þá fer maður að geta andað léttara og gjöra sér von um þægilega framtíð og þar um höfum við líka góða von með tímanum. Svo þú sjáir, kæra nafna, að við líðum engan skort í búi okkar og við höfum nóg til fæðis og klæðis langar mig að segja þér hvað við höfum af búsmala (og gætum við þó átt eira ef landrými leyfði). Við eigum 7 kýr, 8 geldgripi á ýmsum aldri, milli 10-20 sauðkindur, 30 hænsni, 3 Torkera (það er stór fugl), 2 svín. Svo jeg hef nóg í bú að leggja til matar, -smjör, mjólk, kjöt, egg, hveiti, kartöflur með ýmsum fleiri garðávöxtum. Jeg hefi opt óskað að þú ættir eins mikið af smjöri og mjólk. Já jeg á stundum of mikið þegar ekkert gengur á markaðina. Kaupmenn vilja helst ekkert nema peninga og hveiti, en við konurnar viljum selja þeim smjör, egg, prjónles, m.fl. til að fá aptur kaffi og sykur og ýmsar smá þarfir okkar. Það er helst á veturna að við getum selt þessháttar. Mig langar að tala um við hvort þú veist hvar Kristveig er til heimilis sem var vinnukona hjá mér heima. Mig langar til að geta hjálpað henni hér vestur ef hún vildi því mér tekur sárt til þeirra sem hafa unnið hjá mér. Mér þætti vænt um ef þú góða nafna vildir gjöra svo vel og tala við hana um þetta, ef hún getur ná út fargjaldi hjá Ásgeir þá hefur hún fullt leyfi mitt til þess. Jeg er viss um að hún vinnu vel fyrir sér hér og jeg vildi sjá til með henni, og útvega henni góðu stað að vinn í. Hér kemur varla svo margt eða aldrað kvenfólk, ef það hefur heilsu, að það ekki vinni vel ofan af fyrir sér. Sveitastjórnin ætti að hjálpa henni að ná fargjaldi hjá Ásgeir ef þeir væru hræddir um að hún færi á sveitina. Elsku nafna mín ég vona nú að fá bréf frá þér sem allra fyrst og segir mér margt í fréttum og fyrirgefir mér þetta ómerkilega bréf. Berðu kæra kveðju okkar allra manni þínum og börnum og heilsaðu frá mér innilega vel öllum mínum góðkunningjum sem þú þekkir. Sjálfa þig kveð jeg kæra nafna með ást og virðing og óska þér og þínum allra heilla og blessunar í bráð og lengd.

Þín einlæg elskandi nafna Sigríður Eggertsdóttir

 

Styðji þið alsterk herrans hönd

huggi þig, styrki, gleðji, hressi,

og öll þín lífskjör ég bið að blessi

hann sem að skapti haf og lönd.

Í himninum vona ég hittast fáumst

í heiminum þó ei framar sjáumst.

Lausnarinn, gegnum lí og hel

leiði þig, vina farðu vel.

                                                S.E.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband