Færsluflokkur: Ljóð

Svar til herra Páls Ólafssonar gegn þjóðhátíðarkvæði hans

 

1.   Hví vill skáldið yrkja óð

að upp sé runninn frelsisdagur?

Er þá hreinsað okkar blóð,

Opnuð fögur sæluslóð?

Er þá hrundið hugarmóð,

hýr á augum vonarbragur?

Hví vill skáldið yrkja óð

að upp sé runninn frelsisdagur?

 

2.   Allir herrar Ísalands

yfirhlaðnir dönskum krossum

lofa gæsku gjafarans

og gnægtirnar í búi hans

stendur auða almúgans

andvari af slíkum hnossum

því allir herrar Ísalands

eru nú hlaðnir stjórnarkrossum.

 

3.   Hvað má gefa hilmir oss?

Hefir hann nokkurt frelsi í taki?

Yfirráð eða aurahnoss

annað heldur en danskan kross

en Danir ausa eins og hross;

og ætla að setja hann hreint af baki.

Hvað má gefa hilmir oss?

Hefir hann nokkurt frelsi í taki?

 

4.   Konungsins dýrð er söm við sig

sem á heimsins fyrstu öldum;

hirðar þrælkun hætnilig

honum bannar frelsisstig;

hann er eins við aðra og þig

undirlagður ráðum köldum

konungsins dýrð er söm við sig

sem á heimsins fyrstu öldum.

 

5.   Viltu vera frí og frjáls -

flytji burt úr sálu þinni

aurakergja, elska sjálfs,

óstjórn líka hroka báls –

týhraustar svo tak til máls

og treystu guði og réttvísinni:

Viltu vera frí og frjáls –

flytji girnd úr sálu þinni.

 

6.  Viltu ver frí og frjáls?

Frelsi þarf í sálu þinni,

innri dugur, einurð máls

auðinn líka hreinn án táls;

undir hlekkjum hóls og prjáls

hætt er frelsislofdýrðinni.

Viltu vera frí og frjáls?

Frelsi þarf í sálu þinni.

 

7.   Viltu vera frjáls og frí,

      fælast máttu´ ei stríð né dauða,

hræðast ógna orðin ný

eða krossuð Danaþý,

stjórnar sem að ólgu í

elta jafnan gullið rauða.

Viltu vera frjáls og frí,

fælast máttu´ ei stríð né dauða.

 

8.   En hvar er slíka hölda að fá

hér á voru kalda landi

þjóðarheillir sem að sjá?

Segðu mér, ef finnur þá.

Hver mun högum vorum á

augun hafa sívakandi?

Hvar mun slíka hölda´ að fá

hér á voru kalda landi?

 

9.   Þetta frelsi það er tál

og þjóðhátíðar móðins staður

því fundir elska orðin hál,

en yfirskins og glæsimál

villir greind en svíkur sál,

sér það hver einn greindur maður

að þetta frelsi það er tál

og þjóðhátíðar móðins staður.

 

10. Hún er enn ei frí né frjáls

      Fjallkonan mjallahvíta;

vér höfum fengið fundi máls

fjárráð varla þó til hálfs;

eigingirni og elska sjálfs

eining vora sundur slíta.

Hún er enn ei frí né frjáls

Fjallkonan mjallahvíta.

11. Strengjum heit um háum meið

að herja fasta á myrkra veldi

meðan endist æfiskeið

ófrelsis þó lypti reið

svo vér rötun ljóssins leið

þá líður burt að æfikveldi.

Strengjum heit um háum meið

      að herja fast á myrka veldi.

 

12. Þér ég óska þetta hnoss

þjóðar vel með merkjum stríða,

...ita sauði og fjörug hross

fremur heldur en danskan kross,

loksins mun þér einn af oss

Arinbjarnardrápu smíða.

Þér ég óska þetta hnoss,

þjóðar vel með merkjum stríða.

 

                  Séra Bjarni Sveinsson Stafafelli


Skilnaðar-minni á þjóðhátíðarfundi í Hallormstaðaskógi 1874

                       1

Ég ferðast hef um fjöll og dali sljetta

og forðum gekk ég Skrúð og bratta kletta

ég ljek í dönskum lundi,

en langaði heim í sveit;

á engum stað ég undi

mér eins og þessum reit.

Þessa stund, þráði og alla daga,

hjer í lund að hreifa strengjum Braga,

hjer í lund.

 

2

En þeir sem annars þekkja mannlegt hjarta,

og þeir sem elska Suðfellstindinn bjarta,

og fönnum skreyttu fjöllin,

og fagra löginn hér,

og blómi búinn völlinn

þeir bresta varla mér,

þessa stund, þó að ég sje glaður,

í þessum lund; þetta er sælustaður

            í þessum lund!

 

3

Og hvað er sæla, sje það ekki að finnast

á svona stað, og hver við annan minnast

og frelsi sínu fagna

og frjálsri Ísagrund

með góðum ráðum gagna

og gleðja sig um stund.

Fagur, frjáls, finnst mér þessi staður:

Jeg er frjáls; jeg er nú svo glaður:

Því ég er frjáls!

 

4

Þú varst svo frjáls og fögur, kæra móðir!

Þá feður vorir komu á þínar slóðir,

mér finnst þú enn svo fögur,

og frjálsleg ertu að sjá:

Því flýr svo margur mögur

frá móður sinni þá?

Ísland! Aldrei héðan fer ég,

kæra land! Kjöltubarn þitt er ég

            kæra land!

 

                        5

Sólin hnígur, senn mun döggin falla,

og söknuðurinn hrífur nú á ætla;

það er því yndi að skilja

þá allir keppa heim að vinna af öllum vilja

í verkahringnum þeim,

foldin mín! Frelsið þitt er að glæða

móðir mín! Meinin þín að græða,

móðir mín!

 

                                    Páll Ólafsson


Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband