Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hvammsdal 6. nóv. 1898.

            Háttvirta góða vinkona!

Ingim. Jakobsson hefur skrifað mér að undirlagi yðar – að hann segir – viðvíkjandi Guðnýju dóttur yðar og beðið mig um meðöl fyrir hana, og að skrifa yður með þeim. Bréfinu fylgdu 2 kr.

            Ég sendi yður nú meðölin 4 gl. sem hún á að brúka eptir röð, og hvert gl. 2 eða 3 daga í einu, 3 dr. 6-7 sinnum á dag, það er ekki víst að hún þoli að taka inn 5 dr. í einu, en annars mætti það og taka þá inn sjaldnar. Ef að bata verður vart eptir að hún hefur brúkað meðölin um tíma, skal bæði taka inn sjaldan úr því, og fella úr 1-2 daga við hvert gl. sem að hún tekur ekkert inn.

            Þess verður vandlega að gæta , að brúka meðölin minna en að framan er sagt ef að versnar við þau til muna á einhvern hátt, en halda samt áfram með þau með reglu og þolinmæði að öðru leyti.

            Um meðala reglurnar að öðru leyti þarf jeg ekki að skrifa yður frekar, því þér þekkið þær frá fyrri tíð. Ég vona þér gjörið svo vel að skrifa mjer á sínum tíma, og látið mig vita hvort nokkuð bregður til bata við þessi meðöl eða eigi.

            Hvernig er þessum andþrengslum varið? Fær telpan nokkurn tíma eins og sog? Fær hún eins og bitu í hálsinn, eða finnur hún eins og drætti upp eptir miðju brjósti? Finnst henni eins og lungun geti eigi þanist út, eða eins og einhver þungi liggi á brjóstinu? Er hún hræðslugjörn? Hefur hún hjartslátt og titring? Ingim. skrifaði að hún væri “veiklyndari” síðan hún fjekk þennan lasleik. Hvernig þá? Er það grátgirni viðkvæmni eða óstilling, ergelsi? Hefur hún hóstað uppgang og þynglsi fyrir brjósti? Er hún nú orðin breytt að útliti við þetta? Það þurfti að lýsa öllu útliti hennar yfir höfuð (andlitsfari, yfirlitum, holdafari, háralit). – Hvernig er matarlyst, melting og hægðir? Ingim. segir, að meðal annars er læknir hafi úti látið af meðölum hafi eitt meðal verið “deyfandi” og náskylt þeirri aðallegu “tóbaksjurt”, og hefur það þá verið Opium, tobakum eða Stramonium eða þá Nura vomiae. Ekki skil ég að þetta komi að gagni og ekki veit jeg hvað hún á að gjöra með “deyfandi” efni.- Ég held hún sé nógu slöpp eptir sjúkdómslýsingunni að dæma. Ég hefi skrifað yður þetta bréf í flýti hánóttina þreyttur og syfjaður – hefi tekið til meðöl fyrir yfir 20 manns í dag – ég bið yður að fyrirgefa ósamkvæmni í rithætti og allan fráganginn á því.

            Ég bið kærlega að heilsa manni yðar og börnum.

            Kveð yður svo með bestu óskum, vinsemd og virðingu

 M Guðlögsson


Reykjavík 25/10 1902

 Elskulega mamma mín.

Guð gefi að línur þessar hitti þig glaða og heilbrigða.

Ég skrifa pabba um heilsufarið og er það eins enn að ég má ekki fara á fætur af því að ég hef alltaf hita á kvöldin. Þegar ég kom frétti ég að þjónusta væri á sjúkrahúsinu, en þegar þær sáu hvað ég hafði af fötum sögðu nunnurnar að ég þyrfti að kaupa mjer tvær ullarskyrtur. Kristín S. keypti skyrturnar og kostaði hver 1 kr.  En lérefts fötin leggur sjúkrahúsið til. Mjer líður hjer ósköp vel og hefur aldrei leiðst enda kemur oft fólk til mín. Arasens systurnar hafa allar komið, mæðgurnar frá Brunnholt, Sigurður fangavörður, Haraldur og María systir hans komu á sunnudaginn, hann ljær mjer bækur.  Kristín Sigurðardóttir kemur oft hingað og nafna þín hefur komið svo kom Anna Magnúsdóttir með brjefið frá systrunum, vil ég biðja þig að skila kæru þakklæti til þeirra. Mikið voruð þið lánsöm að losast við Lóu. Ég held að fari að hætta þessu rugli. Frændfólkið biður að heilsa og Kristín og Frú Sigríður, sjálf bið ég kærlega að heilsa öllu fólkinu. Vertu blessuð og sæl, guð gefi ykkur mildan vegur og haldi sinni verndarhendi yfir þér.  Þess óskar af einlægu hjarta

þín elskandi dóttir

Guðný Þorvaldsdóttir


Foam Lake, Satk., Canada 25. okt. 1926

Kæra frú!

 

Seint í gærkvöldi fjekk jeg brjef sunnan frá San Diego, í California, sem flutti mjer á fregn að frændi þinn, Ben. Jónasson hefði andast 15. ágúst sl. eptir langvinn veikindi.

            Sá er brjefið skrifaði, S. Bjarnason kaupmaður í Sand Diego er maður sá, er ætíð reyndist Ben. sál. sem vinur af bestur röð, og þrátt fyrir efnalegar kröggur hans sjálfs (S. Bjarnasonar) var ætíð fús og reiðubúinn að hjálpa frænda þínum. En vegna þess, að Mr. Bjarnason ekki vissi áritan mína fyrr en hann rakst á brjef frá mjer í öðrum skjölum sá hann ekki fyrr ráð til að gera mjer fregnina kunna. Benedikt sál. var á vegum hans síðustu mánuðina. Þessi Mr. Bjarnason á danska konu og hefir að sögn haft kostbært heimili.

            Dauðsföll eru ætíð alvöru og tilfinningaatvik, en það mætti blanda þau með nokkurri gleði þegar menn sem eins og Benedikt sál. frá hvíld eptir langa og erfiða sjúkdómsreynslu, og sem fáa og ónóga hjálp og aðstoð eiga kost á að njóta.

            Jeg þóttist vita að þú og móðir þín ef hún er enn á lífi mynduð að sjálfsögðu óska eptir að ykkur væri tilkynnt þannig lagað atvik hvenær sem það bæri að höndum.

            Við Benedikt sál. og jeg höfðum býsna stöðug brjefaskipti uns báðir urðu aldraðir og stundum lasnir. Þá verða þau strjálli. Síðustu árin skrifaði hann með blýanti aðeins, - hafði ekki vald á penna en alltaf var rithöndin hin sama, ljómandi fagra og skíra. Málið (enskan) hin allra besta og hugsunin djúp og skír.

            Hjeðan er fátt tíðinda nema sjerstök ótíð nú í haust, sem fer óvanalega rétt yfir. Samt er það aðallega suður í ríkjum, þar sem tíðin vanalega er sól og sumar og ævinlega að voða veður, fellibyljur og jarðskjálftakippir hafa gert voðalegt tjón á lífi og eignum. Hjer í Kanada fylkjunum hefir úrfellatíð í haust tafið svo fyrir freskingu og gert miklar skemmdir á uppskeru víða, að mikill hluti þeirrar vinnu er enn óunnin, og útlitið hvergi nærri æskilegt. Að öðru leiti er líðan Íslendinga hjer í landinu góð að venju.

            Nú er í vændum að nýkosin stjórn í Kanada geri aptur all-rífa gangskör að innflutningnum til þessa lands frá Europu. Ef til vill nær sú tilraun og til Íslands. Ef til vill á jeg enn í vændum að sjá einhvern góðan gamlan kunningja frá yngri árunum hjer, áður en jeg hjúpast aptur emigranls slæðum til síðasta útflutningsins. Gaman væri að frjetta hvort nokkrir hugsa til Vesturferðar þarna úr grennd þinni.

            Jeg hlýt að biðja þig að fyrirgefa þetta ófimlega má og stirðhenta stafi, sem enda með innilegri kveðju til þín og móður þinnar.

                                    Þinn einl.          Jón Einarsson   


Reykjavík 20. október 1902

             Elskulegi faðir!

Ég ætla nú að reyna að klóra þjer fáeinar línur, til að láta þig vita að mjer líður vel og ég er talsvert farin að fitna. Á þriðjudaginn fjekk ég brjefið frá þjer og hafði það miklar gleðifrjettir að færa. Nú er jeg farin að vera út á útbyggingunni á daginn og er mér ekið út í rúminu, því að alltaf er svolítill hiti í mér á kvöldin svo að jeg fæ ekki að fara á fætur, en hitinn er minni á kvöldin síðan ég fór að vera úti.

Ekki varð ég ein þegar Ragnheiður fór. Þá var flutt hingað stúlka sem heitir Anna. Hún er magaveik og hef ég heyrt að læknirinn álíti það vera magatæringu sem að henni gengur. Ég fer nú að hætta þessu klóri sem bið þig að fyrirgefa.

Góður guð verndi þig alla tíma.

            Vertu blessaður sæll það mælir af heilum hug þín elskandi dóttir

            Guðný Þorvaldsdóttir


Mel 18. okt. 1902

            Kæra Guðný mín! 

            Nú er vika síðan ég kom heim og hefi ég opt til þín hugsað síðan; ég hefi svo hjartanlega kennt í brjósti um þig, ef þú skyldir hafa þurft að vera ein, eptir að Ragnheiður færi í burt; ég vona að frænkur okkar láti mjer ekki bregðast það öðru hvoru að koma og vitja þín. Fjarski langar okkur öll til þess að fá að sjá einhverja línu frá þér, þú skalt samt ekki hugsa um það að vera að skrifa mörgum, ef svo kynni vera að það væri þér óholt. Eitt brjef er nóg handa öllu frændfólkinu. Síðan ég kom heim get ekki sagt að ég hafi sjeð Böðvar, nema í svip á sunnudaginn var; hann hefir róið út í Bálkvík hjá Friðrik á Ósi og hafa þeir aflað heldur vel, enda hefir gefið í besta lagi. Flest trippin er ég nú búinn að sjá, og held ég að ekkert þeirra hafi dafnað eins vel og Sjarna þín og Glæsir Skúrarson, og er nú munur að sjá þau aptan fyrir hjá því sem var í vor þegar taðkleprarnir hringdu hvað lítið sem þau hreyfðu sig. Þau eru nú öll hin taglprúðustu. Eins og þú kannski mannst var gaflhlaðið í folaldahúsinu snarað til suðurs: meðan ég var syðra hafði Guðmundur gamli farið að gjöra við það, en það var svo illa gert að ekki var annar kostur en að láta rífa það allt; nú eru þeir að gjöra það upp að nýju, og hefi ég nú gluggann sunnan á stafninum, sem áður var á hliðinni; verður fyrir það betri birtan á vesalings folöldunum, og enginn leki, og er hvorutveggja mikil bót.  Ég mun hafa skrifað þjer frá Fögrubrekku, að hjerna hefði fjölgað hjá þeim Sigurvin og Katrínu, auk þess hafa Syðri Reykjahjónin og Hvammstangahjónin Sigurbjarni og Soffía eignast bar; fyrsta barnið sem fæðist í þeirri borg. Þetta eru nú mestu tíðindin, sem ég man eptir í svipinn; enda mun hitt fólkið sem skrifar með Skálholti tína það til sem ég hefi gleymt. Þuríður segist hafa skrifað þjer með vegabótamönnum, sem fóru í gær; sömuleiðis Imba. Nú er þjóðvegurinn kominn alla leið austur á bakka, svo að nú er ekki lengi verið að skeiða yfir Hrútafjarðarháls. Á Miðfjarðarhálsi hefir einnig verið gert við alla verstu kaflana austur undir Sporðshús.

            Enginn veit enn hver verða muni eigandi að Guðrúnarkoti; nú hvorki vill Guðrún gamla kaupa af syni sínum, nje getur það, en hann talinn ráðinn í að fara burt strax eptir kauptíðina; en um það verður maður orðinn fróður áður en póstur næst fer suður um, hver sitja muni uppi með slotið;  Björn Jónasson er einn tilnefndur, enn er haft eptir Guðrúnu gömlu að það hefði mátt ætla syni sínum það, að hann mundi ekki velja af verri endanum, þegar hann færi að ráðstafa þeirri eing sinni; sagt er að samkomulagið færi sín versnandi og er illt til þess að vita.

              Ég er að vona að góður guð gefi það, þegar ég næst fæ frjettir frá þjer, að þær verði eithvað í bataáttina. Já vel á minnst; varstu vegin þegar þú komst inn á spítalann, og hafi svo verið hver var þá munurinn þegar póstur fer næst norður um? Auðvitað getur maður ekki búist við jafn hröðum bata hjá þjer eins og hjá Ragnheiði; þú getur ekki sleikt þjer eins mikið af sólskini og hún, en blessuð sólin vinnu hjer sem í öðru mikið verk og gott, en allt um það, ég vona alls hins besta; berðu kærar kveðjur bæði systur Elísabet og öðrum, er að þjer hlynna.  Vertu svo margblessuð og sæl og guði falin.

Þinn elskandi faðir

Þorvaldur Bjarnarson

Allir biðja kærlega að heilsa. 


15.okt. ; framhald af bréfi rituðu í Selkirk 3. sept. 1893

            Þetta brjef verður trútt sýnishorn af ritstörfum mínum hjer vestra, það er að segja ef það verður nokkurn tíma til sýnis. Síðan jeg byrjaði það hafa blöðin okkar í Winnipeg gert heilmiklar athugasemdir við lagafrumvarpið sem jeg minntist á hjer að framan. Þessum athugasemdum er þannig varið að þó frumvarpið verði lögleitt á næsta þingi mega flytjendur þess naumast láta svo búið standa; þeim er nauðugur einn kostur að koma öðru lagafrumvarpi gegnum þingið, sem bannar algjörlega að viðlögðum 20000 kr sektum allra blaða og brjefa sendingar heim hjeðan því það fer ekki tvennum sögum um það hjer vestra að annar eins andlegur uppblástur hafi aldrei á þesari öld feykt jafn gjörsamlega burtu af akurlendi mannlegs hjarta sjerhverju frækorni til frelsis og framfara, eins og þetta skollans frumvarp. Nú þarf ekki framar að vitna til Rússans þegar talað er um kúgun, sjera Jón Bjarnason bendir á það í “Sam.” með gildum rökum að stjórnin á Rússlandi er ákaflega frjálslynd í samanburði við íslensku þingmennina heima.

            Það er mjög hætt við því að einhverjir þeirra landa vorra heima, er lesa blöðin og brjefin hjer að vestan, átti sig á því að það sje svo sem sjálfsagt að leita burtu áður en þetta frumvarp nær fullri löggilding og að það væri jafnvel æskilegt að flytja yfir til Rússlands hjá því sem að sitja hreyfingarlaus. Alþing verður að búa betur um hnútana, ef vel á að fara.

            Síðan jeg skrifaði  fyrra hluta brjefsins hef jeg fengið brjef frá Margrjeti í Sporði svo öll mín ummæli þar að lútandi eru nú úr gildi gengin.

Mjer var talsverð eptirsjón að fráfalli þeirra Sporðsfeðga, og stundum hef jeg hálf ásakað mig fyrir að hafa ekkert stuðlað til þess að þeir komust hingað vestur heldur en að vita þá hafa heldfrosið á gaddinum heima, en aðalregla mín hefur verið sú að skrifa það eitt hjeðan sem mjer finnst sannleikanum næst og láta svo hvern og einn vinsa úr því það sem honum sýndist, enda þykist jeg ekki hafa neina hvöt til að gjörast vesturferða postuli eins og sjæa má af eptirfylgjandi orðum, sem jeg skrifaði einhverju kunningja mínum í sumar, þau voru stíluð útaf ummælum mínum um Ameríku ferðir og þau eru í alla staði samkvæm minni eigin lífsskoðun eptir því, sem reynslan hefur kennt mjer að mynda hana. “Yfir hverju skildi maður eiga að fagna í Ameríku og undan hverju skildi maður hafa að kvarta heima þegar slysfarirnar, sjúkdómarnir, sorgin og dauðinn eyðileggja og að engu gera allar vorar óskir og vonir heima á Íslandi og hjer vestur í Ameríku. Það er ekki margbrotið, sem jeg hef numið í skóla lífsins enda er það allt á sömu bókina lært.”

Viðskipta deyfð og peningaleysi hefur verið alltilfinnanlegt í sumar hjer vestra einkum í Bandaríkjunum. Annars ekkert sjerlegt borið við, sem jeg þykist þurfa að segja þjer frá.

Íslendingar hjer í Selkirk hafa keypt margar bæjarlóðir og byggt á þeim hjer í Selkirk í sumar. Meðalverð á þessum bæjarlóðum mun vera frá 30-35 dollars en húsin munu kosta frá 300 til 600 dollars enda skulda þeir flestir, sem byggt hafa meira eða minna. Hjer er hávaði giptra manna í lífsábyrgð og flestir kaupa strax alls-ábyrgð á húsum sínum.

Bærinn er nú að stækka til muna. Framfarir í Nýja Íslandi hafa nú í ár verið með langmesta móti.

Fyrirgefðu  þetta klór og vertu ásamt öllum þínum kært kvaddur af þínum margskuldbundnum

Gesti Jóhannssyni

 

Landshöfðinginn yfir Íslandi - Reykjavík 14. október 1882

 

            Þegar harðærið hjer á landi frjettist til Lundúna í sumar, myndaðist þar samskotarnefnd undir vernd prinsessu Alexöndru af Wales og undir forstjórn borgarstjóra Lundúna (lord mayor), og hefir hún nú sent hingað til landsins gufuskip með talsvert af fóðurkorni, og fylgir skipinu herra magister Eiríkur Magnússon, bókavörður í Cambridge til þess að sjá um útbýtinguna á þessum gjöfum.

            Skip þetta mun koma að Borðeyri kringum 26. þ.m., á Sauðárkrók kringum 29. þ.m. og að Akureyri kringum 31., og afferma á hverri af þessum höfnum um 800 tunnur af allskonar fóðurkorni í hálftunnu pokum. Samkvæmt áskorun hins danska sendiherra í Lundúnum hefi jeg ritað amtmanninum yfir norður- og austurumdæminu og sýslumönnunum í Stranda, Húnavatns og Skagafjarðarsýslum um að veita herra Eiríki Magnússyni sjerhverja þá aðstoð, er í þeirra valdi stendur, til þess að gjafir þessar geti orðið að tilætluðum notum, og vil jeg nú skora á alla sýslunefndarmenn, hreppsnefndaroddvita og hreppstjóra í tjeðum sýslum, að leggjast í þessu tilliti á eitt með herra Eiríki Magnússyni og yfirvöldunum.

 

Í fjarveru landshöfðingja

Bergur Thorberg,

settur.

 

Jón Jónsson

 

Umburðarbrjef

til sýslunefndarmanna hreppsnefndaroddvita og hreppstjóra í

Stranda, Húnavatns, og Skagafjarðar og Þingeyjarsýslum.


245, E. Sprague Ave. Spokane, Wach. Oct. 9th – 1921

Elskulega systir

            Þessar línur ferðast langa leið einungis til að láta þig vita að þrátt fyrir heilsuleysi, atvinnuleysi og fátækt, er lítil sem engin hætta á því að ég verði að svelta komandi vetur. Vonir mínar um tekjur af olíuframleiðslu geta ennþá brugðist þó útlitið sé fremur gott. En ég hefi gert samning við lækni sem heitir L.S. Eastman, um að vera í umsjón hans og í kosti hjá honum komandi vetur. Ef ég verð gjaldþrota gerir það ekkert til segir hann. Ég er nú nýbúinn að skrifa Jóni Einarssyni (í þriðja sinn síðan ég fékk bréfið frá þér, eða ykkur). Ég hefi gert nákvæmlega grein fyrir högum mínum og sent honum blöð og skýrslur sögu minni til sönnunar. Mér er ómögulegt að skrifa á íslensku um efni sem ég aldrei heyrði talað um eða las um heima og vona ég að þið fyrirgefið þó of lítið loði við mig af móðurmálinu til þess að skrifa vel og greinilega. Ef J. Einarsson getur þýtt allt sem ég hefi skrifað honum þá man ég ekki eftir neinu sem ég gæti bætt við það. Ef komandi vetur líður án þess að færa með sér of mikil vandræði og þetta tel ég nú þá vona ég að eitthvað fari að rakna úr fyrir mér hvað hag snertir, en góða heilsu get ég auðvitað aldrei fengið. Mig fýsir heldur ekkert til að verða eilífur húsgangur á þessum hnetti. Þegar ég fæ bréf að heiman vonast ég eftir miklum fréttum. Eru bræður mínir báðir lifandi? Ef J. Einarsson segir ekki allt sem þið viljið vita mér viðvíkjandi þá skal ég reyna að leysa úr því ef ég fæ að vita hvað það er. Ég er of vanur við andstreymi lífsins til þess að æðrast hvað sem fyrir ber. Mín góða gamla systir, ég óska ykkur ánægju og öllu fólkinu yfir höfuð allrar mögulegrar farsældar.

 

Þinn ónýtur en einlægur bróðir, Ben. Jónasson 


7. októrber; framhald af bréfi ritað í Winnepeg 30. sept. 88.

            Það er engan veginn svo að skilja að jeg álíti það allt lygi sem Gröndal segir. Ef það sem B.G.  gefur út fyrir almennan sannleika væri framsett sem undantekning frá því sem hann segir sanni nær. – En það er ekki nóg með það að B.G. sje bannsunginn þegar þessi óhreini andi er út frá honum genginn fer hann til Björns ritstj. sem ummyndar hann í margar segionir er hann svo sendir lesendum “Ísafoldar” svo enginn þeirra skuli komast til sannleikans viðurkenningar. Annars held jeg að hávaði landa, þeirra er hingað eru komnir láti sjer á líku standa hvað sagt er um þá og Ameríkuferðir sér yfir höfuð, því þeir standa og falla sínum herra og embættismennirnir íslensku hafa hjeðan af enga aðra ábyrgð á þeim  eða verkum þeirra en þá, sem stafar frá hirðuleysi þeirra í því að sleppa hingað óhegndum sökudólgum sínum eins og t.d. Guðm. Ögmundarsyni er valla verður annað ætlað en hafi verið sleppt af ásetningi. Samt sem áður get jeg ekki neitað því, að það virðist hjeðan að sjá nokkuð skuggalegt yfir framtíð alþýðunnar heima ekki síður í andlegum en líkamlegum efnum þegar æðstu leiðsögumenn hennar B.Gr. og Halldór Friðriksson skólakennarar og Björn Jónsson ritstj sem allir trúa eins og nýju neti, brúka stöðu sína til þess að útbreiða það sem þeir vita vel sjálfir að er haugalygi. Jeg verð að telja H.Kr. hiklaust meðal þeirra manna, sem ekki gera sannleikanum hátt undir höfði þegar um Vesturheim er að ræða. Um haustið þegar jeg seldi kindur mínar í R.vík áttum við Halldór tal um Ameríku og þá hjelt jeg því fram að ástandið hjer vestra væri naumast eins illt og H. sagðist frá því , en til að slíta þrætunni kom hann með þá eðlilegu röksemd að við nefnil. alþýðumennirnir þyrftum ekki að segja sjer frá Ameríku sem ekki vissum sjálfir hvernig þar væri umhorfs heldur en helvítis hundar. Jeg var samt sem áður sannfærður um að Halldór færi með ósannindi og er nú búinn að sjá fyrir löngu að jeg hafði rjett fyrir mjer í því, og má þó geta nærri að maður sá, sem var búinn að kenna landafræði við latínuskólann um nokkra áratugi hafi vitað betur en jeg. Það er engin furða þó að jafnskapmiklum manni og Jóni Ólafssyni leiðist að sitja undir svona lestri. – “En viljið þið ameríkanskir vinir og vandamenn draga ykkur til ykkar hvort sem það nú er frá volæði eða þolanlegum dögum” o.s.fr. segir þá í brjefinu til mín frá 18. júlí. Það er eptir minni skoðun ekki öldungis hið sama hvort maður dregur hingað vandamenn sína frá örbyrgð og volæði eða allgóðum efnahag. Mér finnst það skylda mín að stuðla til þess af fremsta megni að þeir komi hingað sem öll líkindi eru til að líði betur hjer en heima; en sökum þess jeg get ekki sjeð í hverju eða að hverju leyti þeim mönnum lið betur hjer en þar, sem hafa næg efni og þurfa ekki að vinna fremur en þeim sýnist, þá er það gagnstætt minni skoðun að hvetja þá hingað komu. Bændur ein og Hjört Líndal eggja jeg ekki á að koma fyrr en skoðanir mínar breytast að mun frá því, sem þær eru nú, því að má mikið vera ef menn sakna ekki almennt einhvers að heiman og það að líkindum því fremur, sem frá betri kringumstæðum er farið. Hins vegar vildi jeg óska að Jón Gunnarsson í Sporði kæmist hingað því jeg óttast fyrir að hann komist ekki af heima án hjálpar frá sveitarsjóði og þó hann ætti hjer erfitt og kynni máske illa við sig þá hygg jeg að skaplyndi hans yrði ekki eins ofboðið með því, sem hinu ef hann þyrfti að betla út sveitarstyrk árum saman. Af tvennu illu er sjálfsagt að taka fyrst það, sem er minna illt og jeg álít það engan veginn eins illt að basla hjer ofan af fyrir sjer og sínum, sem hitt að sækja hvern málsverð til sveitarstjórnarinnar. Jeg játa það fúslega að það er nálega ekkert, sem mjer þykir eins skemmtilegt eða viðkunnanlegt hjer eins og heima nema tíðarfarið að er stórum betra þó grimmt sje að vetrarlaginu. Kýr eru hjer svona upp og ofan að útliti og gæðum á borð við kýr heima og það er helsta kvikfjáreign nýlendubúa en jeg hafði aldrei mjög miklar mætur á kúm heima og get því ekki búist við mikilli skemmtun af slíkri eign. Hestar eru margir rjettfallegir en jeg legg ekki mikla þýðingu í það að geta sjeð þá tilsýndar: sjáflsagt eignast jeg aldrei hest framar. Kindur þær sem jeg hef sjeð eru svo miklu ljótari hjer en heima að jeg get ekki hugsað til þeirrar eignar í samanbuðri við íslensku kindurnar sem voru þolanlegar meðhöndlaðar. Að jeg fái hjer jafn skemmtilega bújörð og nú er kostur á að fá víða heima þykir mjer mjög vafasamt og er því reyndar nauða ókunnugur hvernig til hagar út í nýlendum því jeg hef ekki komið í neina þeirra ennþá; samt er jeg heldur á því að sums staðar sje allfallegt land og vafalaust una margir landar, sem út í nýlendur hafa farið allvel hag sínum enda eru menn alltaf að týnast hjer úr bænum smátt og smátt ýmist ofan í Nýja Ísland eða vestur í Þingvalla nýlendu. Þá eru og nokkrir, sem farið hafa út í Álptavatns nýlendu austan Manitobavatn.

            Jeg hef hvorki margt nje merkilegt að skrifa af sjálfum mjer. 23. júlí í sumar fór jeg út á svonefnda Rauðardalsbraut og vann þar á lyptigeng frá þeim tíma til septembrm. loka. Í kaup fjekk jeg hjerumbil 65 dollara og það mátti heita allgott eptir því sem atvinna hefur gengið í sumar. Nú er jeg kominn í skurðavinnu en það er ekki víst jeg geti hugsað upp á hana til lengdar því hún er mjög hörð þegar fer að frjósa. Jeg hangi sjálfsagt hjer í bænum í vetur en reyni svo að komast ofan í Nýja Ískand að sumri ef jeg lifi því jeg er naumast fær um daglaunavinnu ár og dag. Mjer hefur dottið í hug að bregða mjer ofaneptir snöggva ferð þegar minnkar um vinnu og ef jeg kem tórandi úr þeirri ferð aptur skal jeg skrifa ykkur kunningjum hofuðmikla landafærði.

            Guðmundur frá Skarfshóli vann um tíma með mjer á brautinni en svo fluttist hann alfarið suðu í Pembína. Síðan veit jeg ekki meir um hann. Ekki veit jeg neitt hvað varð um Guðlaug frá Reykjum. Eptir á að hyggja. Þú verður að fyrirgefa mjer að jeg varð orsök til þess að við þjerumst ekki framar. Jeg var sagður sjervitur þegar jeg var unglingur og eitt af því sjerviskulega sem alltaf loðir við mig er það að mjer finnst alltaf jeg standa í allt öðru og innilegra sambandi við á menn sem jeg þarf ekki að þjera í hverju orði. En til hvers er að tala um það. Vertu nú sæll í einu orði, æ að þjer hlotnist vetrar forði af hamingju gnægð hjer ofanað.

Þinn einl. vin Gestur Jóhannsson 


125 Youngstr. Winnepeg 30. sept. 88.

 

Háttvirti góði vin!

            Með innilegasta þakklæti fyrir nýmeðtekið brjef frá þjer dags. 18. júlí og 18. ágúst, skrifa jeg þessar línur. Sigurður Magnússon sagði mjer þegar hann kom í sumar að hann hjeldi jeg ætti von á brjefi frá þjer um þær mundir en sú von brást, eins og svo opt á sjer stað. Jeg veit að það munu fleiri en jeg skrifa þjer um þessar mundir og segja þjer almennar frjettir hjeðan, þess vegna ætla jeg að hlaupa yfir þær í föstum orðum, því “það er margt ef að er gáð, sem um er þörf að ræða”. Næstliðinn vetur var mjög frostharður og vorið óvanalega kalt framyfir fardag. Mjer fannst það rjett ámóta og gott meðalvor heima þegar hafís var hvergi nærri. Gróður var líka mjög lítill og mjólkurkúm  gefið með beitinni. Snjór var hjer aldrei mikill og hvarf algjörlega um miðjan apríl, eptir það hvítnaði aldrei á jörð svo jeg muni. Eptir maím. lok kom hjer indælast tíð svo grasið þaut upp á skömmum tíma og það má heita að sú sama veðurblíða hafi haldist til þessa dags. Það komu samt 2 eða 3 skarpar frostnætur í ágúst sem fóru mjög illa með hveiti, einkum syðra því ella hefði uppskera á hveiti orðið að líkindum afbragð; það er nú líka daglega að lækka í verði og því er enginn hlutur trúlegri en að öll kornvara lækki til muna í berði í “Evrópu”. Heilsufar stórum skárra en í fyrra og miklu færra dáið af nýkomnum börnum en þá. Landar eru nú komnir yfir 1100 að heiman í sumar og ekki hót fjölskrúðugri (sumir að minnsta kosti) en við sem vorum í Borðeyrarhópnum sæla og það er engin furða þó ekki gangi allt sem greiðast þegar annar eins fjöldi þyrpist hingað á sama blettinn ár eptir ár og flestir sem vinnufærir eru verða einungis að reiða sig á daglauna vinnu. Hveitiuppskera hjer vestra er arðsamasta og nauðsynlegasta vinna eins og heyskapur heima og það hefur löngum reynst lífakkeri nýkominna landa að komast í hana; en í sumar fór það allt á annan veg fyrir fjölda mörgum er suður fóru. Í fyrrahaust komu margir með talsvert á annað hundrað dollara eptir 3-4 mánuði og svo þyrptist manngrúinn þangað meiri en nokkru sinni áður um miðjan ágúst, en bæði fyrir því að þá skemmdist hveitið af frostinu svo bændur urðu lafhræddir og uppskera gat ekki byrjað fyrr en seint vegna vorkuldanna, sátu landar þar tugum og jafnvel hundruðum saman verklausir lengri eða skemmri tíma og urðu svo margir hverjir að koma aptur allslausir sem höfðu lagt af stað með nokkra dollara, og eru nú loksins ýmist komnir útá járnbrautir eða í vinnu til bænda hjer í Manitoba en þeir þykja ætíð borga lægra kaup en bændur syðra og naumast jafn áreiðanlegir.

            Nú eru landar hjer vestra byrjaðir á samskotum handa Jóni Ólafssyni því þeir búast við að hann verði dæmdur í fjesekt fyrir svarið til Gröndals. Jeg fyrir mitt leyti álít Jón slíkan klaufa í ritstörfum sínum að honum sje valla við hjálpandi. Það sýndist hægðarleikur fyrir hann að reka Gröndal ómjúklega í vörðuna án þess að hann þyrfti að brúka svo illa valin orð eins og hann gjörir. Jeg er þjer samdóma í því að ekki hafi Miðfirðingar almennt þurft að sakna Jósefs Jónadalssonar fyrir mannkosta eða siðprýðis sakir en miklu hygg jeg hann betri mann en B.G. því það er ósannað að Jósef ljái sig nokkru sinni til að rita eða tala jafn ástæðulausar skammir um saklaust fólk eins og Gröndal gjörir um Vesturfara – auðvitað á móti  betri vitund. Eggert Gunnarsson er hjá Gröndal einn af fremstu þeim nýtustu og heiðvirðustu mönnum, sem vestur hafa flutt frá Íslandi, en það mun vera fullkomin sannfæring margra Íslendinga að á síðustu árum hafi ekki verið uppi á Íslandi meiri fjeglæfra maður en Eggert Gunnarsson, hvað svo sem öðrum hans mannkostum líður. Það eru því engir skrópar heldur beinhörð kenning B.G. að Vesturfarar sjeu yfir höfuð ekki á marga fiska. En hvergi kemst Gröndal á eins hátt stig með fúlmennskuna eins og þar sem hann bríxlar Vesturförum um það, að þeir sjeu að senda peninga heim til vina og vandamanna aðeins til að gjöra sig merkilega. Þeir fara þó svei mjer ekki beinustu leið þessir menn, sem gjafirnar senda til þess að ávinna sjer þennan heiður, sem Gröndal heldur að þeir sækist svo mjög eptir, því nöfn þeirra sjást hvergi skráð nema í bókum póstafgreiðslumanna og það eru engin alþýðurit. Jeg er ekki kunnugur högum landa minna hjer en það er sannfæring mín að margir sem hafa sent peninga heim hafi ekki verið fjölskrúðugir eptir, en hjer er ekki jafnhætt við því að menn deyi úr hungri og heima þó snauðir sjeu ef þeir hafa góða heilsu og kjark til að bjarga sjer.    

Framhald af þessu bréfi var ritað 7. október.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband