11.1.2008 | 00:55
Reykjavík 3/1 1903
Elskulegi frændi.
Það er nú komin nótt við 10. bréfið, sem ég skrifa í kvöld með norðan- og vestanpósti, sem báðir eiga að fara á fyrra málið, svo að ég verð í þetta sinn mjög stuttorður.
Fyrst er kæri frændi að þakka þér þitt dásamlega bréf og þér sjálfum svo gagn líka - þeir eru smá saman að týnast burtu úr veröldinni ég meina okkar litlu íslensku og reyndar einnig annarsstaðar í veröldinni eftir ritum manna að dæma þessir menn, sem eru steyptir í einu formi með eitt auðlegt fysiognomi, í stað þess eins og nú tíðkasta að sjá Janusarhöfuð á því nær hverjum skrokk; að vera sannur maður þykir nú eigi lengur fínt; lygahjúpur hálfmenntunar og yfirdrepsskapar er sífellt að teygjast meira og meira, lengra og lengra út yfir þessa þjóð og gera allt okkar líf falskara en það hefur áður verið, hver skítuxinn, hver snauður sem að viti og þekkingu, vill tala með um allt milli himins og jarðar einungis til að sýnast, láta sjá sína excellence að hún sé til. Æ fyrirgefðu, frændi, þessa excursion, hún kom af því að ég var í kvöld á undirbúningsfundi undir bæjarstjórnarkosningar og sá og heyrði skítinn og óeinlægnina hjá ýmsum þeim, sem þar voru að breiða út vesaldarvængina. Ég er settur þar á Rauðidatlista, að mér nauðugum, og hef hingað til mest að því gert að spyrna á móti minni eigin kosningu, sjáandi fyrir mér mjög hvumleiða menn, og ef til vill af verstu sona bæjarins muni nú einnig fljóta með inn í bæjarstjórn í þessu 9 manna vali.
Við Pálma hef ég talað, fundur óhaldinn enn í stjórninni, hann stendur fast á því, að þú hafir einnig sent sálmabókin (800 og minni en þessi) frá 1589 á Parísarsýninguna. Áttu hana til? Elstu útgáfuna af sálmabókinni, útgefna á Hólum? En hvað sem því líður þá vil ég meina að Grallaranum sleppi þeir aldrei eða þeir eru forsvar. Ef þú átt hina bókina þá vildi ég biðja þig að unna safninu kaup á henni, því hún er eigi til þar, að mig minnir, nema eitt ræksni.
Hvað Miðfjarðarána snertir þá hef ég í dag skrifað Hirti Líndal og vona að annaðhvort þú eða ég fái svar frá honum innan skamms. Hitt viðvíkjandi yfirstjórninni með Austurárgilið er einskins vert, því annaðhvort gegnur minn Englendingur að boðinu eða eigi; vilji hann fá ána, þá þýða 100 kr. meira eða minna ekkert fyrir honum. En ég vil aftur nefna við þig, eins og í haust, að mér væri mjög vært, ef þú vildir senda mér skriflega lýsingu á ánni með öllu tilheyrandi (laxavon og þunga, veiðitíma etc) sem ég svo læt leggja út á ensku og sendi með bréfi mínu og athugasemdum.
Ég er í hálfvondu skapi út af skallatssóttinni, sem er komin á mitt heimili með sínu eftirdragi, frjálsu sóttvarnarhaldi etc. Litla Sigga liggur í henni og stúlkan sem gætti hennar er nú einnig orðin veik og þess vegna hef ég og konan mín ekki getað heimsótt blessað barnið þitt síðan ég kom til hennar á Þorláksdag og færði henni 5 krónurnar frá þér; þá var hún lík því sem hún hafði áður verið. Í gær heyrði ég hjá Jakobínu, konu Guðmundar, að hún hefði sagt eftir lækninum, að hitaveikin mundi vera hætt. Annars virðist mér hún bera sinn kross með því blíðlyndi og þeim hreinleika hjartans, sem henni sýnist svo hjartanlega eiginlegur.
Besti frændi minn; á þessu nýbyrjaða ári óska ég þér alls góðs og bið af hjarta, að þú fáir að halda augasteininum þínum unga, sem ég veit svo vel að þér sé einkar kær.
Með bestu kveðju til konu þinnar og barna.
Þinn ein. elsk. vin og frændi
Jón Jakobsson
Hvað á ég að gera við þá upphæð, sem þú færð fyrir bækurnar, senda norður eða borga út hér eða hvorttveggja? Þinn Sanni.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.