Mel 18. okt. 1902

            Kæra Guðný mín! 

            Nú er vika síðan ég kom heim og hefi ég opt til þín hugsað síðan; ég hefi svo hjartanlega kennt í brjósti um þig, ef þú skyldir hafa þurft að vera ein, eptir að Ragnheiður færi í burt; ég vona að frænkur okkar láti mjer ekki bregðast það öðru hvoru að koma og vitja þín. Fjarski langar okkur öll til þess að fá að sjá einhverja línu frá þér, þú skalt samt ekki hugsa um það að vera að skrifa mörgum, ef svo kynni vera að það væri þér óholt. Eitt brjef er nóg handa öllu frændfólkinu. Síðan ég kom heim get ekki sagt að ég hafi sjeð Böðvar, nema í svip á sunnudaginn var; hann hefir róið út í Bálkvík hjá Friðrik á Ósi og hafa þeir aflað heldur vel, enda hefir gefið í besta lagi. Flest trippin er ég nú búinn að sjá, og held ég að ekkert þeirra hafi dafnað eins vel og Sjarna þín og Glæsir Skúrarson, og er nú munur að sjá þau aptan fyrir hjá því sem var í vor þegar taðkleprarnir hringdu hvað lítið sem þau hreyfðu sig. Þau eru nú öll hin taglprúðustu. Eins og þú kannski mannst var gaflhlaðið í folaldahúsinu snarað til suðurs: meðan ég var syðra hafði Guðmundur gamli farið að gjöra við það, en það var svo illa gert að ekki var annar kostur en að láta rífa það allt; nú eru þeir að gjöra það upp að nýju, og hefi ég nú gluggann sunnan á stafninum, sem áður var á hliðinni; verður fyrir það betri birtan á vesalings folöldunum, og enginn leki, og er hvorutveggja mikil bót.  Ég mun hafa skrifað þjer frá Fögrubrekku, að hjerna hefði fjölgað hjá þeim Sigurvin og Katrínu, auk þess hafa Syðri Reykjahjónin og Hvammstangahjónin Sigurbjarni og Soffía eignast bar; fyrsta barnið sem fæðist í þeirri borg. Þetta eru nú mestu tíðindin, sem ég man eptir í svipinn; enda mun hitt fólkið sem skrifar með Skálholti tína það til sem ég hefi gleymt. Þuríður segist hafa skrifað þjer með vegabótamönnum, sem fóru í gær; sömuleiðis Imba. Nú er þjóðvegurinn kominn alla leið austur á bakka, svo að nú er ekki lengi verið að skeiða yfir Hrútafjarðarháls. Á Miðfjarðarhálsi hefir einnig verið gert við alla verstu kaflana austur undir Sporðshús.

            Enginn veit enn hver verða muni eigandi að Guðrúnarkoti; nú hvorki vill Guðrún gamla kaupa af syni sínum, nje getur það, en hann talinn ráðinn í að fara burt strax eptir kauptíðina; en um það verður maður orðinn fróður áður en póstur næst fer suður um, hver sitja muni uppi með slotið;  Björn Jónasson er einn tilnefndur, enn er haft eptir Guðrúnu gömlu að það hefði mátt ætla syni sínum það, að hann mundi ekki velja af verri endanum, þegar hann færi að ráðstafa þeirri eing sinni; sagt er að samkomulagið færi sín versnandi og er illt til þess að vita.

              Ég er að vona að góður guð gefi það, þegar ég næst fæ frjettir frá þjer, að þær verði eithvað í bataáttina. Já vel á minnst; varstu vegin þegar þú komst inn á spítalann, og hafi svo verið hver var þá munurinn þegar póstur fer næst norður um? Auðvitað getur maður ekki búist við jafn hröðum bata hjá þjer eins og hjá Ragnheiði; þú getur ekki sleikt þjer eins mikið af sólskini og hún, en blessuð sólin vinnu hjer sem í öðru mikið verk og gott, en allt um það, ég vona alls hins besta; berðu kærar kveðjur bæði systur Elísabet og öðrum, er að þjer hlynna.  Vertu svo margblessuð og sæl og guði falin.

Þinn elskandi faðir

Þorvaldur Bjarnarson

Allir biðja kærlega að heilsa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 356

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband