22.2.2008 | 00:07
Barði 22. febr. 1900
Hinsvegar skrifaða skilmála lofa ég undirskrifaður að halda.
Sveinn Guðmundsson
Byggingarbrjef fyrir Barði til Sveins Guðmundssonar
Ég undirskrifaður Þorvaldur Bjarnarson prestur að Mel í Miðfirði byggi hjer með hjáleiguna Barð næstkomanda fardagaár Sveini bónda Guðmundssyni, er nú býr þar, með þeim skilmálum, er nú skal greina:
- Hann skal verja engjar mínar fyrir öllum gripaágangi, hvort heldur er frá Söndum eða Svertingsstöðum, eða hans eigin gripum.
- Hann skal kostgæfilega hirða allan áburð, er tilfellur og láta hann koma túni býlisins til nota; má hann því alls ekki hafa til eldsmatar neitt það tað, er tilfellur undan fjénaði þeim sem hann hefir á býlinu, hvorki nautamykju, sauðatað njé hrossatað.
- Hann skal gjöra fyrir næstu veturnætur skurð sjötíu faðma langan þriggja álna breiðan og álnar djúpan og klæða úr grasrótinni garð á skurðbarminn. Skurð þennan og garð ásamt þeim tvöhundrað föðmum af samskonar skurði og garði, er hann var skyldur að gjöra fyrir þau fjögur ár, er hann hefir samið þar í næstu fardögum, og skal hann svara fimmtíu aurum fyrir hvern faðm af ofanumsamdri faðmatölu, sem ógrafinn er og óhlaðinn, og svari það álagi jafnskjótt og hann fer frá býlinu.
Mel 22. febr. 1900
Þorvaldur Bjarnarson
21.2.2008 | 01:43
Akureyum 1-2-1873
Sr. Þorvaldur Bjarnarson
Velæruverðugi elskaði herra!
Ég þakka yður alúðlega tilskrifið frá 30 aug. f. á. Þar næst verður, að kannast við, að ég hafi í ritgörð minni harmað prestunum, yfirhöfuð, niður, að hér í landi hafði þá vantað, og vantaði enn, virðingu og fjármuni. - Að ég nú dragi frá öll sjálfskaparvíti, sem hjá nokkrum hafa, að miklu leyti, þessu valdið, og taka fátæktina, sem meðskapaða fylgni af ábyrgð þeirra og umsjón staða, kirkna, jarða og kúgilda, einnig af óhagkvæmum og litlum launum, sem voru all víða ekki ómaksins verð, þó ekki verði með vissu sagt, hvað lítil þau voru: Því af hinu óhreina brauðamati stenst það ekki, næst fátæktinni má taka hennar afkvæmi fyrirlitninguna, eins og í vísunni segir: Strax er fátækur stunginn frá, styður ríkan alþýða og er það ekki sjálffengið þegar presturinn er svo fátækur, að hann getur ekki klæðst eptir standi, hallur í skuldir, heldur ekki staðarhúsunum við líði, og verður í flestu upp á aðra kominn að hann sé fyrirlitinn, og um hann raulað með postula rödd: Hvernig mun sá geta veitt góða forstöðu guðs söfnuði, sem getur ekki veitt hana sínu eigin húsi? Þessi meinsemda kjör prestanna læknast ekki með vorkunnlætisins Ultra posse þó það sé viðlagt, nje með gratza publica admirationia þessari. Hann er rétt góður ræðumaður og syngur og tónar eptir Guðjónsens nótum, þó hún sé inntekin; þau bætast betur með því, að presturinn kunni alla búnaðarhætti og fái markavit, í staðinn fyrir að geta lesið Hómer og brúkið Nýársnóttina; þau bætast með því, að drepnir séu átuormarnir úr álnum hans, ábyrgðin á stað og kirkju m. fl. sem á honum liggur, og með því, að hann sé betur launaður, svo hann geti orðið nytsamur og lifandi, en ekki sem dauður og grafinn, félags limur, og áunnið virðingu meðbræðra sinna, sem þykir mikils verð hjá öllum siðuðum þjóðum, og er, meðal annars, innfalin í, að gefa heiðurs teikn, þó þau verði honum, af ókunnugleika og áráttu meðhaldi, vanbrúkuð svo, að þau hafist á nautshausa og villidýr að vísu ann ég ekki Titlunum, sem þó þeir séu veittir í heiðursskyni, að sínu leyti, frá krossunum, eins og gömlu Banca seðlarnir hjá gull- og silfurpeningum, enda eru þeir nú fallnir, eins og seðlarnir, og orðnir í sinni náð, annar gjaldþrota voblurinn frá Dönum. 5: Þeir hafa ekki haft, á móts við titlana, nóg fyrirliggjandi af hinni sönnu ærum.
Væri rétt handarhald brúkað á heiðursteiknunum, ég meina nú ekki titlunum er því síður, að ég álíti, að prestarnir ættu ekki að hafa þau. Sem ég held best viðeigandi, að þeir hefðu þau tvö annað, af silfri, þeim veitt, eptir kringumstæðum, eins og öðrum nytsömum mönnum, fyrir dáð og dugnað í veraldlegri stöðu, og annað, kross af hreinu gulli - hinum er viðgengst, nokkuð ólíkan, og sem engum gæfist utan prestunum - til heiðurs og endurminningar um hinn heilaga kross, sem er merki það, er embættismenn hins andlega ríkis, eiga að bera og berjast undir í heiminum, og því eru þeir ekki réttnefndir embættismenn jarðneskra konunga, heldur þessa ríkis skiptana og konungs, þó að þeir, sem aðrir félags limir, standi undir þeim, og séu þeim, sem slíkir, um hlýðni skyldugir, og sem slíkir, geta þeir líka gjört sig verðuga fyrir heiðursteikn, ekki síður en aðrir, og ætti ekki, án nokkurs greinarmunar, að hringla þessu tvennu saman.
Þannig skeður það, að prestum var tvöfaldur heiður, eins og postulinn segir í Tím 5.17 þegar þeir standa vel í hvorutveggja stöðinni, og honum var annt um, Rom. 13.7, að friðurinn sé ekki af neinum dreginn sem verðskuldar hann, og verði hér nokkrum af kirkjunnar sonum skylt, að sjá um það, hvað prestana snertir, þá var það biskupinum, sem ætti líka að stuðla sem best til, að þeim gjörist mögulegt, að gjöra sig sem heiðurs verðasta, en að sú tilhlýðandi athöfn - veiting á heiðursteiknum - eigi að óvirðast eða afmást fyrir það, þó mörg finnist dæmi til, að hún - eins og margt sem var í sjálfu sér gott hafi vanbrúkast, skil ég ekki.
Einn kann t.a.m. vera góður bú-dugnaðar- og framkvæmdar-maður, sem láti mikið gott af sér leiða fyrir félag sitt og heiti þess máttarstoð; en er ónýtur kennimaður, afskiptalítill um embætti sitt, breiskur og brokkgengur. Annar þar á móti, lítill bú- og framkvæmdar-maður til jarðneskra skyldna, en stundar í öllum greinum vel embætti sitt, og er lastvar og dagfars góður. Á þá ekki að veita þeim heiður sem heiður heyrir svo, að hinn fái silfur táknið, en þessi gullkrossinn? Og sá sem í góðum kostum skarar fram úr í kostum skarar fram úr í hvoru tveggja, tvöfaldan heiður?
Ég læt það vera við sett verð, sem máli þessu ef til vill, sé viðkomandi, hvort það hefur verið Miklagarðs Gnýfari, annar harðstjóri, eða heiðingi og óvinur krossins Xti. Phil. 3-18. er hafa þekkt kraftinn einungis sem smánarlegt pínslar færi, og því hengt hann sem þræla merki á þá, sem þeir álitu ekki heiður verða, þar á móti kristnir, láta krossmarkið vera sér til verðar minninga um hinn heilaga kross, er þeir hrósa sér af, líkt sem postulinn Gal.6.14. Eph.2.16. og ætla ég, að það hafi verið brúkað, svo vel undir krossförunum, sem löngu áður og eptir , sem rétt trú aðra vegsemdar og heiðurs merki í kristninni, og frá Dönum, sem lands og heiðurs merki frá 1219, er þeir háðu hina miklu Valmar orrustu undir Valdemar Ita fögnuðu þeir þá fyrst merki sínu og ætluðu þar nærst að leggjast á flótta, fyrir liðsfjölda sakir heiðingjanna. Þá segir í gamalli legendu, að Andrés nokkur erkibiskup hafi staðið á hæð, með bænagjörð og upplyftum höndum, líkt og ekóiser forðum frá Israel barðist við Amalek, og skyldi hið heilaga krossmark, hvítt á rauðu merki, hafa liðið þar hægt niður frá himni, og rödd heyrst er sagði: þegar þetta merki er hátt borið munuð þér sigur vinna, og átti það að verða, og ótti að koma yfir heiðingjana, svo þeir flýðu; að endaðri orrustunni, féllu Danir á kné, og þökkuðu guði sigur sinn, en Valdemar sló 35 menn til riddara undir merkinu og var það kallað Danamerki; en af honum það var kennt, við danska brók, man ég mig ekki að hafa lesið, eða hvar stendur það?
Að ég drepi hér um tíð dálítið á gamanið yðar um, að banna prestunum að gipta sig þá óttast ég fyrir, við hinir yngri létu síga brýrnar, ef stjórnin færi, óvænt að banga saman piparsveina lögmál 2. janúar 1874; en óhræddir megið þér muna um mig, sem hafi lesið postulans orð 1 Tim 4, að ég verð aldrei þó ég gjörist nú gamall-fundinn í tölu þeirra sem banna að giptast. Ávöxturinn af því lögmáli yrði vafalaust sá, að flestir færu að róa yfirskipa, heldur en að banna til ógna 1. Cor. 7-9, og mér liggur við að kalla kraptaverk, að þér haldist svo við í þriðja flokki þeirra manna sem getur um hjá Matth. 19. 12. að yður hitni aldrei um hjartaræturnar, annars skyldi ég leyfa mér, að bera undir yður, sem góðan guðfræðing, hvort þér haldið, að það sé nokkur barátta á milli holdsins og andans í hinu fyrsta flokki; en báðum mun koma saman um, að þeir í öðrum flokki verði aumkunar verðir, einkum slíkir sem Dagur á Hrauni meðan þeir missa vitni sín, og líklega verða þeir ekki allir óróa lausir, fá um nokkuð að vera.
Þó að þetta sé orðið ærið langt, verður að auka nokkru við það, um sölu á prestajörðunum, og stytti ég mér leið með því, að láta hér með fylgja eptirrit af bréfi sr. Ólafs: Skoðun hans á málinu sýnist, í sumu tilliti, að taka lítinn afkrók frá ritgjörð minni; en lendir þó við sama. Reikningurinn frá honum þykir, ef til vill, nokkuð ónákvæmur, og er það vorkunnandi; því varla verður mögulegt að finna, af jarðabókinni, hundraðatal nefndra jarða, sem liggur þar alls á sundrungu, og var að auki byggt á óvissri verðhæð þeirra, er samanstóð yfir allt eina og sérhver annar verðlagskrár reikningur af meðal vitleysum allrar vitleysu, og þá bætir ekki brókin um fyrir bolstöfunum, brauðamatagjörðin; en svo fráleitir sem þessir þjóðardýrgripir virðast - jarðamat og brauðamat, sem hvergi verða mældir við hrein afgjöld, eða hreinar tekjur, heldur miðaðir við algalinn slumpa reikning - kannski eptir reglum menntaðra kauða má þó af þeim ráða, eptir því sem næst verður farið, að c: helmingur af verði prestajarðanna, yrði ekki allfáar þúsundir ríkisdala, til viðbótar brauðunum, einkum, ef þau væru ekki fleiri en 120, sem sýnist nægilegt, með aðstoðarprestsþjónustu í því brauðinu, þar sem þyrfti, hvar hinn virkilegi prestur ekki sæti. Ég segi: c. helmingur verða, vegna þess, að landskuldin - sem mér sýnist hentugra, að ára hepti á jörðinni, eins og hún væri ákveðin við söluna, líkt sem leignagjaldið nú, frá bænda kirkjunum orsakar, að gjöra mætti veð fyrir, að ekki fangist, upp og niður, múra; en hálfvirði fyrir jörðina; t.d. 20H jörð með vætta landsk. og 4 kúgl. - algjald 8 vættir og talin 1000uð virði, en vegna landsk: kvaðarinnar sem er 20H helst hún ekki meir en 500uð í réttu kaupi, og setjum af öðrum ástæðum, að kúgildin fengjust borguð með 150uð, og þá héti skoða kaupið á jörðinni orðið um 350uð, en allt um þetta, yrði þá hvöt fyrir bóndann, að eignast kúgildin með jörðinni, að hann fengi að borga hana í hægðum sínum, og hans notagildi yrði, það leignamálin kynni að fækka af jarðaræktinni og landskuldar kvöðin, er setur jörðina niður um helming verðs, þarf ekki að verða honum meira fráfæru efni, en leignagjaldið hinum sem eiga bændakirkjurnar.
Ég hafði í ritgjörð minni gjört ráð fyrir, að presturinn hefði í prestakalli hverju hentuga bújörð, og hún ætti að vera kirkjuláns, að hann yrði fyrir sem minnstum átroðningi, og án kúgilda, því þar gæti hann annað tveggja keypt af fráfaranda, eða fengið sér laus kúgildi, sem hann mætti skila nær hann vildi.
Eptir áðurtöldu yrði presturinn laus við úr sjón og ábyrgð á stað. Kirkju, jörðum og kúgildum í brauðinu, utan einungis á kúgildafé frá ábýlisjörð sinni, og haldi, eptir sem áður, vissum forða í landskuldunum, en kúgildin færu frá, og þau liggja ávallt undir tjóni og töpun í fjár sykir og harðærum; en á hina hliðina er ekki hægt að segja, í fljótu bragði, hvað mörg 100000nl kæmu inn fyrir prestajarðirnar í staðinn fyrir að nú er ekkert til að bæta með kjör prestanna.
Þetta málefni er svo mikilsvert, að fastheldni og hleypidómar ættu ekki að ná til að spilla því, án réttilegs ransaks, og vegnist, að því gjörðu, sem varla er að efast um, að salan mætti verða til fagnaðar fyrir prestana, ætti biskupinn að fá sér ódauðlegt nafn í landinu með því, að stuðla til, að hún gæti sem fyrst framfarið.
Loksins til uppstyllingar gríp ég vísu, öldungis rétttekna efptir gömlu blaði, ég verð að appellera frá henni undir dóm skólakennara Jóns Þorkelssonar, og bið yður, að framfylgja málinu: en svo dómarinn verði sannfærandi, þarf hann að innihalda vísunnar redaotimem in erdinem, explioationem verborum, og útlegginguna í heilu lagi, og fylgir nú hérnæst umgetin
Vísa fornkveðin
Tilgáta ...l
Af því ég komst ekki til að borga bréfið yðar in natura í réttan gjalddaga, má ég fremur biðja forláti á, að ég get ekki goldið í góðum eyri, heldur en á því, að ekki sé nóg framboðið; því sjálfur er ég orðinn þreyttur af að mæla yður út og vega þessa vörn, og vænti eptir kvitteringu við tækifæri.
Guð veri með yður!
Óskar vinsamlegast
:Eggerz:
ESK: Þér gjörið svo vel og talið við samfundi um þetta mál við arressar I.P. ef ég skyldi ekki komast til að...
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2008 | 23:47
Öfugmæli í vísum
- Í eld er bezt að ausa snjó
eykst hans log við þetta
gott er að hafa gler í skó
þá gengið er í kletta.
2. Blýið er vænt í beitta þjél
boginn stein má rétta
á fjöllunum er flest af sel
í fjörunni berin spretta.
3. Grjót er bezt í góða lóð
af gleri má nagla smíða
á hörðum strengjum helzt rann voð
hundi flestir ríða.
4. Hland og aska er hent í graut
hreint fer verst á drósum,
innst í kirkju opt eru naut
en ölturin sjást í fjósum.
5. Fljóta í burtu flæðarsker
fljúga upp reiðarhvalir,
blágrýtið er blautt sem smér
blýið er hent í þjalir.
6. Eitur er gott í augnarinn
ýrt með dropa feitan,
það er gott fyrir þyrstan mann
að þamba kopar heitan.
7. Fundið hefir fífan græn
frost trúi ég kopar renni,
heilaga tel ég buskubæn,
blessan er nóg í henni.
8. Fljúganda ég sauðinn sá
saltarann hjá tröllum
hesta sigla hafinu á
hoppa skip á fjöllum.
9. Fiskurinn hefir fögur hljóð
finnst hann opt á heiðum
æranar renna eina slóð
eptir sjónum breiðum.
10. Kisa spinnur bandið bezt,
baula kann tréð að saga,
hrafninn opt á sjónum sést
synda og fiskinn draga.
11. Í eldi miðjum einatt frýs,
enginn viðnum kindir,
á flæðiskeri eru flestar mýs,
fallega hrafninn syndir.
12. Séð hefi ég marhnút mjólka geit
magran þorskinn sníða skjól,
karfann fara í kúaleit
konupung sníða skriptaskjól.
13. Séð hefi ég lýsuna lesa rit,
lýrann horfa á fræðakver,
keiluna iðka kirkjurit,
karfann gjöra að gamni sér.
14. Séð hefi ég búra berja fisk
blágómuna sníða saumi,
hákarl renna hörpudisk
hnísuna stinga beizlistaum.
15. Séð hefi ég hegrann synda á sjó
súluna á fjöllum verpa
álptina sitja við ullartó,
örninn bálið snerpa.
16. Séð hefi ég kapalinn eiga egg
álftina folaldssjúka
úr reyknum hlaðinn vænan vegg
úr vatninu yst var kjúka.
17. Séð hefi ég páska setta á jól,
sveinbarn fætt í elli,
myrkrið bjart en svarta sól,
synt á hörðum velli.
18. Séð hefi ég köttinn syngja á bók
selinn spinna hör á rokk
skötuna elta skinn á brók
skúminn prjóna smábandssokk.
Skyrið er í skeifu skást
skúmur drekum veldur
í lífkaðal skal fífu fá
frýs við pottur eldur.
Hafa þeir dún í hafskipin
hála gler í möstrin stinn
elta þeir steininn eins og skinn
í ólar rista fuglsbeinin.
Séð hefi ég flóna flóa mjólk...
Skráð með rithönd Þ.B.
Vísindi og fræði | Breytt 29.1.2008 kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.1.2008 | 22:02
Hótel Goðafoss 20/1 1930
Elsku systir mín!
Gleðilegt nýár og þakka fyrir það liðna. Jeg þakka þér kærlega fyrir bréfið þitt, sem mér þótti afar gaman að fá, það er svo indælt að frétta þarna að heiman og fylgjast með þó maður geti ekki tekið þátt í því sem gerist. Af mér er allt ágætt að frétta, ég er alltaf vel frísk og hef ekki mjög mikið að gera, er yfirleitt farin að kunna mjög vel við mig hér. Jeg skemmti mér þó nokkuð um jólin, það var alltaf verið að bjóða mér, ég hafði ekki við að fara í öll þau boð og er ekki farin að fara í sum þeirra ennþá. Jóninna gaf mér veski og silkisokka í jólagjöf, ég er nú ekki farin að koma í þá en nú er ég búin að koma mér upp svörtum taukjól ansi laglegum og nú ætla ég að vígja hvortveggja í senn sokkana og kjólinn. Jeg fór til Herdísar á jóladaginn þar er nú hressandi að koma, svo fór ég til Sveðjustaðasystkinanna og Gunnlaugs Guðjónssonar. Jeg hitti Svöfu frá Tjarnarkoti nokkrum sinnum og nú erum við sammældar niðureftir til Sveðjustaðasystkina eitthvert kvöldið. Nú erum við bara þrjár því Jóninna fór suður með Esju og verður þar sjálfsagt hálfan mánuð, það munar þó nokkru að vanta hana því bæði hjálpar hún okkur við það sem gera þarf og er svo fljót að ráða frammúr ef eitthvað er. Jæja Sigga mín, jeg man nú ekki fleira núna og er alveg að sofna útaf við þessa vitleysu, ég bið þig að fyrirgefa það allt. Jeg bið kærlega að heilsa öllum. Vertu svo blessuð og sæl og líði þér sem best fær óskað þín elskandi systir
Hólmfríður Friðriksdóttir, Ósi
Þetta bréf var skrifað til ömmu minnar, Sigríðar Friðriksdóttur, sem ólst upp hjá ömmu sinni maddömu Sigríði Jónasdóttur á Barði. Þær nöfnur deildu sama afmælisdegi, 10. júní. Aðeins munaði 3 klst. á að sú er þetta ritar hefði einnig deilt með þeim sama degi.
Vísindi og fræði | Breytt 28.1.2008 kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2008 | 00:01
Hvammsdal 14. jan. 1891
Mad. S. Jónasdóttir!
Innilegasta þakklæti fyrir yðar góða brjef, með sendimanninum frá Söndum, samt fyrir ágætar mótttökur og öll alúðlegheit í haust. Í haust, þegar jeg tók til meðölin fyrir drenginn yðar hyrti jeg lítið um að láta beinlínis við verkjum, því jeg hjelt að það kvæði ekki mikið að honum og valdi honum styrkjandi meðöl. Jeg gat þess hver af meðölunum ættu helst við verknum, og hefuð þjer vel mátt brúka þau, eða rjettara sagt, láttu hann brúka þau á undan hinum. Það var ekki að búast við að verkurinn dvínaði við 1. glasið, því það átti alls ekki við honum.
Jeg sendi yður hjer með 3 lítil glös Gratís, - uppá lítilfjörlegum kunningsskap. Þau eiga beinlínnis við verknum hvernig sem nú gengur að hafa hann á burt. Látið hann nú brúka þau eptir röð, ásamt 6. gl. af meðölunum þeim í haust, og á það að vera það 4. í röðinni. Látið hann brúka hvert gl. í 2 daga 3-5 dr. 4 sinnum á dag og fellið út 3. daginn. Ítrast sem þjer merkið bata, fellið þjer úr fleiri daga, og látið hann taka sjaldnar inn. Ef þetta dugir ekki, sýnist mjer ráð að fá góðan samsettan langdragangi plástur og leggja hann á herðabóginn rjett á milli herðablaðanna og láta hann sitja á meðan hann tollir við og dregur eitthvað; hann á að draga í sig smábólur. Það má búast við því að drengurinn hafi flugverki um brjóstið við og við, á meðan plásturinn liggur við. Nú sem stendur á jeg ekki plásturinn til, en jeg get útvegað hann, ef hann fæst ekki góður hjá Júlíusi lækni. Þó plásturinn sje viðhafinn má vel brúka Homöopatha meðölin fyrir það.
Mjer hefur gengið vel að lækna kíghóstann og þessa vondu kvefveiki sem hjer hefur gengið í vetur; jeg hef ekki misst eitt einasta barn hjer um pláss úr veikinni. Hjer í kringum mig hafa börnin ekki verið mikið veik nema í 2-3 daga.
Jeg bið yður nú að fyrirgefa rispið, sem endast með kærum kveðjum og bestu óskum til yðar og manns yðar.
Með vinsemd og virðingu
Yðar
M. Guðlögsson
Homöopath.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2008 | 00:18
Hvammi 6. janúar 1903
Kæra Sigga mín!
Ekki komumst við lengra en að Fornahvammi í gær frá Fögrubrekku. Ferðin var afbragðsgóð yfir heiðina suður að Hæðasteini; eptir það voru öðruhvoru élar ofan í heiðarsporð, en við fengum skafbál yfir allar hæðirnar og enn verra ofan dalinn frá sæluhúsinu, svo að við gátum ekki lagt upp að eiga við að fara lengra í gærkveldi en að Fornahvammi, með því að við töldum okkur víst þar sem færðin er svona góð að ná suður af þessa vikuna.
Ég hefi eins og við er að búast ekkert frjett enn að sunnan, og frjetti það sjálfsagt ekki fyrr en ef það verður í Kjósinni; ég er að verða loppinn svo að ég slæ hjer í botninn.
Vertu ætíð margblessuð og sæl
ætíð þinn
Þorvaldur Bjarnarson
Berðu bestu kveðjur, og biddu piltana að muna mig um að láta ekki veturgömlu trippin berjast lengi úti í harðviðrum og hörku frostum, sem allt útlit er fyrir að hann sje nú að ganga yfir sig.
Þ.B.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.1.2008 | 00:55
Reykjavík 3/1 1903
Elskulegi frændi.
Það er nú komin nótt við 10. bréfið, sem ég skrifa í kvöld með norðan- og vestanpósti, sem báðir eiga að fara á fyrra málið, svo að ég verð í þetta sinn mjög stuttorður.
Fyrst er kæri frændi að þakka þér þitt dásamlega bréf og þér sjálfum svo gagn líka - þeir eru smá saman að týnast burtu úr veröldinni ég meina okkar litlu íslensku og reyndar einnig annarsstaðar í veröldinni eftir ritum manna að dæma þessir menn, sem eru steyptir í einu formi með eitt auðlegt fysiognomi, í stað þess eins og nú tíðkasta að sjá Janusarhöfuð á því nær hverjum skrokk; að vera sannur maður þykir nú eigi lengur fínt; lygahjúpur hálfmenntunar og yfirdrepsskapar er sífellt að teygjast meira og meira, lengra og lengra út yfir þessa þjóð og gera allt okkar líf falskara en það hefur áður verið, hver skítuxinn, hver snauður sem að viti og þekkingu, vill tala með um allt milli himins og jarðar einungis til að sýnast, láta sjá sína excellence að hún sé til. Æ fyrirgefðu, frændi, þessa excursion, hún kom af því að ég var í kvöld á undirbúningsfundi undir bæjarstjórnarkosningar og sá og heyrði skítinn og óeinlægnina hjá ýmsum þeim, sem þar voru að breiða út vesaldarvængina. Ég er settur þar á Rauðidatlista, að mér nauðugum, og hef hingað til mest að því gert að spyrna á móti minni eigin kosningu, sjáandi fyrir mér mjög hvumleiða menn, og ef til vill af verstu sona bæjarins muni nú einnig fljóta með inn í bæjarstjórn í þessu 9 manna vali.
Við Pálma hef ég talað, fundur óhaldinn enn í stjórninni, hann stendur fast á því, að þú hafir einnig sent sálmabókin (800 og minni en þessi) frá 1589 á Parísarsýninguna. Áttu hana til? Elstu útgáfuna af sálmabókinni, útgefna á Hólum? En hvað sem því líður þá vil ég meina að Grallaranum sleppi þeir aldrei eða þeir eru forsvar. Ef þú átt hina bókina þá vildi ég biðja þig að unna safninu kaup á henni, því hún er eigi til þar, að mig minnir, nema eitt ræksni.
Hvað Miðfjarðarána snertir þá hef ég í dag skrifað Hirti Líndal og vona að annaðhvort þú eða ég fái svar frá honum innan skamms. Hitt viðvíkjandi yfirstjórninni með Austurárgilið er einskins vert, því annaðhvort gegnur minn Englendingur að boðinu eða eigi; vilji hann fá ána, þá þýða 100 kr. meira eða minna ekkert fyrir honum. En ég vil aftur nefna við þig, eins og í haust, að mér væri mjög vært, ef þú vildir senda mér skriflega lýsingu á ánni með öllu tilheyrandi (laxavon og þunga, veiðitíma etc) sem ég svo læt leggja út á ensku og sendi með bréfi mínu og athugasemdum.
Ég er í hálfvondu skapi út af skallatssóttinni, sem er komin á mitt heimili með sínu eftirdragi, frjálsu sóttvarnarhaldi etc. Litla Sigga liggur í henni og stúlkan sem gætti hennar er nú einnig orðin veik og þess vegna hef ég og konan mín ekki getað heimsótt blessað barnið þitt síðan ég kom til hennar á Þorláksdag og færði henni 5 krónurnar frá þér; þá var hún lík því sem hún hafði áður verið. Í gær heyrði ég hjá Jakobínu, konu Guðmundar, að hún hefði sagt eftir lækninum, að hitaveikin mundi vera hætt. Annars virðist mér hún bera sinn kross með því blíðlyndi og þeim hreinleika hjartans, sem henni sýnist svo hjartanlega eiginlegur.
Besti frændi minn; á þessu nýbyrjaða ári óska ég þér alls góðs og bið af hjarta, að þú fáir að halda augasteininum þínum unga, sem ég veit svo vel að þér sé einkar kær.
Með bestu kveðju til konu þinnar og barna.
Þinn ein. elsk. vin og frændi
Jón Jakobsson
Hvað á ég að gera við þá upphæð, sem þú færð fyrir bækurnar, senda norður eða borga út hér eða hvorttveggja? Þinn Sanni.
10.1.2008 | 00:35
Winnigpeg 3. janúar 1885
Elskaða æskuvina mín!
Góður Guð gefi þjér og þínum gleðilegt nýár. Jeg þakka fyrir sem best jeg get, fyrir allt fyrst og síðast. Elsku Sigríður! Fyrirgefðu mjér hvað efnislítið er brjéfið mitt. Jeg flýti mjér æfinlega of hef lítinn tíma, og er löt að skrifa. Jeg er eptir í skrifum, því til að vera Ameríku maður þarf maður allt að læra, og þá er fyrsta stigið að vinna á vistum og læra. En það venst fyrir þá samt sem hafa átt eins gott og jeg heima á Íslandi. Já elsku Sigríður! Það er mikil breyting sem fyrir mig hefur komið. Mjér hefur samt alltaf liðið heldur vel fyrir góða Guðs náð. Jeg hef alltaf þreifað á Drottins hjálp yfir mjér og mínum munaðalausa hóp.
Nú er jeg í sama húsi og Gunna litla dóttir mín. Það er ansi fínt bordíng hús.Við höfum 12 dollara um mánuð hver okkar. Solla litla er í næsta húsi við mig hjá bróður húsbónda míns og líður henni og okkur öllum vel. Dóra hefur 10 dollara bolla belskera og Pete of Ránka vinna fyrir fötum og fá að ganga á skóla litla stund á hverjum degi. Með Hrefnu gef jeg 6 dollara um mánuð, hún er hjá ritstjóra Leifs Helga og Ingibjörgu dóttir séra Guðmundar á Arnarbæli. Þau eru góð hjón og heimili þeirra eitt hið merkasta meðal Íslendinga hér og erum um 1000 í Winnigpeg það er að segja þúsund Íslendingar en ekki 1000 heimili Íslendinga. Jeg hef verið í vistum síða í júní, fyrr gat ég það ekki. Jeg var eitthvað svo svekt og kjarklaus eptir þann mikla missi sem jeg varð fyrir hjer strax eptir J dó. Já það var hart að standa uppi einmana með 6 börn og Inga litla mállaus í ókunnugu landi. En Guð lagði okkur alltaf eitthvað til. Börnin komust strax á fremur góða staði nema Hrefna, hún var eftir ein hjá mjér. Nú er það harðasta af fyrir okkur telpurnar tala allar orðið ensku, og jeg get vel fleitt mjer sjálf. Jeg er nú að hugsa um að vera ekki í vistum nema til vorsins. En hvað jeg tek þá fyrir veit jeg ekki nema valla gipti jeg mig. Það er samt hægt hjer ef maður vill. En jeg hef ekki felt mig við neitt svo leiðis samt, og jeg held helst jeg gjöri það aldrei meir. Jeg sé mjér getur liðið eins vel svona. Þá er nú best að byrja á brjefsefninu því formálinn er nú orðinn heldur langur. Svo er mál með vexti að jeg fjekk brjef frá móður minni. Í því las jeg að móðir mín er komin frá bróður mínu, ósköp er að vita til þess að önnur eins móðir og hún er skuli ekki geta verið hjá því barni sínu sem hún nær til. Jeg er hrædd um að henni leiðist. Jeg þakka þjér líka ynnilega fyrir hana besta Sigríður! Það var eptir þjér að reynast henni vel. Nú vildi jeg helst að mamma kjæmi til okkar. Jeg ímynda mjér henni leiddist kannski breytingar, en hún er skynsöm og ef hún sæji að okkur liði bærilega sem jeg vona að verði mundi hún gjöra sig rólega. Jeg veit fáa skynsama vilja fara heim aptur og sumar gamlar konur lifa á að prjóna hjér. Svo er hún svo ágæt yfirsetukona. Jeg skil ekki í hún þurfi neitt að verða okkur til byrði, og þó svo yrði mundum við einungis hafa ánægju af að geta hjálpað henni. Jeg hef skrifað henni núna og sagt henni mína meiningu. Hún ræður...
Bréfslok vantar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar