Kaupmannahöfn 5/9 1892

Elskulega vinkona

Mitt besta þakklæti fyrir allt gott á þessi miði að færa þjer.

Þú ert nú víst eða verður þegar þetta brjef kemur búin að sjá og heyra ferðasöguna og hvernig jeg var sett fyrstu dagana, en nú líður mjer vel.

Jeg var ekki búin að senda Frú Krabbe brjéf séra Þorv þegar jeg skrifaði honum. Jeg vissi ný fyrst og fremst ekki hvort hún var heima og annað það að jeg vissi ekki hvert átti að fara. Mjer dettur það svo í hug að skrifa henni og segja henni hvar jeg búi og biðja hana að láta mig svo vita hvort jeg megi vænta nokkurs liðs eða ráða hjá henni. Svo slæ jeg utan um þetta og læt brjéf séra Þorv þar með og arka nú af stað, kaupi á það frímerki og læt það í póst og daginn eftir fæ jeg aftur brjéf frá henni og hún segir mjer að jeg skuli finna sig kl. 12 daginn eftir. Nú vissi jeg ekki hvert fara skal samt legg jeg á stað og hitti þá sporvagn. Jeg spyr svo hvort jeg geti keyrt með honum og segi hvert jeg ætli að fara. Já þeir segja að jeg geti það. Svo fer jeg nú inn í vagninn og keyri fyrir 15 öre. Nú fer jeg út og þeir segja mjer hvaða götu jeg á að fara. Jeg labba á stað og geng nokkuð lengi þá hugsa jeg að nú fari jeg líklega ekki rjétt svo jeg spyr mann sem jeg mæti hvort jeg sjé á rjéttri leið og hvert jeg ætli. Jú jeg er það svo spyr jeg hann hvort hann vilji ekki gjöra svo vel og fylgja mjer og hann gjörir það og setti upp 30 aura svo komst jeg til Frú Krabbe. Hún tók mjer eins og jeg væri henni margkunnug. Jeg drakk hjá henni kaffi með kökum eins og jeg vildi. Við drukkum það úti í garði þar í ofur litlu húsi inn á milli blómanna og trjánna. Svo gekk hún með mjer út í Frederiksberg Have og upp hjá Fredriksbergssloti þar er nú Officersskáli, þar er fjarskalega fallegt. Svo fór hún með mjer að sporvagni og við keyrðum báðar æði tíma. Svo stóð hún af vagninum en jeg hjelt áfram og gekk vel heim. Síðan hefi jeg ekki sjeð hana en jeg fer nú bráðum. Hún vísaði mjer á Fröken Sigríði Jónasson því jeg sagði henni hvað jeg vildi læra. Svo skrifaði hún Fr S fyrir mig og sagði henni að jeg vildi læra hjá henni ef hún gæfi kost á því. Svo skrifað Fr S og sagðist gjarnan vilja taka mig í kennslu og jeg skuli finna sig kl. 12 til 1 næsta dag. Nú hafði jeg aldrei farið neitt nálægt þar sem hún býr. Jeg kaupi mjer svo kort yfir bæinn og eftir því fer jeg. Nú geng jeg í tíma til hennar, 2 tíma annan hvern dag en svo verður það lengur og oftar eftir miðjan þennan mánuð. Hún ætlar að flytja sig þá og jeg ætla líka að flytja inn í bæ 18 þess þá er liðinn mánuðurinn sem jeg leigði hjer. Mjer þykir líka betra að vera nær nöfnunum því þegar rigning er þá er svo vont að ganga svo langt. Jeg er ½ tíma að ganga það hverja leið. Á morgun fer jeg í tíma þá verð ég að fara á stað kl. 8½. Jeg má ekki liggja í rúminu fram á hádegi. Jeg talaði við G lækni á Sauðarkrók og lét hann mig hafa reseft. Svo er ég búin að fá meðöl eftir  því en nýlega byrjuð að brúka þau. Hann sagði að þessi svimi, hita-köst, verkur ofan í hvirfilinn, og þessi svefn- og máttleysi væri allt af taugaveiklun sem væri á háu stigi, og ef mér ekki batnaði við þessi meðöl þá yrði jeg að fara til taugalækna, en jeg gæti ekki búist við að fá bráðan bata því þessi sjúkdómur væri vondur viðureignar og seinlæknaður. Hann spurði mig hvað langt væri síðan jeg hefði farið svona. Jeg sagði honum hvenær það hefði byrjað og mjer fyndist það alltaf jafnt ágjörast og þá fannst mjer eins og hann vita það hvað því leið. Hann sagði bara jeg þyrfti meðöl og skyldi ekki draga það lengur, en jeg líklega þyrfti að hafa sjóböð líka en það væri ekki víst jeg gæti það, og ef mjer ekki batnar þá fer jeg til taugalækna þó þeir sjeu dýrir því jeg finn vel hvað mjer líður og hefi fundið en þetta segi jeg engum nema þjer, því mitt fólk leyni jeg hvað mjer líður. Jeg vil ekki að það viti það nema sem allra minnst . Jeg veit þá hvernig það yrði . Það vissi bara að jeg hafði svima og var ekki hraust í taugunum en að öðru leyti er jeg alveg viss um að það hefir á litið að jeg bæri mig mikið betur en jeg gjöri eins og flestir ímynda sjer og það er það góða og það sem jeg hefi einlagt strítt við en nú var krapturinn farinn að minnka við þessa áköfu taugaveiklun og því áleit jeg það rjettast að fara hingað svo enginn vissi neitt hvað mjer liði nema það sem jeg skrifa og þá líklega skrifa jeg ekki öðrum en þjer um þetta efni því jeg áleit að þú værir á þó nokkurri annarri skoðun um mína innbyrðis líðan heldur en sumir aðrir og því skrifa jeg þjer þetta en heima veit jeg hvað það yrði rólegt ef það hefði verulega vitað hvernig á því stóð að jeg fór . Það náttúrlega hjelt að jeg færi vegna þess að mig langaði og með fram til að hafa af mjer leiðindi og það hugsuðu víst allir, og það var satt jeg fór bæði til að reyna að ljetta af mjer og til lækninga og til að læra en þá mest til þess að menn vissu ekki hvað mjer liði og það veit guð að þegar jeg fór um borð á Sauðárkrók þá fannst mjer jeg vera að ganga út í dauðann, og þegar jeg kom ofan í káettuna þá fannst mjer jeg vera komin ofan í gröf, það væri bara eptir að moka ofaní hana! Kristín Arasen fór með mjer um borð og var hjá mjer meðan jeg var að byrjað að búa um mig og þá víst sá hún ekki annað en jeg væri lukkuleg yfir öllu saman en það er hægt að láta svo meðan horft er á mann. Það verður að vana; þegar jeg kom á Húsavík þá kom pabbi um borð kl. 4 um nóttina. Jeg bjóst við að hitta hann þar svo jeg var búin að hafa alla nóttina til kl. 4 til að búa mig undir að kveðja hann kannske í síðasta sinni! Og það tókst mjer að sýnast vera róleg þegar hann kom og líka nokkuð hörð á meðan hann var að fara útúr káettunni, en jeg mundi hjerum bil ekkert af því sem jeg þurpti og ætlaði að tala við hann en svo er jeg búin að skrifa honum það. Þetta er þreytandi; hjer þekki jeg ekki fólk og það ekki mig og enginn talar neitt við mig um mínar kringumstæður og það er það sem mjer þykir best; en góða láttu engan vita þetta. Ingibjörg mágkona mín talaði mikið um sorg Mad. Halldóru og sagði að hún væri svo þunglynd að það væri svo erfitt fyrir hana lífið, en það er nú ekki svo langt síðan hún missti manninn að maður geti furðað sig á þó hún sje ekki búin að gleyma því. Jeg er líka alveg viss um að hún álítur mig svo ljettlynda að jeg taki mjer ekki svo nærri minn missi og það er líka gott því jeg ætla ekki að hvarta fyrir henni. Jeg hvorki kæri mig um það og get það heldur ekki því það er þyngra en svo að jeg fái mikið um það talað. Það skal hver ráða sinni meiningu hjer eptir eins og hingað til; jeg vona að mjer batni af meðölunum og þá verð jeg hressari og færari um að bera lífið þolanlega. Mjer líður nú vel og er hætt að leiðast. Það var bara fyrstu dagana. Jeg þekki hjer 4 góða landa. Það er Frú Krabbe, Fröken Jónasson og Gautlanda bræður Steingrímur og Þorlákur. Þeir eru æskuvinir mínir. Við ljekum okkur saman þegar við vorum börn og vorum komin, eða jeg var komin, yfir fermingu þegar við skildum. Þeir fóru með mjer út á land útí skóg á sunnudaginn var. Við fórum kl að ganga 3 og komum aptur kl að ganga 9ju um kvöldið. Við keyrðum með járnbraut rúman hálftíma hvora leið. Það var fjarska skemmtilegt. Þeir ætla að útvega mjer verelsi og hjálpa mjer með ýmislegt. Þeir búa hjer skammt frá. Mjer þykir nóg að þekkja þetta fólk. Það er mjer líka allt gott og vill hjálpa mjer og greiða veg minn svo mjer líður vel. Hjer er margt að sjá og heyra sem glepur fyrir manni. Jeg geng túr á hverjum degi eptir læknisráði og þá er nóg til að sjá sem styttir tímann og skemmtir manni og maður hefir líka gagn af því. Frú Krabbe bað mig að bera ykkur kæra kveðju sína. Hún var nú samt að gjöra ráð fyrir að skrifa.. Hún sagðist halda að þú værir búin að gleyma sjer, en jeg fullvissaði hana um að það væri ekki. Það er orðið langt mál þetta og er því best að hætta. Berðu Guðrúnu á Bergsstöðum kveðju mína og segðu henni að jeg lofi guð bæði hátt og í hljóði fyrir íslensku skóna. Jeg brúka þá opt heima til að hvíla fæturna við stigvjelin. Berðu manni þínum og börnum kæra kveðju mína og Sigurbjörgu lík. Vertu blessuð og sæl. Guð hjálpi og styrki þig í hverju sem þjer að höndum ber.

Þess biður af einlægni þín vinkona, Sigríður Metúsalemsdóttir.

Sigríður (1863-1939) var á þessum tíma ekkja séra Lárusar Björnssonar prests á Staðarbakka. Síðar giftist hún Birni Líndal Jóhannessyni frá Útibleiksstöðum og eignaðist með honum soninn Theódór (1898-1975) og var amma Sigurðar Líndal lagaprófessors.


Selkirk West. 3. sept. 1893

Háttvirti kæri vin!

            Jeg þakka þjer innilega fyrir tilskrifið frá 19. júní. Því byrjaði prýðilega, var ekki nema 26 daga á leiðinni frá Melstað og hingað til mín. Jeg mun ekki í þetta skipti gera margar athugasemdir við það sem þú skrifar, ekki vegna þess að mjer finnist það svo mikil markleysa eða svo samkvæmt mínu áliti á þeim atriðum, sem þú gjörir að umtalsefni, heldur einungis af því að jeg er svo latur og sljófur, andlaus og eyðilagður.

            Tengdamóðir mín biður mig að skrifa þjer þetta brjef; hún biður þig, eða öllu heldur jeg fyrir hennar hönd að gjöra svo vel og senda okkar húskveðju og líkræðu er þú hafðir haldið yfir þeim Sporðsfeðgum, jeg efast ekki um að þú gjörir þetta fyrir gömlu konuna því í raun rjettri hefur enginn orðið eins hart leikinn við fráfall þeirra feðga, sem hún, en jeg þori ekki að láta það dragast að skrifa þjer um þetta því það þarf ekki mikið útaf að bera til þess að dagar hennar sjeu taldir og mjer þætti það leitt ef jeg fyrir trassaskap fyrirmunaði henni að heyra áður en hún deyr hvað þjer hefur hugsast að tala yfir gröf þeirra manna er hún vitanlega unni langmest allra manna í þessum heimi.

            Þetta er aðal brjefsefnið og fyrst það er lengra en þetta ætla jeg að minnast á eitthvað fleira. Jeg sendi Margrjeti ekkju Jóns heitins Gunnarssonar 116 kr. í peningum í vor og jeg skrifaði henni nokkrar línur um það leyti og bað hana að láta mig vita hvort þessir peningar kæmu til að skila og þó jeg þykist ráða af þínu brjefi að hún hafi fengið peninga frá mjer þá veit jeg ekki neitt um upphæðina fyrst henni þóknast ekki að gjöra mjer neina vísbendingu um það. Þú gerir því máske svo vel og láta mig vita eitthvað um þetta í næsta brjefi. Vel á minnst; þú lofaðir mjer löngu brjefi með júlí póstferðinni en það brjef er ókomið enn og að öllum líkindum óskrifað.

            Mig langar til að minnast á einstök atriði í brjefinu þínu, sem mjer finnast einhæf. Þú álítur atvinnu Agentanna hjer að vestan í alla staði óheiðarleg. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eiga meiri eða minni þátt í útflutningi fólks af landinu og sá útflutningur er lands og líða tjón muntu segja. Mikið rjett. En þó að einn fjórði hluti eða fimmti hluti eða tíundi hluti þjóðarinnar og það efnaðasti hlutinn tapi allmiklu við hann ef því verður ekki neitað með rökum að talsverður meirihluti þeirra sem fara betri hag sinn er það þá svo óheiðarlegt að stuðla til þess að þessum bláfátæka meiri hluta þjóðarinnar gefist tækifæri til að bjarga sjer hjer þegar allar bjargir eru þrotnar á fósturjörðinni. Ef að agentarnir ljúga einhverju vísvitandi um líðan manna hjer eða landshátta eða ef Alþingi tækist að löggilda þrælasölu í landinu eins og lagafrumvarpið nýja um útflutninga fólks sýnist vera svo ágætur lykill að ef það næði löggilding, þá fyrst væri það ljótt og saknæmt að agentunum að gjöra þessum ófrjálsu mönnum kunnugt um lífernishætti frjálsra þjóða svo þeir yrðu óánægðir með kjör sín þrælarnir og gerðu svo eitt af tvennu að flýja af landi brott sem strokumenn eða gerðu reglulega uppreisn. Blessaður berstu fyrir því í ræðu og ritum, inni í þínu sveitar og sýslu fjelagi og innan vébanda alls þjóðfjelagsins að atvinnuvegirnir batni og að þeim verði fjölgað svo fátæka fólkinu líði betur heima og að það þurfi ekki að fara á sveitina meðan það hefur heilsu hvað mörg börn sem það á, svo að það verði ekki látið standast á vinnumanns árskaup og eins barns framfæri eins og átti sjer stað fyrir fáum árum, þá hætta vesturferðirnar að mestu hvað sem allir agentar segja og þá þarf ekki að búa til útflutningslaga frumvörp sem hvergi eiga sinn líka meðal kristinna manna jafnvel ekki í Rússlandi. Þú veist að jeg segi satt, þú veist að fókið flytur ekki til muna vestur nema þegar þrengir að því heima og það óttast hungur og hallæri.   

Framhald af þessu bréfi var ritað 15. okt. og mun þá birtast ... 


Svar til herra Páls Ólafssonar gegn þjóðhátíðarkvæði hans

 

1.   Hví vill skáldið yrkja óð

að upp sé runninn frelsisdagur?

Er þá hreinsað okkar blóð,

Opnuð fögur sæluslóð?

Er þá hrundið hugarmóð,

hýr á augum vonarbragur?

Hví vill skáldið yrkja óð

að upp sé runninn frelsisdagur?

 

2.   Allir herrar Ísalands

yfirhlaðnir dönskum krossum

lofa gæsku gjafarans

og gnægtirnar í búi hans

stendur auða almúgans

andvari af slíkum hnossum

því allir herrar Ísalands

eru nú hlaðnir stjórnarkrossum.

 

3.   Hvað má gefa hilmir oss?

Hefir hann nokkurt frelsi í taki?

Yfirráð eða aurahnoss

annað heldur en danskan kross

en Danir ausa eins og hross;

og ætla að setja hann hreint af baki.

Hvað má gefa hilmir oss?

Hefir hann nokkurt frelsi í taki?

 

4.   Konungsins dýrð er söm við sig

sem á heimsins fyrstu öldum;

hirðar þrælkun hætnilig

honum bannar frelsisstig;

hann er eins við aðra og þig

undirlagður ráðum köldum

konungsins dýrð er söm við sig

sem á heimsins fyrstu öldum.

 

5.   Viltu vera frí og frjáls -

flytji burt úr sálu þinni

aurakergja, elska sjálfs,

óstjórn líka hroka báls –

týhraustar svo tak til máls

og treystu guði og réttvísinni:

Viltu vera frí og frjáls –

flytji girnd úr sálu þinni.

 

6.  Viltu ver frí og frjáls?

Frelsi þarf í sálu þinni,

innri dugur, einurð máls

auðinn líka hreinn án táls;

undir hlekkjum hóls og prjáls

hætt er frelsislofdýrðinni.

Viltu vera frí og frjáls?

Frelsi þarf í sálu þinni.

 

7.   Viltu vera frjáls og frí,

      fælast máttu´ ei stríð né dauða,

hræðast ógna orðin ný

eða krossuð Danaþý,

stjórnar sem að ólgu í

elta jafnan gullið rauða.

Viltu vera frjáls og frí,

fælast máttu´ ei stríð né dauða.

 

8.   En hvar er slíka hölda að fá

hér á voru kalda landi

þjóðarheillir sem að sjá?

Segðu mér, ef finnur þá.

Hver mun högum vorum á

augun hafa sívakandi?

Hvar mun slíka hölda´ að fá

hér á voru kalda landi?

 

9.   Þetta frelsi það er tál

og þjóðhátíðar móðins staður

því fundir elska orðin hál,

en yfirskins og glæsimál

villir greind en svíkur sál,

sér það hver einn greindur maður

að þetta frelsi það er tál

og þjóðhátíðar móðins staður.

 

10. Hún er enn ei frí né frjáls

      Fjallkonan mjallahvíta;

vér höfum fengið fundi máls

fjárráð varla þó til hálfs;

eigingirni og elska sjálfs

eining vora sundur slíta.

Hún er enn ei frí né frjáls

Fjallkonan mjallahvíta.

11. Strengjum heit um háum meið

að herja fasta á myrkra veldi

meðan endist æfiskeið

ófrelsis þó lypti reið

svo vér rötun ljóssins leið

þá líður burt að æfikveldi.

Strengjum heit um háum meið

      að herja fast á myrka veldi.

 

12. Þér ég óska þetta hnoss

þjóðar vel með merkjum stríða,

...ita sauði og fjörug hross

fremur heldur en danskan kross,

loksins mun þér einn af oss

Arinbjarnardrápu smíða.

Þér ég óska þetta hnoss,

þjóðar vel með merkjum stríða.

 

                  Séra Bjarni Sveinsson Stafafelli


Skilnaðar-minni á þjóðhátíðarfundi í Hallormstaðaskógi 1874

                       1

Ég ferðast hef um fjöll og dali sljetta

og forðum gekk ég Skrúð og bratta kletta

ég ljek í dönskum lundi,

en langaði heim í sveit;

á engum stað ég undi

mér eins og þessum reit.

Þessa stund, þráði og alla daga,

hjer í lund að hreifa strengjum Braga,

hjer í lund.

 

2

En þeir sem annars þekkja mannlegt hjarta,

og þeir sem elska Suðfellstindinn bjarta,

og fönnum skreyttu fjöllin,

og fagra löginn hér,

og blómi búinn völlinn

þeir bresta varla mér,

þessa stund, þó að ég sje glaður,

í þessum lund; þetta er sælustaður

            í þessum lund!

 

3

Og hvað er sæla, sje það ekki að finnast

á svona stað, og hver við annan minnast

og frelsi sínu fagna

og frjálsri Ísagrund

með góðum ráðum gagna

og gleðja sig um stund.

Fagur, frjáls, finnst mér þessi staður:

Jeg er frjáls; jeg er nú svo glaður:

Því ég er frjáls!

 

4

Þú varst svo frjáls og fögur, kæra móðir!

Þá feður vorir komu á þínar slóðir,

mér finnst þú enn svo fögur,

og frjálsleg ertu að sjá:

Því flýr svo margur mögur

frá móður sinni þá?

Ísland! Aldrei héðan fer ég,

kæra land! Kjöltubarn þitt er ég

            kæra land!

 

                        5

Sólin hnígur, senn mun döggin falla,

og söknuðurinn hrífur nú á ætla;

það er því yndi að skilja

þá allir keppa heim að vinna af öllum vilja

í verkahringnum þeim,

foldin mín! Frelsið þitt er að glæða

móðir mín! Meinin þín að græða,

móðir mín!

 

                                    Páll Ólafsson


9/5 framhald frá 7/5

Skálholt komið og hefur ekki komist norður um. Ég hef því miður heyrt ávæning af einhverju slysi, sem hafi hent þig, farið ofan um ís og orðið að halda þér lengi áður en mannhjálp kom; vona hamingjan gefi að þér hafi ekki orðið meint af. – Bréfin mín sem voru með “Skálholti” fara nú líklega með landpósti, verða þau nokkuð síðfara. – Ég skrifa Árna eina línu og Hermanni aðra, svo að þú þarft ekki að annast skilaboðin til Árna.

Með kærustu kveðju til þín, konu þinnar og barna

Þinn ein. vin og frændi

Jón Jakobsson

 


Reykjavík 7/5 1903.

Kæri frændi minn.

Það er útlend setning, að bréf megi aldrei byrja á: Jeg. Og þó snúast þessar fáu línur eingöngu um mitt kæra: Jeg. Ég er með böggum hildar: í vandræðum. Ég hafði haft nauman tíma, þegar “Skálholt” fór norður um, var í veizlu kvöldið áður, skrifaði í veizlunni 2 bréf, sem ég átti eftir ósvarað, bað um prívatherbergi og fékk. Skammast mín fyrir bæði, því að þau eru skrifið í “Champangerus”. Man þó ekki nema eitt orð, sem ég vildi ótalað hafa í bréfi til Árna á Höfðahólum, þar sem ég segi honum, að ég skuli halda betri ræðu á kjörfundinum á Sveinstöðum en Húnvetningar hafi áður heyrt. Þetta liggur á mér eins og martröð: volat irrevae abile venbum. Ekki svo að skilja, að ég ætli mér ekki að sýna ykkur allan sóma, eins og þið eigið skilið, en mig vantar enn form fyrir minni hugsun, og ég átti aðeins að segja, að annað hvort verður mín framkoma hjá ykkur góð eða vond. Millibil er ekki til hjá mér í þeim sökum, annaðhvort “stemning” eða “flöjhed”. Ef þú hefðir bréflegt erindi til Árna væri mér kærkomið að þú fléttaðir þar inn í fyrirgefningarbón frá mér fyrir oftöluð orð, ég hef ekki tíma til að skrifa honum nú, bæti nú á hverjum degi 4-5 tíma vinnu á mig í Forngr.safninu, til þess að geta farið sem heiðarlegur maður norður til ykkar. Dr. Guðm. Magnússon færir mér í rúmið á morgun þær gleðifréttir að Skálholt hafi komist norður um. En varla hef ég leyfi til að vona, að þeim dýri farmar hafi verið þar með, er líklegt nú á Ísafirði. Þetta atriði minnir mig nú í þessu augnabliki á þitt síðasta bréf, sem ég átti að byrja bréf mitt með að þakka, því að það er faktískt tekið einasta orðið af viti, sem ég hef fengið úr Húnaþingi, þar eru kortin lögð á borðið, hjá hinum er allt í þoku og ráðgátu. – Í dag er 4. dagurinn, sem ég hef verið reistur úr rúminu, svona fer giktin að við mig – fæ hana í útlimi 10-15 árum á undan föður mínum; illt er í ætt allra gjarnast. Ef sú fregn skyldi reynast ósönn, að Skálholt hefði komist norður, viltu þá gera mér þann stóra greiða að skrifa þegar í stað Hermanni og segja honum að ég hafi svarað öllum bréfum úr Húnaþingi, eftir óskum ritaranna. – Tryggvi í Kothvammi skrifa ég innlagt bréf. – Guð ónáðar mig illa núna, ís mátti ég ekki fá í vor, en þá er að taka því, ég hef fengið bréf frá Mr. Cabball, þar sem hann segir að hann gangi að leigunni en NB. með því  skilyrði að hann fái ána leigða upp í 15-21 ár. Ég veit að hann kemur að sjálfsögðu upp, upp á vonina, ég er illa staddur, mín “Dumpe-eanditatur” í Húnaþing neyðir mig til að fara héðan að heiman, áður en hann nemur í stað þess að verða honum samferða; ég fer héðan með “Reykjavíkinni” 19. maí, segðu Hermanni það, ef þú sér nokkur tæki á undan pósti. Var búinn að skrifa það með “Skálholti”. Tími ekki að taka fram Skjóna minn, hann á ekki að bera mig að ósigri, heldur á annan veg. Hljóðið bágt í mér núna, af því að ég hef heyrt úr bréfi frá yfirvaldinu ykkar til kunningja þess í Reykjavík að ég skuli fara sömu ferðina í Húnaþing í vor, sem norður í Skagafjörð í fyrra. Þeir vita sínu viti þeir hávísu, hámáttugu herrar, með innheimtuna að bakhjalli. Því nær allan klerka lýðinn; nákvæmlega sömu kringumstæður hjá ykkur nú eins og í Skagafirði í fyrra – með einni skárri og mikilli undantekningu – þeirri að í fyrra var mín megin dómur orðlaus lýður og báðir caudilatarnir á móti mér – nú orðin, sá bezti af rauð... mín megin.

 

Framhald 9/5  


Mel 1. maí 1895

Kæra Fríða!

Ég frétti á helginni var, að þeir Gunnar á Ásgeirsá og Sigtryggur á Breiðabólsstað mundu leggja upp í dag til þess að sækja Þóru Halldórsdóttur og frú Halldóru, og að með þeim ætli að slást í för suður Ketilríður á Tannstaðabakka, og að hún muni bíða fyrir sunnan þangað til Guðrún systir hennar verði sótt, en það verður um krossmessuleitið; þá á Jón bróðir þeirra að verða samferða Bjarna Davíðssyni á Borðeyri, sem á að sækja stúlku fyrir Ríis suður í Borgarnes. Með þeirri ferð vil ég senda ykkur Sigríði hesta, læt þá líkast til Böðvar fara með hestunum, en ekki fer hann alla leið suður, því engan langar til að eiga um þetta leiti hross burtu lengur en það allra skemmsta. Síðan ég skrifaði þér með póstinum hefir ekkert borið til tíðinda. Tíðin er góð, en alveg gróðurlaust; víða verður til muna vart við ýmsa torhöfn! Sauðfé, helzt gemlingunum bæði lungnaveiki og skitupest. Enginn hefir misst meira að id.tölu en Jóhannes á Reyjum og má hann þó illa við því; um daginn var hann að hafa við orð að hætta alveg við búskap; þó varð ekki af því. Hér eru ærnar farnar að bera; Pétur gerði í vetur það snilldarbragð að láta hvað eptir annað lambhrútana sleppa saman við ærnar; væri hann að maklegleikum hengjandi bæði fyrir það og annað. Ég hefi ekki tímt að drepa lömbin og er það þó ef til vill vitleysa einkum ef gróður verður mjög seinn.

Ég fékk bréf frá Þórunni kennöru þinni og segir hún að bækurnar séu hjá Sigfúsi. Það væri v.. bezt að fá þær allar, en ég hafi nú ekki neitt að senda meira en um daginn svo að þú verður að skilja eitthvað eptir, nema þú getir lánað mér það sem vantar. Berðu Þórunni kæra kveðju mína, og segðu henni að ég muni skrifa henni með næsta pósti. Hún lætur mjög vel yfir ykkur Doddu. Í öllum hamingju bænum, mundu eptir fræútvegunum. Berðu þeim hjónum M og V hjartans kveðju okkar Siggu.

Ég hefi engan tíma til þess að skrifa í þetta sinn fleirum en þér og Kristínu frænku okkar. Bið ég þig að koma innlögðum línum til hennar.

Vertu blezuð og sæl 

þinn Þorvaldur Bjarnarson


Hvammsdal 29. marz 1894

Háttvirti góði vin!

 

Jeg þakka yður sem best yðar góða brjef með Sophoníus, og allt alúðlegt.

Jeg sendi yður nú dálítið af meðölum handa Ófeigi litla og hefi bestu von um að þau komi að notum ef sú arga drepsótt er nú fer sem logi yfir akur spillir ekki fyrir mjer á sínum tíma, og jeg hefi gjört það fyrir konu yðar að láta meðala nöfnin og þynningartöluna standi á gl. Best er að brúka hvert glas 2 eða 3 daga í einu, 3 dr. 4-6 sinnum á dag, og fella úr daga milli glasa – einkum í bata. – Jeg skal geta þess að No 1 er aðalmeðal við meltingarleysi í konum og börnum – einkanlega; No 2 er líka ágætt magalyf, á við meltingarleysi, og opt við hægðaleysi ofl., og er það sterkara en hitt; No 3 á við hægðaleysi vind spenningi og mörgu fl.; No 4 á við magaverkjum, kveisu, magakrampa, órósemi, ergilegheitum,  tannkomuveiki – ásamt fleiri meðölum, við úrgangi (grænleitum) af tannkomu, taugakenndri tannpínu (á kvenfólki og börnum); 5 og 6 No eiga við kirtlaveiki ofl. – Aðallega gengur að barninu meltingarleysi, og kirtlaveiki er hann ekki frír við.

Það reynist opt vel að gefa börnum þorskalýsi, þó orsakar það opt velgju og slappan magann, nema brúkuð sjéu jafnframt einhver styrkjandi meðöl.

Það gleður mig að Þuríði litlu hefur batnað mikið; það gat ekki betur farið en að kirtlaveikinni slæi út.

Nú er sú arga innflúenza komin til Reykjavíkur og upp í Borgarfjörð. Það lögðust 2/3 af staðarbúum á 3 sólarhringum, og 2 hús varð að brjóta upp af því að enginn gat farið til dyra. Þetta er haft eptir manni sem Clausen sendi suður núna fyrir stuttu.

Sjé þessi kvefsótt sama eðlis og sú sem gekk hjer fyrir 4 árum eða regluleg “La Grippe”, þá væri óskandi að hún kæmi ekki til okkar fyrri en fer að hlýna, því hiti á betur við hann, en aptur á móti á kuldi betur við reglulega innflúenzu, eins og kvefsóttir þær voru sem jeg man eptir þegar jeg var unglingur. Þá bólgnuðu svo mikið slímhimnur andardráttarfæranna og lungnapípurnar, og gróf í þeim en menn urðu ekki nærri því eins máttlausir og hjer um vorið.

Jeg bið yður að fyrirgefa þetta risp og bera konu yðar og börnum mína kærustu kveðju.

Sjálfan yður kveð jeg með vinsemd og virðingu, yðar einl. vin.

 

M. Guðlögsson

Homöopath.


Reykjavík d 23 mars 1882

Jómfrú Guðrún Guðmundsdóttir

í Svarðbæli

Miðfirði

Elskulega Gunna mín.

Hjartans þakklæti fyrir tilskrifið. Nú hef jeg aungar frjettir að skrifa þjer, okkur líður vel að öðru leyti en því að við höfum verið vesul af kvefi, jeg hef leiið í rúminu í 3 daga, en er nú að batna en samt hef jeg fjarska mikin höfuðverk, svo jeg get valla skrifað þjer þessar línur. Jeg sendi þjer blúndurnar sem þú beiddir mig um, en mjer þykir vest ef þjer líkar þær ekki. Jeg hafði þær sín af hverri sort. Jeg fer líklega norður í sumar og verð hjá Gróu systir mömmu, hún skrifaði mömmu minni með pósti, og sagði að hún ætti að lofa mjer að koma norður í vor og vera hjá sjer í allt sumar, en hún kveið mest fyrir að mjer mundi leiðast, hún sagði að jeg gæti þá farið að Sveinsstöðum og fundið ömmu og líka að Völlum, jeg er ekki hrædd um að mjer leiddist.

Elsku Gunna! Þú verður að fyirrgefa mjer þó jeg geti ekki skrifað þjer meira núna því mjer er svo illt í höfðinu. Mamma biður kærlega að heilsa mömmu þinni.

Vertu svo marg blessuð og sæl það mæli þín eilæga vina.

Þuríður Jakobsdóttir

Góða láttu aunga sjá þetta klór því mjer þykir gott ef þú getur lesið það. Skrifaðu mjer og segðu mjer hvernig þjer líkar blúndurnar.


Cambridge, 3. marz, 1888

Kæri góði vin,

            Kærustu þakkir fyrir þitt góða og skemmtilega bréf frá 16. jan., og því fylgjandi “Aldarhroll” Sigga málara, sem er stórorður og á sínum stöðum ber vott um logandi ættjarðar ást, sem og líka skyggnt auga á hag, eða réttara óhag Íslands. Ég hlakka til að fá fleira frá þér af því tagi. Ég held ég hafi skrifað þér með síðustu ferð svo glögglega um kornskifta-málið, að ég ekki þurfi að hverfa að því aftur nú. Auðséð var það, að vetrar far hafði verið hjá ykkur svo gæft, þangað til þú og Þorsteinn Hjálmarsson skrifuðuð, að ekki lá Austur ...jum lífið á að fara að ræna ykkur því sem ykkur hafði verið gefið, en þeim ekki. Það er hraparlegt að sjá, hvernig Íslands óhamingju verður allt að vopni, þegar mest liggur við að atkvæðamál þess fari liðlega úr hendi og svo, að beztu menn hafi sóma af. Ég er öldungis hissa að sjá, að sýslumaður skuli hafa gjörzt partur að því máli, sem staða hans tilskildi að hann, sem yfirvald, væri fyrir utan og ofan. Ætlar sýslumanns og sýslunefndar, að ey hafi afsalað landshöfðingja í hendur alla ráðsmennsku yfir úthlutun enska gjafakornsins er allsendis tilhæfulaus. En þó hún nú væri á rökum byggð, þá sé ég ekki, hvernig hún ætti að vernda tiltektir þeirra; því óhætt mun mér að full-yrða, að gjörræði nefndarinnar hafi ekki átt að styðjast við um staf frá lands höfðingja. Meir að segja, ég er viss um að landshöfðingi lætur það aldrei af sér spyrjast, að hann eftir á gefi þessi tiltekt umboðslega heimild sína sem fram fór að honum forspurðum og skorti því alla heimild hans þá er “actus” varð. Enn fremur virðist mér það full-ljóst, að hann fari ekki að eiga neinn umboðslegan hluta að þeirri athöfn sem umgirðir “res” er hann átti hvorki umboðslegt né eignarlegt hald á. Til þess er Bergur Amtmaður allt of glöggur og gætinn administrator. Þér er óhætt að segja þeim Húnvetningum það, að þeir komi til að reyna, ef þeir halda máli þessu til streitu, að ég var ekki að “vésa og vafstra í því sem mér kom ekki við, né skifti engu,” er ég flutti gjafakornið á Borðeyri. Þvert á móti var ég að framfylgja skriflegu umboði nefndarinnar í London reglulega bornu upp á nefndarfundi og samþykktu með atkvæðafjölda. Það var gengið svo vandlega frá því umboði, að ég var formal nefndur “Commissioner” nefndarinnar og var glögglega tekið fram, að ég bæri ábyrgð ráðstafana minna fyrir nefndinni. Mér gat náttúrlega ekki dottið það í hug, ég gat það alls ekki, að afhenda mitt commissorium í annars manns vald, hvað góður svo sem hann kynni vera. Hefði svo verið, þá hefði ég aldrei norður komið, það hefði verið þýðingarlaus ferð. Enda kemur slíkt ekki til greina, það er tómur hugarburður og ástæðulaus spuni, auðsjáanlega við hafður til að dreifa yfir athöfn sem sýslunefndin sér að ekki verður varin nema tilraun til einhverrar véla-verndar sé gjörð, og væri það ljót sönnun fyrir siðferðislegum óstyrk nefndarmanna, ef þeir skyldu allir ganga samhendir að slíku eftir–klóri. En setjum nú að ég hefði verið að framfylgja ráðstöfun landshöfðingja eins og sýslunefnd og sýslumaður finna til, að hverju eru þeir þá betur settir, að hafa rofið heimildarlaust hans ráðstöfun? Finna þessir menn í því tryggingu fyrir gjörræði sínu eða löghelgun þess? Ég sé ekki betur, en að nefndin beri í ógáti að sér sterkustu böndin og öflugasta sönnunin fyrir því, að hún sjálf sé sjálf sannfærð um, að hún hafi farið fram með heimildarlausu fjörræði. Nú get ég bætt því við, að hefði ég ekki farið með skipinu, þá hefði engin kornpoki og ekkert strá komið á Boreyri árið sem leið. Það var milligöngu minni kornið að þakka, að Lylie lagði lóðsandi inn Húnaflóa. Ég vissi það alla leið að kapt. hafði launboð skipseigenda að fara ekki á Borðeyri; ef með nokkru móti yrði hjá komizt. Ég vissi hvað hag Húnavatnssýslu leið áður en ég fór héðan og hafði sett það grjótfast í mig að láta hana ekki verða afskifta, sem verst var stödd allra héraða fyrir norðan land. Ég mútaði kapt. með fimm guineum að leggja í flóann í illu veðri og snjóhríð og tel það vitalaust m.. hefði hann verið sjálfráður með umboðsmann landa höfðingja um borð, hefði hann brugðið á sín eigin ráð og farið með allt til hinna tveggja tilnefnda hafnanna Sauðárkróks og Akreyrar. – Þér er heimilt að láta hvern Húnvetning sem vill heyra eða lesa þetta bréf. Ofsóknum frá þeim Símon heldur enn áfram. Að sinni svara ég ekki, hvað seinna verður er óráðið.

Þinn einlægur vin

Eiríkur Magnússon


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband