Ódagsett bréf frá Guðrúnu Jakobsdóttur

Fyrstu síður bréfsins vantar....er að koma með sínar heilögu vandlætingar yfir ykkur Íslands prestana. Mjer er hann sjálfur svo minnistæður núna því hann messaði hjer nokkru sinnum um daginn. Hann er algjörlega umbreyttur sem predikari frá því sem hann var þegar hann kom að heiman, stælir nú sjera Bergmann í framburði og látbragði, og ferst það hrapalega. - Annars vil jeg ekki segja mikið um aumingja manninn, því jeg skil ekki annað en að hann verði bráðlega vitskertur eða geðveikur.

            Skrítin meðhöndlun er það sem sjera Matthías verður fyrir hjá lærðu mönnunum hjerna, ýmist hirta þeir hann eins og óþægan krakka, eða þeir hefja hann upp fyrir skýin. Skyldi þá sjera Matt. nokkuð láta uppskátt um hverjir skrifa erindið, "Jeg veit að trúin á virki fúin" o.s.frv. - rjettara; jeg gæti vel trúað að hann yrki svo sem hugsunarlaust (hann á svo hægt með að vera skáld) og skipti sjer svo ekkert um hvernig það er skilið. En þrátt fyrir allt, finnst mjer náttúrulegt að hver maður narrist að þessum styrk (eða hvað ætti að kalla það) sem Alþing úthlutaði sjera Matt. og mest fyrir það að frú Hólm fékk hina sleikjuna, enda hafa prestar og ritstjórar verið iðnir við að vitna til þess; og jafnframt haft háðungs orð um kerlingargreyið, sem ekki er þó gustuk, jeg er svo viss um að hún er opt búin að gráta út af því. Hún bjóst við þeim ógnar orðstýr og lofi fyrir Elding. Jeg heyrði hana segja þegar hún var um það bil að enda við bókina "Ójá, það feg nú að grætast úg fygig mjeg, jeg vona að Guð gefi að jeg vegði nú viðugkennd"(!!) en svona fór það.

            Jónas U. Sigurðsson búfræðingur frá Gröf, er nú sagður að vera að lesa guðfræði í Chicago, það eru annars æði margir Íslending hjer að læra til prests en ekki er nú nema 1 þeirra sem jeg heyri menn hafa mikið álit á. Tómas sonur Jóns Björnssonar aldraðs manns í Argile byggð, ættaður úr Þingeyjarsýslu. Tómas er sagður gáfaður maður og stilltur og í öllu mesta prúðmenni. Þingvallanýlendubúar hafa skrifað biskupi Íslands í því skyni að hann útvegi þeim prest, svo ekki ætla þeir að bíða eptir þessum vestheimsku unglingum.

            Það varð minna en til stóð af landferðinni okkar; agentinn þeirra nýlendubúa sem þeir höfðu sjerstaklega sett út til að toga Jón þangað vestur fór einhvern veginn svoleiðis að því óhreinlega að Jón gat ekki látið sjer það lynda. En fyrir þessa ætlun eigum við nú 3 kálfa, sá elsti er á 3. misseri en sá yngsti á öðru. Það eru fallegar kvígur en ekki mikill gróði í þeim sem stendur. Hefur viljað til að hey hefur verið ódýrt í vetur, annars alveg vitlaust að ala upp gripinn í bæ, en gefst opt illa að hafa þá í fóðri hjá bændum, drepast opt, eða skilað horuðum, flugubitnum með kláða og allskyns óþrifum. Kú eigum við, sem við keyptum í fyrrahaust fyrir 30 dali. Hún er ung og falleg, mjólkar líka vel. En þetta er nú minnst. Við erum líka að verða jarðeigendur. Höfum fest okkur bæjarlóð, lítið er nú borgað í ..........., og byggt húskofa; sjáðu nú til, á þessu ætlum við að græða, fyrst það að vera ekki alltaf á flæking og í sambýli við ýmsa, og svo borgum við upp í lóðina það sem við annars hefðum borgað í húsaleigu. En mestur gróðinn á að verða í því að lóðir hækka óðum í verði. Svo seljum við eignina og þá - já þá verða nú flestir vegir færir, en þetta verður nú ekki nema ef við lifum mörg ár við bærilega heilsu, en það er nú allt svo óvíst. Dauðinn kemur svo opt áður enn menn eru byrjaðir eða hálfnaðir með það sem þeir ætla að gjöra. Óttaleg ósköp er víst auminja sjer Jón Bjarnason búinn að kveljast nú í meira en 3 mánuði, fyrir tveim vikum var hann sjá að kominn dauða, hafði kvatt heimilisfólk sitt og beið aðeins eptir lausn frá þrautunum, nokkru síðar sprakk eitthvað af þeim meinsemdum hans, síðan hefur hann verið kvalaminni með köflum, en lítil vissa mun vera um bata þó Lögberg telji hann úr hættu.

            Það gladdi mig stórlega að lesa það í brjefi þínu að Kristín Aradóttir er að kenna krökkunum, af því jeg er viss um að þau læra þá eitthvað. Ekki er til neins að segja mjer það að Imba sje heimsk jeg trúi því ekki, en ef þið eruð að basla við að innprenta henni að hún geti ekkert lært, og fáið hana sjálfa til að trúa því, þá lærir hún heldur ekkert. Gaman hefði verið að sjá Guðnýju í faldbúningnum. Sárt er að Böðvar litli er svona heilsulaus. Hjer ráðleggja læknar við megurð rjóma, egg (helst sem hráust) og brennivín, reynist það æfinlega vel sje ekki komin algjör tæring í manninn eða meltingin alveg eyðilögð. Ef Böðvar lifir í vor ættuð þið að láta hann hafa sem mest af egg og rjóma eftir því sem hann hefur not af; Whisky láta þeir fremur brúka en nokkurt annað vín, og þorskalýsi ef þeir álíta lungun veik. Þið þurfið að passa að ekki sje verið að tala um veikindin við hann og sífeldlega aumka hann, fyrst að honum sárnar að vera svona veikur væri það honum til kvalar; en jeg er svo hrædd um þetta, að sem svo margt fólk er og margir koma. Það má sýna honum alla nákvæmni og hluttekning án þess að tala mikið um veikindin svo hann heyri. Fyrirgefðu mjer nú afskiptasemina; jeg skammast mín næstum að hafa skrifað þetta, jeg veit þið vitið það allt náttúrlega best sjálf hvað honum er hentugast. Jeg óska nú aðeins að Guð gæfi að honum mætti batna. Hjer eru sjúklingar undir flestum kringumstæðum látnir jeta, opt meira en þeir hafa list á, á allan hátt breytt enda missir fólk hjer furðu seint eða lítið hold og krapta þó það sé veikt. Af því jeg vil heldur að þú kallir brjefið mitt stuttu vitleysu, en löngu vitleysu ætla jeg nú að hætta. Jeg ætla líka að skrifa Sigríði (nú er jeg búin að venja mig af að segja Sigga) með þessari ferð. Jeg bið innilega að heilsa Kr. Arad. þykir ósköp vænt um að hún segir að jeg eigi hjá sjer brjef. Þú þarft ekkert að vera hræddur um þó jeg ekki skrifi, að rauðskinnar sjeu búnir að jeta okkur, þeir eru margir siðaðir og góðir menn og hafa líka nóg að borða hjerna í Ameríu. Sumar norðurálfu þjóðirnar eru mikið blóðþyrstari en þeir.

            Jeg á að skila kærri kveðju frá Jóni. Fyrirgefðu allan frágang á þessum línum. Vertu með öllum þínum margblessaður og sæll.

            Þín elskandi frænka Guðrún.

Guðrún Jakobsdóttir var tvímenningur Þorvalds og hálfsystir eiginkonu hans Sigríðar, dóttir Jakobs Finnbogasonar prests á Mel. Hún flutti til Vesturheims og giftist þar Jóni Einarssyni og komust tvær dætra þeirra upp, Kristín og Herdís Margrét. Bréf þetta er ritað um eða eftir 1890, en Guðrún lést árið 1894.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 356

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband