27.12.2008 | 00:42
Staddur á Brandagili 10. des. 1902
Hjartkæra Guðný mín.
Ég fór í gær vestur að Stað til þess að fá sunnanbrjefin áður en ég skrifaði þjer og sumum örðum, og svo af því að ég var svo óþolinmóður að mjer fannst ég ekki geta beðið 2 daga eptir frjettunum af því hvernig þjer liði. Mjer er það sönn gleði að frjetta það af þjer að þú þjáist ekki, og ef ekkert er þjer meira til ama eða leiðinda, en umhugsunin um það, hvað þín langa lega sje mjer kostnaðarsöm, þá máttu róleg hrinda frá þjer leiðindunum út af þeirri tilhugsun, því það máttu vita, að ósárt væri mjer það að láta aleigu mína, ef það gæti orðið til þess að þú fengir heilsu, hvað þá heldur að láta andvirði nokkurra skræðna, sem mjer eru gagnslausar, þó fjemætar sjeu en gera mjer nú þetta stóra gagn að útvega þjer í vetur þá bestu aðhlynningu og læknishjálp, sem kostur er á hjer á landi. Ég þakka þjer hjartanlega fyrir brjefið þitt, og jólakortið til okkar mömmu þinnar. Þau minna okkur á jólunum á þig en til þess hefði nú reyndar ekki þeirra þurft, því að mjög opt hvarflar hugurinn til þín, og því spái ég að á jólunum verði engi oss frændunum nær í anda en einmitt þú.
Á dagsetningu brjefs þíns sje ég það, að Árni vegabótastjóri Zakaríasson getur ekki hafa verið kominn suður þegar þú skrifaðir, því að hann fór úr Miðfirðinum ekki fyrr en 28. nóv. en þú skrifar 1. des. Árni kom norður aptur um 20. nóv. til þess að koma brúnni á Sveðjustaðaá, svo að nú er engin torfæran á Hrútafjarðarhálsi. Með Árna skrifaði ég þjer það mesta sem ég gat til tínt þá, og nú er þá því við að bæta, að enn helst sama blessuð sumarblíðan, svo að vinna má að öllum útiverkum, og reyni ég eptir föngum að færa mjer í nyt dugnað vinnumanns míns Helga Ögmundssonar, og vona ég að tíðin haldist svo lengi að í vor megi á Mel sjá þess glöggvan vott, að ég hafi reynt að nota þessa blessaða sumarblíðu eptir föngum, en því ræður himnafaðirinn eins og öllu öðru, hvort ég lifi það að sjá 63. afmælið mitt.
Ég gerði mig svo djarfan að fara í brjefið til Imbu sem var ákaflega þykkt, þegar ég ekki fann neitt brjef til mín frá þjer, því að Jón frændi Jakobsson skrifaði mjer að hann áður en póstur fór hafi boðið þjer að taka af þjer bref til mín, en að þú hefðir sagt sjer, að önnur hvor þeirra Magnúsdætra hefði tekið af þjer brjefið. Taldi ég því viss þegar ég sá þetta gilda brjef til Imbu, að þar ætti ég brjef frá þjer innan í og því reif ég upp brjef hennar, en allt skal koma til skila, sem í því var.
Ég skrifa nú Jóni frænda Jakobssyni, og bið ég hann fyrir jólin að koma til þín 5 krónum, og ætla ég fyrir 2 krónurnar af þeim að fá af þjer 4 myndir með næsta pósti handa mjer sjálfum og einstöku vinum; hinar brúkarðu eins og þjer sýnist; það gæti verið í málsverð á jólunum handa einhverjum aumingja.
Biddu Guðmund lækni frá mjer, að bera systrunum sem hjúkra þjer hjartans kveðju mína og þakklæti, eins skaltu skila hjartans kveðju minni til hvers þess er kemur og vitjar þín, og bið ég guð að blessa þá alla.
Ég get nú ímyndað mjer, að þú sjert orðin þreytt á að lesa þetta allt annað en fróðlega brjef, og er því best að hætta; ég enda á því að óska þjer gleðilegra jóla og allra heilla og blessunar í bráð og lengi. Vertu svo hjartans barnið mitt kærast kvödd og guði falin af mjer föður þínum
Þorvaldi Bjarnarsyni
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 28.12.2008 kl. 00:34 | Facebook
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 356
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.