4.12.2008 | 00:08
Hvammsdal 3. des. 1890
Velæruverðugi herra séra Þ. Bjarnarson á Melstað!
Mitt innilegasta þakklæti eiga þessar línur að færa yður fyrir allt ágæti á yðar góðfræga heimili í haust. Jeg sendi yður nú hjer með dálítið af meðölum handa drengnum yðar, og má jeg biðja yður fyrirgefningar á því, hvað það hefur dregist fyrir mjer að taka þau til, en orsökin til þess er sú að hjer er alltaf húsfyllir af meðalafólki nótt og dag, svo jeg hef ekki við að taka til meðölin. Nú á jeg ósvarað á þriðju hundrað brjefum.
Drengurinn á að taka gl. eptir númeraröð, og brúka hvert gl. í 3 daga samfleytt og taka inn 3 dr. 4-5 sinnum á dag. Við hvert glas á hann að fella úr 3-5 daga, sem hann tekur ekkert inn, og merkist bati eptir að hann hefur brúkað meðölin nokkuð langan tíma, skal fella úr fleiri daga, og alltaf því fleiri, því betur sem batnar og því lengur sem hann brúkar meðölin. Versni honum uppá einhvern máta fyrst í stað, má hann ekki taka eins opt inn og jeg hefi sagt fyrir, en hætta samt ekki við þau, eins og mörgum því miður hættir við. Hann ætti að taka eptir því hvernig honum verður af hverju glasi, og vil jeg svo biðja yður að gjöra svo vel að lofa mjer að vita það með línu á sínum tíma. Batann má ekki heimta undir eins því það getur líklega ekki látið sig gera, vegna þess að sjúkdómurinn er svo gamall. Jeg vona að drengurinn verði dálítið styrkari og kjarkbetri eptir að hann hefur brúkað þessi meðöl, en það verður að brúka þau með reglu og þolinmæði.
Verkurinn sem hann hefur fyrir brjóstinu v.m. ætti helst að láta undan 5. og 6. gl., en ef þau duga ekki, skal jeg láta 1 eða 2 gl. við honum seinna. Jeg set vanalega upp að það sje tekið inn í þurrum spæni eða hvítasykri, og að einskins sje neytt kl.-tíma áður og eptir að tekið er inn. Það má ekki drekka mikið kaffi, og aldrei renna með mjólk.
Að endingu vil jeg einlæglega óska þess, að meðölin komi að tilætluðum notum.
Með kærri kveðju og bestu óskum til yðar, og konu yðar, er jeg með vinsemd og virðingu yðar heiðrandi vin
M. Guðlögsson
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 356
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.