Staddur á Stað í Hrútafirði 15. nóv. 1902

            Kæra Guðný mín!

Hingað fór ég í gær til þess að vera til taks, þegar pósturinn kæmi, og hafði hugsað mjer að fara í gærkveldi yfir að Fögrubrekku og vera þar í nótt, en í rökkrinu í gær gerði það afspyrnu sunnanrok, að allir töldu óðs manns æði að fara nokkurt fet út svo að hjer varð ég í nótt, og byrja nú á því að skrifa þjer þótt póstur sjé enn ókominn. Nú er mjög skipt um tíð; frá því með veturnóttum hefir mátt heita sauðroða rosatíð, og á fyrra þriðjudag og aðfaranótt miðvikudags 4. og 5. nóv. haugaði niður snjó, svo illa gerðum að jarðlaust mátti heita um allt, nema jaðarinn fyrir vestan Miðfjarðará frá Brekkulæk og alveg út að sjó, og út með sjó út undir Útibleiksstaði; síra Hálfdán frændi skrifaði mjer með pósti og bað mig að taka hross sín til hagagöngu, og framan úr Vesturárdal eru komin hross Daníels og Elínar gömlu móður hans, því þar er alls staðar bjargarbann. Í nótt hefir ákaflega mikið sigið snjóinn svo að hjer fram í firðinum þar sem hvergi sá fyrir neinu, eru komnir upp góðir hnjótar, en nú er roga útsynningur, og er aldrei gott að vita hvernig hann skilur við en ég er að vona, að viðskilnaður hans verði ekki mjög afleitur í þetta sinn; en talsvert hefir hann orðið ótækur hjer í nótt, því hann hefir svipt þili framan undan skemmu hjerna og hafa bræðurnir í morgun verið að smala brotunum út um tún og út fyrir það.

            Þegar ég fór heiman í gær var Böðvar að búa sig út á sand til þess að sækja út að ósnum afla sinn; hann reri í haust hjá Friðrik á Ósi út í Hvalvík fyrir utan Bálkastaði, og í fyrra kvöld komu þeir heim með það síðasta er þeir þurftu að flytja, og var það heppilega sloppið, ef svo skyldi fara að nú sje enn meiri rosavon, en verið hefir. Síldarafli hefir verið framúrskarandi góður hjer inn á Hrútafirði, og er vonandi að hann haldist enn, þótt tregt hafi verið núna nokkra daga fyrir straumum; sem Eyfirðingurinn er stýrir útveg Riis telur góðs vita, segir að síldin hverfi opt undir stórstraumana, og þá bregðist það sjaldan að von sje á nýrri göngu.

            Heiman að er ekkert að frjetta, enda þarf ég ekki að skrifa þjer það, þar sem bæði Imba og Þuríður skrifa þjer. Enn er ekki búið að koma upp nýja hesthúsinu, en allt er við hendina; aptur hefir verið gjört mjög vel við folaldahúsið og kofann út við þrístæðahúsið; það hækkað talsvert, svo að nú er það afbragðs loptgott, svo að Stjarna þín fær þar gott skýli, þegar á þarf að halda.

            Fjarski hefir okkur þótt langur þessi tími, er ekkert hefir af þjer frjest; en með þessum pósti teljum við víst, að koma muni þær frjettir, er á megi marka, hvort þú eigir verulega batavon; við erum öll að óska þess og vona, að þú fáir þá matarlyst að þú getir tekið eldi, því að þá er talinn víst batinn. Verst er ef þjer leiðist. Ég vona að Guðmundur læknir verði þjer í útvegum um bækur, og skaltu hiklaust biðja hann þess. Ég sá í haust í bókunum sem Ragnheiður hafði bókina eptir Monrad gamla: fra Bönnens Verden, og gramdist mjer þá við sjálfan mig að ég ekki skyldi hafa látið mjer koma það til hugar, að ljá þjer með þjer íslensku þýðinguna, sem ég ný sendi þjer; það er verulega góð bók, og gefur ríkt íhugunarefni; ég held mjer sje óhætt að fullyrða, að veikindi þín hafa ekki lítið að því stuðlað að opna mjer heima bænarinnar og gert mig þar að heimagangi því seint og snemma hugsa ég um þig, og aldrei svo að ég þá ekki jafnframt biðji góðan guð að varðveita bæði mig og þig, og allt annað sem mjer er kært.

            Fyrirgefðu þetta flýtiklór og lifðu ætíð blessuð og sæl og guði falin. Berðu kærar kveðju öllum sem að þjer hlynna.

Þinn elskandi faðir

Þorvaldur Bjarnarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 356

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband