11.10.2008 | 21:32
125 Youngstr. Winnepeg 30. sept. 88.
Háttvirti góði vin!
Með innilegasta þakklæti fyrir nýmeðtekið brjef frá þjer dags. 18. júlí og 18. ágúst, skrifa jeg þessar línur. Sigurður Magnússon sagði mjer þegar hann kom í sumar að hann hjeldi jeg ætti von á brjefi frá þjer um þær mundir en sú von brást, eins og svo opt á sjer stað. Jeg veit að það munu fleiri en jeg skrifa þjer um þessar mundir og segja þjer almennar frjettir hjeðan, þess vegna ætla jeg að hlaupa yfir þær í föstum orðum, því það er margt ef að er gáð, sem um er þörf að ræða. Næstliðinn vetur var mjög frostharður og vorið óvanalega kalt framyfir fardag. Mjer fannst það rjett ámóta og gott meðalvor heima þegar hafís var hvergi nærri. Gróður var líka mjög lítill og mjólkurkúm gefið með beitinni. Snjór var hjer aldrei mikill og hvarf algjörlega um miðjan apríl, eptir það hvítnaði aldrei á jörð svo jeg muni. Eptir maím. lok kom hjer indælast tíð svo grasið þaut upp á skömmum tíma og það má heita að sú sama veðurblíða hafi haldist til þessa dags. Það komu samt 2 eða 3 skarpar frostnætur í ágúst sem fóru mjög illa með hveiti, einkum syðra því ella hefði uppskera á hveiti orðið að líkindum afbragð; það er nú líka daglega að lækka í verði og því er enginn hlutur trúlegri en að öll kornvara lækki til muna í berði í Evrópu. Heilsufar stórum skárra en í fyrra og miklu færra dáið af nýkomnum börnum en þá. Landar eru nú komnir yfir 1100 að heiman í sumar og ekki hót fjölskrúðugri (sumir að minnsta kosti) en við sem vorum í Borðeyrarhópnum sæla og það er engin furða þó ekki gangi allt sem greiðast þegar annar eins fjöldi þyrpist hingað á sama blettinn ár eptir ár og flestir sem vinnufærir eru verða einungis að reiða sig á daglauna vinnu. Hveitiuppskera hjer vestra er arðsamasta og nauðsynlegasta vinna eins og heyskapur heima og það hefur löngum reynst lífakkeri nýkominna landa að komast í hana; en í sumar fór það allt á annan veg fyrir fjölda mörgum er suður fóru. Í fyrrahaust komu margir með talsvert á annað hundrað dollara eptir 3-4 mánuði og svo þyrptist manngrúinn þangað meiri en nokkru sinni áður um miðjan ágúst, en bæði fyrir því að þá skemmdist hveitið af frostinu svo bændur urðu lafhræddir og uppskera gat ekki byrjað fyrr en seint vegna vorkuldanna, sátu landar þar tugum og jafnvel hundruðum saman verklausir lengri eða skemmri tíma og urðu svo margir hverjir að koma aptur allslausir sem höfðu lagt af stað með nokkra dollara, og eru nú loksins ýmist komnir útá járnbrautir eða í vinnu til bænda hjer í Manitoba en þeir þykja ætíð borga lægra kaup en bændur syðra og naumast jafn áreiðanlegir.
Nú eru landar hjer vestra byrjaðir á samskotum handa Jóni Ólafssyni því þeir búast við að hann verði dæmdur í fjesekt fyrir svarið til Gröndals. Jeg fyrir mitt leyti álít Jón slíkan klaufa í ritstörfum sínum að honum sje valla við hjálpandi. Það sýndist hægðarleikur fyrir hann að reka Gröndal ómjúklega í vörðuna án þess að hann þyrfti að brúka svo illa valin orð eins og hann gjörir. Jeg er þjer samdóma í því að ekki hafi Miðfirðingar almennt þurft að sakna Jósefs Jónadalssonar fyrir mannkosta eða siðprýðis sakir en miklu hygg jeg hann betri mann en B.G. því það er ósannað að Jósef ljái sig nokkru sinni til að rita eða tala jafn ástæðulausar skammir um saklaust fólk eins og Gröndal gjörir um Vesturfara auðvitað á móti betri vitund. Eggert Gunnarsson er hjá Gröndal einn af fremstu þeim nýtustu og heiðvirðustu mönnum, sem vestur hafa flutt frá Íslandi, en það mun vera fullkomin sannfæring margra Íslendinga að á síðustu árum hafi ekki verið uppi á Íslandi meiri fjeglæfra maður en Eggert Gunnarsson, hvað svo sem öðrum hans mannkostum líður. Það eru því engir skrópar heldur beinhörð kenning B.G. að Vesturfarar sjeu yfir höfuð ekki á marga fiska. En hvergi kemst Gröndal á eins hátt stig með fúlmennskuna eins og þar sem hann bríxlar Vesturförum um það, að þeir sjeu að senda peninga heim til vina og vandamanna aðeins til að gjöra sig merkilega. Þeir fara þó svei mjer ekki beinustu leið þessir menn, sem gjafirnar senda til þess að ávinna sjer þennan heiður, sem Gröndal heldur að þeir sækist svo mjög eptir, því nöfn þeirra sjást hvergi skráð nema í bókum póstafgreiðslumanna og það eru engin alþýðurit. Jeg er ekki kunnugur högum landa minna hjer en það er sannfæring mín að margir sem hafa sent peninga heim hafi ekki verið fjölskrúðugir eptir, en hjer er ekki jafnhætt við því að menn deyi úr hungri og heima þó snauðir sjeu ef þeir hafa góða heilsu og kjark til að bjarga sjer.
Framhald af þessu bréfi var ritað 7. október.Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.