10.10.2008 | 23:55
Kaupmannahöfn 5/9 1892
Elskulega vinkona
Mitt besta þakklæti fyrir allt gott á þessi miði að færa þjer.
Þú ert nú víst eða verður þegar þetta brjef kemur búin að sjá og heyra ferðasöguna og hvernig jeg var sett fyrstu dagana, en nú líður mjer vel.
Jeg var ekki búin að senda Frú Krabbe brjéf séra Þorv þegar jeg skrifaði honum. Jeg vissi ný fyrst og fremst ekki hvort hún var heima og annað það að jeg vissi ekki hvert átti að fara. Mjer dettur það svo í hug að skrifa henni og segja henni hvar jeg búi og biðja hana að láta mig svo vita hvort jeg megi vænta nokkurs liðs eða ráða hjá henni. Svo slæ jeg utan um þetta og læt brjéf séra Þorv þar með og arka nú af stað, kaupi á það frímerki og læt það í póst og daginn eftir fæ jeg aftur brjéf frá henni og hún segir mjer að jeg skuli finna sig kl. 12 daginn eftir. Nú vissi jeg ekki hvert fara skal samt legg jeg á stað og hitti þá sporvagn. Jeg spyr svo hvort jeg geti keyrt með honum og segi hvert jeg ætli að fara. Já þeir segja að jeg geti það. Svo fer jeg nú inn í vagninn og keyri fyrir 15 öre. Nú fer jeg út og þeir segja mjer hvaða götu jeg á að fara. Jeg labba á stað og geng nokkuð lengi þá hugsa jeg að nú fari jeg líklega ekki rjétt svo jeg spyr mann sem jeg mæti hvort jeg sjé á rjéttri leið og hvert jeg ætli. Jú jeg er það svo spyr jeg hann hvort hann vilji ekki gjöra svo vel og fylgja mjer og hann gjörir það og setti upp 30 aura svo komst jeg til Frú Krabbe. Hún tók mjer eins og jeg væri henni margkunnug. Jeg drakk hjá henni kaffi með kökum eins og jeg vildi. Við drukkum það úti í garði þar í ofur litlu húsi inn á milli blómanna og trjánna. Svo gekk hún með mjer út í Frederiksberg Have og upp hjá Fredriksbergssloti þar er nú Officersskáli, þar er fjarskalega fallegt. Svo fór hún með mjer að sporvagni og við keyrðum báðar æði tíma. Svo stóð hún af vagninum en jeg hjelt áfram og gekk vel heim. Síðan hefi jeg ekki sjeð hana en jeg fer nú bráðum. Hún vísaði mjer á Fröken Sigríði Jónasson því jeg sagði henni hvað jeg vildi læra. Svo skrifaði hún Fr S fyrir mig og sagði henni að jeg vildi læra hjá henni ef hún gæfi kost á því. Svo skrifað Fr S og sagðist gjarnan vilja taka mig í kennslu og jeg skuli finna sig kl. 12 til 1 næsta dag. Nú hafði jeg aldrei farið neitt nálægt þar sem hún býr. Jeg kaupi mjer svo kort yfir bæinn og eftir því fer jeg. Nú geng jeg í tíma til hennar, 2 tíma annan hvern dag en svo verður það lengur og oftar eftir miðjan þennan mánuð. Hún ætlar að flytja sig þá og jeg ætla líka að flytja inn í bæ 18 þess þá er liðinn mánuðurinn sem jeg leigði hjer. Mjer þykir líka betra að vera nær nöfnunum því þegar rigning er þá er svo vont að ganga svo langt. Jeg er ½ tíma að ganga það hverja leið. Á morgun fer jeg í tíma þá verð ég að fara á stað kl. 8½. Jeg má ekki liggja í rúminu fram á hádegi. Jeg talaði við G lækni á Sauðarkrók og lét hann mig hafa reseft. Svo er ég búin að fá meðöl eftir því en nýlega byrjuð að brúka þau. Hann sagði að þessi svimi, hita-köst, verkur ofan í hvirfilinn, og þessi svefn- og máttleysi væri allt af taugaveiklun sem væri á háu stigi, og ef mér ekki batnaði við þessi meðöl þá yrði jeg að fara til taugalækna, en jeg gæti ekki búist við að fá bráðan bata því þessi sjúkdómur væri vondur viðureignar og seinlæknaður. Hann spurði mig hvað langt væri síðan jeg hefði farið svona. Jeg sagði honum hvenær það hefði byrjað og mjer fyndist það alltaf jafnt ágjörast og þá fannst mjer eins og hann vita það hvað því leið. Hann sagði bara jeg þyrfti meðöl og skyldi ekki draga það lengur, en jeg líklega þyrfti að hafa sjóböð líka en það væri ekki víst jeg gæti það, og ef mjer ekki batnar þá fer jeg til taugalækna þó þeir sjeu dýrir því jeg finn vel hvað mjer líður og hefi fundið en þetta segi jeg engum nema þjer, því mitt fólk leyni jeg hvað mjer líður. Jeg vil ekki að það viti það nema sem allra minnst . Jeg veit þá hvernig það yrði . Það vissi bara að jeg hafði svima og var ekki hraust í taugunum en að öðru leyti er jeg alveg viss um að það hefir á litið að jeg bæri mig mikið betur en jeg gjöri eins og flestir ímynda sjer og það er það góða og það sem jeg hefi einlagt strítt við en nú var krapturinn farinn að minnka við þessa áköfu taugaveiklun og því áleit jeg það rjettast að fara hingað svo enginn vissi neitt hvað mjer liði nema það sem jeg skrifa og þá líklega skrifa jeg ekki öðrum en þjer um þetta efni því jeg áleit að þú værir á þó nokkurri annarri skoðun um mína innbyrðis líðan heldur en sumir aðrir og því skrifa jeg þjer þetta en heima veit jeg hvað það yrði rólegt ef það hefði verulega vitað hvernig á því stóð að jeg fór . Það náttúrlega hjelt að jeg færi vegna þess að mig langaði og með fram til að hafa af mjer leiðindi og það hugsuðu víst allir, og það var satt jeg fór bæði til að reyna að ljetta af mjer og til lækninga og til að læra en þá mest til þess að menn vissu ekki hvað mjer liði og það veit guð að þegar jeg fór um borð á Sauðárkrók þá fannst mjer jeg vera að ganga út í dauðann, og þegar jeg kom ofan í káettuna þá fannst mjer jeg vera komin ofan í gröf, það væri bara eptir að moka ofaní hana! Kristín Arasen fór með mjer um borð og var hjá mjer meðan jeg var að byrjað að búa um mig og þá víst sá hún ekki annað en jeg væri lukkuleg yfir öllu saman en það er hægt að láta svo meðan horft er á mann. Það verður að vana; þegar jeg kom á Húsavík þá kom pabbi um borð kl. 4 um nóttina. Jeg bjóst við að hitta hann þar svo jeg var búin að hafa alla nóttina til kl. 4 til að búa mig undir að kveðja hann kannske í síðasta sinni! Og það tókst mjer að sýnast vera róleg þegar hann kom og líka nokkuð hörð á meðan hann var að fara útúr káettunni, en jeg mundi hjerum bil ekkert af því sem jeg þurpti og ætlaði að tala við hann en svo er jeg búin að skrifa honum það. Þetta er þreytandi; hjer þekki jeg ekki fólk og það ekki mig og enginn talar neitt við mig um mínar kringumstæður og það er það sem mjer þykir best; en góða láttu engan vita þetta. Ingibjörg mágkona mín talaði mikið um sorg Mad. Halldóru og sagði að hún væri svo þunglynd að það væri svo erfitt fyrir hana lífið, en það er nú ekki svo langt síðan hún missti manninn að maður geti furðað sig á þó hún sje ekki búin að gleyma því. Jeg er líka alveg viss um að hún álítur mig svo ljettlynda að jeg taki mjer ekki svo nærri minn missi og það er líka gott því jeg ætla ekki að hvarta fyrir henni. Jeg hvorki kæri mig um það og get það heldur ekki því það er þyngra en svo að jeg fái mikið um það talað. Það skal hver ráða sinni meiningu hjer eptir eins og hingað til; jeg vona að mjer batni af meðölunum og þá verð jeg hressari og færari um að bera lífið þolanlega. Mjer líður nú vel og er hætt að leiðast. Það var bara fyrstu dagana. Jeg þekki hjer 4 góða landa. Það er Frú Krabbe, Fröken Jónasson og Gautlanda bræður Steingrímur og Þorlákur. Þeir eru æskuvinir mínir. Við ljekum okkur saman þegar við vorum börn og vorum komin, eða jeg var komin, yfir fermingu þegar við skildum. Þeir fóru með mjer út á land útí skóg á sunnudaginn var. Við fórum kl að ganga 3 og komum aptur kl að ganga 9ju um kvöldið. Við keyrðum með járnbraut rúman hálftíma hvora leið. Það var fjarska skemmtilegt. Þeir ætla að útvega mjer verelsi og hjálpa mjer með ýmislegt. Þeir búa hjer skammt frá. Mjer þykir nóg að þekkja þetta fólk. Það er mjer líka allt gott og vill hjálpa mjer og greiða veg minn svo mjer líður vel. Hjer er margt að sjá og heyra sem glepur fyrir manni. Jeg geng túr á hverjum degi eptir læknisráði og þá er nóg til að sjá sem styttir tímann og skemmtir manni og maður hefir líka gagn af því. Frú Krabbe bað mig að bera ykkur kæra kveðju sína. Hún var nú samt að gjöra ráð fyrir að skrifa.. Hún sagðist halda að þú værir búin að gleyma sjer, en jeg fullvissaði hana um að það væri ekki. Það er orðið langt mál þetta og er því best að hætta. Berðu Guðrúnu á Bergsstöðum kveðju mína og segðu henni að jeg lofi guð bæði hátt og í hljóði fyrir íslensku skóna. Jeg brúka þá opt heima til að hvíla fæturna við stigvjelin. Berðu manni þínum og börnum kæra kveðju mína og Sigurbjörgu lík. Vertu blessuð og sæl. Guð hjálpi og styrki þig í hverju sem þjer að höndum ber.
Þess biður af einlægni þín vinkona, Sigríður Metúsalemsdóttir.
Sigríður (1863-1939) var á þessum tíma ekkja séra Lárusar Björnssonar prests á Staðarbakka. Síðar giftist hún Birni Líndal Jóhannessyni frá Útibleiksstöðum og eignaðist með honum soninn Theódór (1898-1975) og var amma Sigurðar Líndal lagaprófessors.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 11.10.2008 kl. 20:27 | Facebook
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.