Selkirk West. 3. sept. 1893

Háttvirti kæri vin!

            Jeg þakka þjer innilega fyrir tilskrifið frá 19. júní. Því byrjaði prýðilega, var ekki nema 26 daga á leiðinni frá Melstað og hingað til mín. Jeg mun ekki í þetta skipti gera margar athugasemdir við það sem þú skrifar, ekki vegna þess að mjer finnist það svo mikil markleysa eða svo samkvæmt mínu áliti á þeim atriðum, sem þú gjörir að umtalsefni, heldur einungis af því að jeg er svo latur og sljófur, andlaus og eyðilagður.

            Tengdamóðir mín biður mig að skrifa þjer þetta brjef; hún biður þig, eða öllu heldur jeg fyrir hennar hönd að gjöra svo vel og senda okkar húskveðju og líkræðu er þú hafðir haldið yfir þeim Sporðsfeðgum, jeg efast ekki um að þú gjörir þetta fyrir gömlu konuna því í raun rjettri hefur enginn orðið eins hart leikinn við fráfall þeirra feðga, sem hún, en jeg þori ekki að láta það dragast að skrifa þjer um þetta því það þarf ekki mikið útaf að bera til þess að dagar hennar sjeu taldir og mjer þætti það leitt ef jeg fyrir trassaskap fyrirmunaði henni að heyra áður en hún deyr hvað þjer hefur hugsast að tala yfir gröf þeirra manna er hún vitanlega unni langmest allra manna í þessum heimi.

            Þetta er aðal brjefsefnið og fyrst það er lengra en þetta ætla jeg að minnast á eitthvað fleira. Jeg sendi Margrjeti ekkju Jóns heitins Gunnarssonar 116 kr. í peningum í vor og jeg skrifaði henni nokkrar línur um það leyti og bað hana að láta mig vita hvort þessir peningar kæmu til að skila og þó jeg þykist ráða af þínu brjefi að hún hafi fengið peninga frá mjer þá veit jeg ekki neitt um upphæðina fyrst henni þóknast ekki að gjöra mjer neina vísbendingu um það. Þú gerir því máske svo vel og láta mig vita eitthvað um þetta í næsta brjefi. Vel á minnst; þú lofaðir mjer löngu brjefi með júlí póstferðinni en það brjef er ókomið enn og að öllum líkindum óskrifað.

            Mig langar til að minnast á einstök atriði í brjefinu þínu, sem mjer finnast einhæf. Þú álítur atvinnu Agentanna hjer að vestan í alla staði óheiðarleg. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eiga meiri eða minni þátt í útflutningi fólks af landinu og sá útflutningur er lands og líða tjón muntu segja. Mikið rjett. En þó að einn fjórði hluti eða fimmti hluti eða tíundi hluti þjóðarinnar og það efnaðasti hlutinn tapi allmiklu við hann ef því verður ekki neitað með rökum að talsverður meirihluti þeirra sem fara betri hag sinn er það þá svo óheiðarlegt að stuðla til þess að þessum bláfátæka meiri hluta þjóðarinnar gefist tækifæri til að bjarga sjer hjer þegar allar bjargir eru þrotnar á fósturjörðinni. Ef að agentarnir ljúga einhverju vísvitandi um líðan manna hjer eða landshátta eða ef Alþingi tækist að löggilda þrælasölu í landinu eins og lagafrumvarpið nýja um útflutninga fólks sýnist vera svo ágætur lykill að ef það næði löggilding, þá fyrst væri það ljótt og saknæmt að agentunum að gjöra þessum ófrjálsu mönnum kunnugt um lífernishætti frjálsra þjóða svo þeir yrðu óánægðir með kjör sín þrælarnir og gerðu svo eitt af tvennu að flýja af landi brott sem strokumenn eða gerðu reglulega uppreisn. Blessaður berstu fyrir því í ræðu og ritum, inni í þínu sveitar og sýslu fjelagi og innan vébanda alls þjóðfjelagsins að atvinnuvegirnir batni og að þeim verði fjölgað svo fátæka fólkinu líði betur heima og að það þurfi ekki að fara á sveitina meðan það hefur heilsu hvað mörg börn sem það á, svo að það verði ekki látið standast á vinnumanns árskaup og eins barns framfæri eins og átti sjer stað fyrir fáum árum, þá hætta vesturferðirnar að mestu hvað sem allir agentar segja og þá þarf ekki að búa til útflutningslaga frumvörp sem hvergi eiga sinn líka meðal kristinna manna jafnvel ekki í Rússlandi. Þú veist að jeg segi satt, þú veist að fókið flytur ekki til muna vestur nema þegar þrengir að því heima og það óttast hungur og hallæri.   

Framhald af þessu bréfi var ritað 15. okt. og mun þá birtast ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband