Mel 1. maí 1895

Kæra Fríða!

Ég frétti á helginni var, að þeir Gunnar á Ásgeirsá og Sigtryggur á Breiðabólsstað mundu leggja upp í dag til þess að sækja Þóru Halldórsdóttur og frú Halldóru, og að með þeim ætli að slást í för suður Ketilríður á Tannstaðabakka, og að hún muni bíða fyrir sunnan þangað til Guðrún systir hennar verði sótt, en það verður um krossmessuleitið; þá á Jón bróðir þeirra að verða samferða Bjarna Davíðssyni á Borðeyri, sem á að sækja stúlku fyrir Ríis suður í Borgarnes. Með þeirri ferð vil ég senda ykkur Sigríði hesta, læt þá líkast til Böðvar fara með hestunum, en ekki fer hann alla leið suður, því engan langar til að eiga um þetta leiti hross burtu lengur en það allra skemmsta. Síðan ég skrifaði þér með póstinum hefir ekkert borið til tíðinda. Tíðin er góð, en alveg gróðurlaust; víða verður til muna vart við ýmsa torhöfn! Sauðfé, helzt gemlingunum bæði lungnaveiki og skitupest. Enginn hefir misst meira að id.tölu en Jóhannes á Reyjum og má hann þó illa við því; um daginn var hann að hafa við orð að hætta alveg við búskap; þó varð ekki af því. Hér eru ærnar farnar að bera; Pétur gerði í vetur það snilldarbragð að láta hvað eptir annað lambhrútana sleppa saman við ærnar; væri hann að maklegleikum hengjandi bæði fyrir það og annað. Ég hefi ekki tímt að drepa lömbin og er það þó ef til vill vitleysa einkum ef gróður verður mjög seinn.

Ég fékk bréf frá Þórunni kennöru þinni og segir hún að bækurnar séu hjá Sigfúsi. Það væri v.. bezt að fá þær allar, en ég hafi nú ekki neitt að senda meira en um daginn svo að þú verður að skilja eitthvað eptir, nema þú getir lánað mér það sem vantar. Berðu Þórunni kæra kveðju mína, og segðu henni að ég muni skrifa henni með næsta pósti. Hún lætur mjög vel yfir ykkur Doddu. Í öllum hamingju bænum, mundu eptir fræútvegunum. Berðu þeim hjónum M og V hjartans kveðju okkar Siggu.

Ég hefi engan tíma til þess að skrifa í þetta sinn fleirum en þér og Kristínu frænku okkar. Bið ég þig að koma innlögðum línum til hennar.

Vertu blezuð og sæl 

þinn Þorvaldur Bjarnarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband