4.3.2008 | 23:37
Cambridge, 3. marz, 1888
Kæri góði vin,
Kærustu þakkir fyrir þitt góða og skemmtilega bréf frá 16. jan., og því fylgjandi Aldarhroll Sigga málara, sem er stórorður og á sínum stöðum ber vott um logandi ættjarðar ást, sem og líka skyggnt auga á hag, eða réttara óhag Íslands. Ég hlakka til að fá fleira frá þér af því tagi. Ég held ég hafi skrifað þér með síðustu ferð svo glögglega um kornskifta-málið, að ég ekki þurfi að hverfa að því aftur nú. Auðséð var það, að vetrar far hafði verið hjá ykkur svo gæft, þangað til þú og Þorsteinn Hjálmarsson skrifuðuð, að ekki lá Austur ...jum lífið á að fara að ræna ykkur því sem ykkur hafði verið gefið, en þeim ekki. Það er hraparlegt að sjá, hvernig Íslands óhamingju verður allt að vopni, þegar mest liggur við að atkvæðamál þess fari liðlega úr hendi og svo, að beztu menn hafi sóma af. Ég er öldungis hissa að sjá, að sýslumaður skuli hafa gjörzt partur að því máli, sem staða hans tilskildi að hann, sem yfirvald, væri fyrir utan og ofan. Ætlar sýslumanns og sýslunefndar, að ey hafi afsalað landshöfðingja í hendur alla ráðsmennsku yfir úthlutun enska gjafakornsins er allsendis tilhæfulaus. En þó hún nú væri á rökum byggð, þá sé ég ekki, hvernig hún ætti að vernda tiltektir þeirra; því óhætt mun mér að full-yrða, að gjörræði nefndarinnar hafi ekki átt að styðjast við um staf frá lands höfðingja. Meir að segja, ég er viss um að landshöfðingi lætur það aldrei af sér spyrjast, að hann eftir á gefi þessi tiltekt umboðslega heimild sína sem fram fór að honum forspurðum og skorti því alla heimild hans þá er actus varð. Enn fremur virðist mér það full-ljóst, að hann fari ekki að eiga neinn umboðslegan hluta að þeirri athöfn sem umgirðir res er hann átti hvorki umboðslegt né eignarlegt hald á. Til þess er Bergur Amtmaður allt of glöggur og gætinn administrator. Þér er óhætt að segja þeim Húnvetningum það, að þeir komi til að reyna, ef þeir halda máli þessu til streitu, að ég var ekki að vésa og vafstra í því sem mér kom ekki við, né skifti engu, er ég flutti gjafakornið á Borðeyri. Þvert á móti var ég að framfylgja skriflegu umboði nefndarinnar í London reglulega bornu upp á nefndarfundi og samþykktu með atkvæðafjölda. Það var gengið svo vandlega frá því umboði, að ég var formal nefndur Commissioner nefndarinnar og var glögglega tekið fram, að ég bæri ábyrgð ráðstafana minna fyrir nefndinni. Mér gat náttúrlega ekki dottið það í hug, ég gat það alls ekki, að afhenda mitt commissorium í annars manns vald, hvað góður svo sem hann kynni vera. Hefði svo verið, þá hefði ég aldrei norður komið, það hefði verið þýðingarlaus ferð. Enda kemur slíkt ekki til greina, það er tómur hugarburður og ástæðulaus spuni, auðsjáanlega við hafður til að dreifa yfir athöfn sem sýslunefndin sér að ekki verður varin nema tilraun til einhverrar véla-verndar sé gjörð, og væri það ljót sönnun fyrir siðferðislegum óstyrk nefndarmanna, ef þeir skyldu allir ganga samhendir að slíku eftirklóri. En setjum nú að ég hefði verið að framfylgja ráðstöfun landshöfðingja eins og sýslunefnd og sýslumaður finna til, að hverju eru þeir þá betur settir, að hafa rofið heimildarlaust hans ráðstöfun? Finna þessir menn í því tryggingu fyrir gjörræði sínu eða löghelgun þess? Ég sé ekki betur, en að nefndin beri í ógáti að sér sterkustu böndin og öflugasta sönnunin fyrir því, að hún sjálf sé sjálf sannfærð um, að hún hafi farið fram með heimildarlausu fjörræði. Nú get ég bætt því við, að hefði ég ekki farið með skipinu, þá hefði engin kornpoki og ekkert strá komið á Boreyri árið sem leið. Það var milligöngu minni kornið að þakka, að Lylie lagði lóðsandi inn Húnaflóa. Ég vissi það alla leið að kapt. hafði launboð skipseigenda að fara ekki á Borðeyri; ef með nokkru móti yrði hjá komizt. Ég vissi hvað hag Húnavatnssýslu leið áður en ég fór héðan og hafði sett það grjótfast í mig að láta hana ekki verða afskifta, sem verst var stödd allra héraða fyrir norðan land. Ég mútaði kapt. með fimm guineum að leggja í flóann í illu veðri og snjóhríð og tel það vitalaust m.. hefði hann verið sjálfráður með umboðsmann landa höfðingja um borð, hefði hann brugðið á sín eigin ráð og farið með allt til hinna tveggja tilnefnda hafnanna Sauðárkróks og Akreyrar. Þér er heimilt að láta hvern Húnvetning sem vill heyra eða lesa þetta bréf. Ofsóknum frá þeim Símon heldur enn áfram. Að sinni svara ég ekki, hvað seinna verður er óráðið.
Þinn einlægur vin
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.