Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Öfugmæli í vísum

  1. Í eld er bezt að ausa snjó

eykst hans log við þetta

gott er að hafa gler í skó

þá gengið er í kletta.

 

    2.     Blýið er vænt í beitta þjél

boginn stein má rétta

á fjöllunum er flest af sel

í fjörunni berin spretta.

 

    3.    Grjót er bezt í góða lóð

af gleri má nagla smíða

á hörðum strengjum helzt rann voð

hundi flestir ríða.

 

    4.    Hland og aska er hent í graut

hreint fer verst á drósum,

innst í kirkju opt eru naut

en ölturin sjást í fjósum.

 

    5.    Fljóta í burtu flæðarsker

fljúga upp reiðarhvalir,

blágrýtið er blautt sem smér

blýið er hent í þjalir.

 

    6.    Eitur er gott í augnarinn

ýrt með dropa feitan,

það er gott fyrir þyrstan mann

að þamba kopar heitan.

 

    7.    Fundið hefir fífan græn

frost trúi ég kopar renni,

heilaga tel ég buskubæn,

blessan er nóg í henni.

 

    8.    Fljúganda ég sauðinn sá

saltarann hjá tröllum

hesta sigla hafinu á

hoppa skip á fjöllum.

 

    9.    Fiskurinn hefir fögur hljóð

finnst hann opt á heiðum

æranar renna eina slóð

eptir sjónum breiðum.

 

    10.    Kisa spinnur bandið bezt,

baula kann tréð að saga,

hrafninn opt á sjónum sést

synda og fiskinn draga.

 

    11.   Í eldi miðjum einatt frýs,

enginn viðnum kindir,

á flæðiskeri eru flestar mýs,

fallega hrafninn syndir.

 

    12.   Séð hefi ég marhnút mjólka geit

magran þorskinn sníða skjól,

karfann fara í kúaleit

konupung sníða skriptaskjól.

 

    13.   Séð hefi ég lýsuna lesa rit,

lýrann horfa á fræðakver,

keiluna iðka kirkjurit,

karfann gjöra að gamni sér.

 

    14.   Séð hefi ég búra berja fisk

blágómuna sníða saumi,

hákarl renna hörpudisk

hnísuna stinga beizlistaum.

 

    15.   Séð hefi ég hegrann synda á sjó

súluna á fjöllum verpa

álptina sitja við ullartó,

örninn bálið snerpa.

 

    16.   Séð hefi ég kapalinn eiga egg

álftina folaldssjúka

úr reyknum hlaðinn vænan vegg

úr vatninu yst var kjúka.

 

    17.   Séð hefi ég páska setta á jól,

sveinbarn fætt í elli,

myrkrið bjart en svarta sól,

synt á hörðum velli.

 

    18.   Séð hefi ég köttinn syngja á bók

selinn spinna hör á rokk

skötuna elta skinn á brók

skúminn prjóna smábandssokk.

 

 

Skyrið er í skeifu skást

skúmur drekum veldur

í lífkaðal skal fífu fá

frýs við pottur eldur.

 

Hafa þeir dún í hafskipin

hála gler í möstrin stinn

elta þeir steininn eins og skinn

í ólar rista fuglsbeinin.

 

Séð hefi ég flóna flóa mjólk...    

 

Skráð með rithönd Þ.B.    


Hótel Goðafoss 20/1 1930

Elsku systir mín!

Gleðilegt nýár og þakka fyrir það liðna. Jeg þakka þér kærlega fyrir bréfið þitt, sem mér þótti afar gaman að fá, það er svo indælt að frétta þarna að heiman og fylgjast með þó maður geti ekki tekið þátt í því sem gerist. Af mér er allt ágætt að frétta, ég er alltaf vel frísk og hef ekki mjög mikið að gera, er yfirleitt farin að kunna mjög vel við mig hér. Jeg skemmti mér þó nokkuð um jólin, það var alltaf verið að bjóða mér, ég hafði ekki við að fara í öll þau boð og er ekki farin að fara í sum þeirra ennþá. Jóninna gaf mér veski og silkisokka í jólagjöf, ég er nú ekki farin að koma í þá en nú er ég búin að koma mér upp svörtum taukjól ansi laglegum og nú ætla ég að vígja hvortveggja í senn sokkana og kjólinn. Jeg fór til Herdísar á jóladaginn þar er nú hressandi að koma, svo fór ég til Sveðjustaðasystkinanna og Gunnlaugs Guðjónssonar. Jeg hitti Svöfu frá Tjarnarkoti nokkrum sinnum og nú erum við sammældar niðureftir til Sveðjustaðasystkina eitthvert kvöldið. Nú erum við bara þrjár því Jóninna fór suður með Esju og verður þar sjálfsagt hálfan mánuð, það munar þó nokkru að vanta hana því bæði hjálpar hún okkur við það sem gera þarf og er svo fljót að ráða frammúr ef eitthvað er. Jæja Sigga mín, jeg man nú ekki fleira núna og er alveg að sofna útaf við þessa vitleysu, ég bið þig að fyrirgefa það allt. Jeg bið kærlega að heilsa öllum. Vertu svo blessuð og sæl og líði þér sem best fær óskað þín elskandi systir

Hólmfríður Friðriksdóttir, Ósi

 

Þetta bréf var skrifað til ömmu minnar, Sigríðar Friðriksdóttur, sem ólst upp hjá ömmu sinni maddömu Sigríði Jónasdóttur á Barði. Þær nöfnur deildu sama afmælisdegi, 10. júní. Aðeins munaði 3 klst. á að sú er þetta ritar hefði einnig deilt með þeim sama degi.


Hvammsdal 14. jan. 1891

Mad. S. Jónasdóttir!

            Innilegasta þakklæti fyrir yðar góða brjef, með sendimanninum frá Söndum, samt fyrir ágætar mótttökur og öll alúðlegheit í haust. Í haust, þegar jeg tók til meðölin fyrir drenginn yðar hyrti jeg lítið um að láta beinlínis við verkjum, því jeg hjelt að það kvæði ekki mikið að honum og valdi honum styrkjandi meðöl. Jeg gat þess hver af meðölunum ættu helst við verknum, og hefuð þjer vel mátt brúka þau, eða rjettara sagt, láttu hann brúka þau á undan hinum. Það var ekki að búast við að verkurinn dvínaði við 1. glasið, því það átti alls ekki við honum.

            Jeg sendi yður hjer með 3 lítil glös – Gratís, - uppá lítilfjörlegum kunningsskap. Þau eiga beinlínnis við verknum – hvernig sem nú gengur að hafa hann á burt. Látið hann nú brúka þau eptir röð, ásamt 6. gl. af meðölunum þeim í haust, og á það að vera það 4. í röðinni. Látið hann brúka hvert gl. í 2 daga 3-5 dr. 4 sinnum á dag og fellið út 3. daginn. Ítrast sem þjer merkið bata, fellið þjer úr fleiri daga, og látið hann taka sjaldnar inn. Ef þetta dugir ekki, sýnist mjer ráð að fá góðan – samsettan langdragangi plástur og leggja hann á herðabóginn rjett á milli herðablaðanna og láta hann sitja á meðan hann tollir við og dregur eitthvað; hann á að draga í sig smábólur. Það má búast við því að drengurinn hafi flugverki um brjóstið við og við, á meðan plásturinn liggur við. Nú sem stendur  á jeg ekki plásturinn til, en jeg get útvegað hann, ef hann fæst ekki góður hjá Júlíusi lækni. Þó plásturinn sje viðhafinn má vel brúka Homöopatha meðölin fyrir það.

            Mjer hefur gengið vel að lækna kíghóstann og þessa vondu kvefveiki sem hjer hefur gengið í vetur; jeg hef ekki misst eitt einasta barn hjer um pláss úr veikinni. Hjer í kringum mig hafa börnin ekki verið mikið veik nema í 2-3 daga.

            Jeg bið yður nú að fyrirgefa rispið, sem endast með kærum kveðjum og bestu óskum til yðar og manns yðar.

Með vinsemd og virðingu

Yðar

M. Guðlögsson

Homöopath.


Hvammi 6. janúar 1903

Kæra Sigga mín!

            Ekki komumst við lengra en að Fornahvammi í gær frá Fögrubrekku. Ferðin var afbragðsgóð yfir heiðina suður að Hæðasteini; eptir það voru öðruhvoru élar ofan í heiðarsporð, en við fengum skafbál yfir allar hæðirnar og enn verra ofan dalinn frá sæluhúsinu, svo að við gátum ekki lagt upp að eiga við að fara lengra í gærkveldi en að Fornahvammi, með því að við töldum okkur víst þar sem færðin er svona góð að ná suður af þessa vikuna.

            Ég hefi eins og við er að búast ekkert frjett enn að sunnan, og frjetti það sjálfsagt ekki fyrr en ef það verður í Kjósinni; ég er að verða loppinn svo að ég slæ hjer í botninn.

Vertu ætíð margblessuð og sæl

ætíð þinn

Þorvaldur Bjarnarson

 

Berðu bestu kveðjur, og biddu piltana að muna mig um að láta ekki veturgömlu trippin berjast lengi úti í harðviðrum og hörku frostum, sem allt útlit er fyrir að hann sje nú að ganga yfir sig.

Þ.B.


Reykjavík 3/1 1903

Elskulegi frændi.

Það er nú komin nótt við 10. bréfið, sem ég skrifa í kvöld með norðan- og vestanpósti, sem báðir eiga að fara á fyrra málið, svo að ég verð í þetta sinn mjög stuttorður.

Fyrst er kæri frændi að þakka þér þitt  dásamlega bréf og þér sjálfum svo gagn líka - þeir eru smá saman að týnast burtu úr veröldinni – ég meina okkar litlu íslensku og reyndar einnig annarsstaðar í veröldinni eftir ritum manna að dæma – þessir menn, sem eru steyptir í einu formi með eitt auðlegt fysiognomi, í stað þess eins og nú tíðkasta að sjá Janusarhöfuð á því nær hverjum skrokk; að vera sannur maður þykir nú eigi lengur fínt; lygahjúpur hálfmenntunar og yfirdrepsskapar er sífellt að teygjast meira og meira, lengra og lengra út yfir þessa þjóð og gera allt okkar líf falskara en það hefur áður verið, hver skítuxinn, hver snauður sem að viti og þekkingu, vill tala með um allt milli himins og jarðar einungis til að sýnast, láta sjá sína excellence að hún sé til. Æ fyrirgefðu, frændi, þessa excursion, hún kom af því að ég var í kvöld á undirbúningsfundi undir bæjarstjórnarkosningar og sá og heyrði skítinn og óeinlægnina hjá ýmsum þeim, sem þar voru að breiða út vesaldarvængina. Ég er settur þar á Rauðidatlista, að mér nauðugum, og hef hingað til mest að því gert að spyrna á móti minni eigin kosningu, sjáandi fyrir mér mjög hvumleiða menn, og ef til vill af verstu sona bæjarins muni nú einnig fljóta með inn í bæjarstjórn í þessu 9 manna vali.

Við Pálma hef ég talað, fundur óhaldinn enn í stjórninni, hann stendur fast á því, að þú hafir einnig sent  sálmabókin (800 og minni en þessi) frá 1589 á Parísarsýninguna. Áttu hana til? Elstu útgáfuna af sálmabókinni, útgefna á Hólum? En hvað sem því líður þá vil ég meina að Grallaranum sleppi þeir aldrei eða þeir eru – forsvar. Ef þú átt hina bókina þá vildi ég biðja þig að unna safninu kaup á henni, því hún er eigi til þar, að mig minnir, nema eitt ræksni.

Hvað Miðfjarðarána snertir þá hef ég í dag skrifað Hirti Líndal og vona að annaðhvort þú eða ég fái svar frá honum innan skamms. Hitt viðvíkjandi yfirstjórninni með Austurárgilið er einskins vert, því annaðhvort gegnur minn Englendingur að boðinu eða eigi; vilji hann fá ána, þá þýða 100 kr. meira eða minna ekkert fyrir honum. En ég vil aftur nefna við þig, eins og í haust, að mér væri mjög vært, ef þú vildir senda mér skriflega lýsingu á ánni með öllu tilheyrandi (laxavon og þunga, veiðitíma etc) sem ég svo læt leggja út á ensku og sendi með bréfi mínu og athugasemdum.

Ég er í hálfvondu skapi út af skallatssóttinni, sem er komin á mitt heimili með sínu eftirdragi, frjálsu sóttvarnarhaldi etc. Litla Sigga liggur í henni og stúlkan sem gætti hennar er nú einnig orðin veik og þess vegna hef ég og konan mín ekki getað heimsótt blessað barnið þitt síðan ég kom til hennar á Þorláksdag og færði henni 5 krónurnar frá þér; þá var hún lík því sem hún hafði áður verið. Í gær heyrði ég hjá Jakobínu, konu Guðmundar, að hún hefði sagt eftir lækninum, að hitaveikin mundi vera hætt. Annars virðist mér hún bera sinn kross með því blíðlyndi og þeim hreinleika hjartans, sem henni sýnist svo hjartanlega eiginlegur.

Besti frændi minn; á þessu nýbyrjaða ári óska ég þér alls góðs og bið af hjarta, að þú fáir að halda augasteininum þínum unga, sem ég veit svo vel að þér sé einkar kær.

Með bestu kveðju til konu þinnar og barna.

Þinn ein. elsk. vin og frændi

Jón Jakobsson

 

Hvað á ég að gera við þá upphæð, sem þú færð fyrir bækurnar, senda norður eða borga út hér eða hvorttveggja? Þinn Sanni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband