Guðný Þorvaldsdóttir frá Mel lést 15 ára gömul í byrjun árs 1903

Þung er sú stund er dauðans klukkur kalla,

köld er sú fregn, sem bera þær um storð;

hart er að líta bestu blómin falla,

beiskt er að heyra skapadómsins orð.

 

Minnist þess samt hve guð er gæskuríkur,

guðlegan boðskap klukknahljóðið ber;

hann, sem frá engum, er hans leita, víkur,

aldrei á sorgarstundum gleymir þjer.

 

Hver getur skilið vegi guðs og velja?

Vjer megum aldrei kalda hluti sjá

ófarna veginn dimmir skuggar dylja,

dulist þar margar leyndar hættur fá.

 

Guði sje lof að henni hvíld er fundin

hún er nú leyst frá allri sorg og saur.

Himneska kallið kom, og frelsisstundir,

krossberinn ungi hlaut sín sigurlaun.

 

Hljótt er og kyrrt í hennar æskusölum,

hugljúf og glöð þar sá hún lífsins vor;

saknaðartárin, hrein sem dögg í dölum

drjúpa nú yfir hennar æskuspor.

 

Faðir, er síðast sástu dóttur þína,

syrgjandi stríða við sitt dauðamein,

sástu þá ekki augun fögru skína?

Englanna fegurð þar í byrjun skein.

 

Móðir, er síðast um þig vafði hún armi,

aldrei þú gleymir slíkri kveðjustund,

þannig mun hún hjá sínum blíða barmi

bjóða þér hvíld við sælan endurfund.

 

Hvíldu í friði unga vina yndi,

eilífðin sveipi þig í geislahjúp.

Líkt eins og stjarna yfir tignum tindi

tindrar þín minning gegnum tryggðardjúp.

 


Ódagsett bréf frá Guðrúnu Jakobsdóttur

Fyrstu síður bréfsins vantar....er að koma með sínar heilögu vandlætingar yfir ykkur Íslands prestana. Mjer er hann sjálfur svo minnistæður núna því hann messaði hjer nokkru sinnum um daginn. Hann er algjörlega umbreyttur sem predikari frá því sem hann var þegar hann kom að heiman, stælir nú sjera Bergmann í framburði og látbragði, og ferst það hrapalega. - Annars vil jeg ekki segja mikið um aumingja manninn, því jeg skil ekki annað en að hann verði bráðlega vitskertur eða geðveikur.

            Skrítin meðhöndlun er það sem sjera Matthías verður fyrir hjá lærðu mönnunum hjerna, ýmist hirta þeir hann eins og óþægan krakka, eða þeir hefja hann upp fyrir skýin. Skyldi þá sjera Matt. nokkuð láta uppskátt um hverjir skrifa erindið, "Jeg veit að trúin á virki fúin" o.s.frv. - rjettara; jeg gæti vel trúað að hann yrki svo sem hugsunarlaust (hann á svo hægt með að vera skáld) og skipti sjer svo ekkert um hvernig það er skilið. En þrátt fyrir allt, finnst mjer náttúrulegt að hver maður narrist að þessum styrk (eða hvað ætti að kalla það) sem Alþing úthlutaði sjera Matt. og mest fyrir það að frú Hólm fékk hina sleikjuna, enda hafa prestar og ritstjórar verið iðnir við að vitna til þess; og jafnframt haft háðungs orð um kerlingargreyið, sem ekki er þó gustuk, jeg er svo viss um að hún er opt búin að gráta út af því. Hún bjóst við þeim ógnar orðstýr og lofi fyrir Elding. Jeg heyrði hana segja þegar hún var um það bil að enda við bókina "Ójá, það feg nú að grætast úg fygig mjeg, jeg vona að Guð gefi að jeg vegði nú viðugkennd"(!!) en svona fór það.

            Jónas U. Sigurðsson búfræðingur frá Gröf, er nú sagður að vera að lesa guðfræði í Chicago, það eru annars æði margir Íslending hjer að læra til prests en ekki er nú nema 1 þeirra sem jeg heyri menn hafa mikið álit á. Tómas sonur Jóns Björnssonar aldraðs manns í Argile byggð, ættaður úr Þingeyjarsýslu. Tómas er sagður gáfaður maður og stilltur og í öllu mesta prúðmenni. Þingvallanýlendubúar hafa skrifað biskupi Íslands í því skyni að hann útvegi þeim prest, svo ekki ætla þeir að bíða eptir þessum vestheimsku unglingum.

            Það varð minna en til stóð af landferðinni okkar; agentinn þeirra nýlendubúa sem þeir höfðu sjerstaklega sett út til að toga Jón þangað vestur fór einhvern veginn svoleiðis að því óhreinlega að Jón gat ekki látið sjer það lynda. En fyrir þessa ætlun eigum við nú 3 kálfa, sá elsti er á 3. misseri en sá yngsti á öðru. Það eru fallegar kvígur en ekki mikill gróði í þeim sem stendur. Hefur viljað til að hey hefur verið ódýrt í vetur, annars alveg vitlaust að ala upp gripinn í bæ, en gefst opt illa að hafa þá í fóðri hjá bændum, drepast opt, eða skilað horuðum, flugubitnum með kláða og allskyns óþrifum. Kú eigum við, sem við keyptum í fyrrahaust fyrir 30 dali. Hún er ung og falleg, mjólkar líka vel. En þetta er nú minnst. Við erum líka að verða jarðeigendur. Höfum fest okkur bæjarlóð, lítið er nú borgað í ..........., og byggt húskofa; sjáðu nú til, á þessu ætlum við að græða, fyrst það að vera ekki alltaf á flæking og í sambýli við ýmsa, og svo borgum við upp í lóðina það sem við annars hefðum borgað í húsaleigu. En mestur gróðinn á að verða í því að lóðir hækka óðum í verði. Svo seljum við eignina og þá - já þá verða nú flestir vegir færir, en þetta verður nú ekki nema ef við lifum mörg ár við bærilega heilsu, en það er nú allt svo óvíst. Dauðinn kemur svo opt áður enn menn eru byrjaðir eða hálfnaðir með það sem þeir ætla að gjöra. Óttaleg ósköp er víst auminja sjer Jón Bjarnason búinn að kveljast nú í meira en 3 mánuði, fyrir tveim vikum var hann sjá að kominn dauða, hafði kvatt heimilisfólk sitt og beið aðeins eptir lausn frá þrautunum, nokkru síðar sprakk eitthvað af þeim meinsemdum hans, síðan hefur hann verið kvalaminni með köflum, en lítil vissa mun vera um bata þó Lögberg telji hann úr hættu.

            Það gladdi mig stórlega að lesa það í brjefi þínu að Kristín Aradóttir er að kenna krökkunum, af því jeg er viss um að þau læra þá eitthvað. Ekki er til neins að segja mjer það að Imba sje heimsk jeg trúi því ekki, en ef þið eruð að basla við að innprenta henni að hún geti ekkert lært, og fáið hana sjálfa til að trúa því, þá lærir hún heldur ekkert. Gaman hefði verið að sjá Guðnýju í faldbúningnum. Sárt er að Böðvar litli er svona heilsulaus. Hjer ráðleggja læknar við megurð rjóma, egg (helst sem hráust) og brennivín, reynist það æfinlega vel sje ekki komin algjör tæring í manninn eða meltingin alveg eyðilögð. Ef Böðvar lifir í vor ættuð þið að láta hann hafa sem mest af egg og rjóma eftir því sem hann hefur not af; Whisky láta þeir fremur brúka en nokkurt annað vín, og þorskalýsi ef þeir álíta lungun veik. Þið þurfið að passa að ekki sje verið að tala um veikindin við hann og sífeldlega aumka hann, fyrst að honum sárnar að vera svona veikur væri það honum til kvalar; en jeg er svo hrædd um þetta, að sem svo margt fólk er og margir koma. Það má sýna honum alla nákvæmni og hluttekning án þess að tala mikið um veikindin svo hann heyri. Fyrirgefðu mjer nú afskiptasemina; jeg skammast mín næstum að hafa skrifað þetta, jeg veit þið vitið það allt náttúrlega best sjálf hvað honum er hentugast. Jeg óska nú aðeins að Guð gæfi að honum mætti batna. Hjer eru sjúklingar undir flestum kringumstæðum látnir jeta, opt meira en þeir hafa list á, á allan hátt breytt enda missir fólk hjer furðu seint eða lítið hold og krapta þó það sé veikt. Af því jeg vil heldur að þú kallir brjefið mitt stuttu vitleysu, en löngu vitleysu ætla jeg nú að hætta. Jeg ætla líka að skrifa Sigríði (nú er jeg búin að venja mig af að segja Sigga) með þessari ferð. Jeg bið innilega að heilsa Kr. Arad. þykir ósköp vænt um að hún segir að jeg eigi hjá sjer brjef. Þú þarft ekkert að vera hræddur um þó jeg ekki skrifi, að rauðskinnar sjeu búnir að jeta okkur, þeir eru margir siðaðir og góðir menn og hafa líka nóg að borða hjerna í Ameríu. Sumar norðurálfu þjóðirnar eru mikið blóðþyrstari en þeir.

            Jeg á að skila kærri kveðju frá Jóni. Fyrirgefðu allan frágang á þessum línum. Vertu með öllum þínum margblessaður og sæll.

            Þín elskandi frænka Guðrún.

Guðrún Jakobsdóttir var tvímenningur Þorvalds og hálfsystir eiginkonu hans Sigríðar, dóttir Jakobs Finnbogasonar prests á Mel. Hún flutti til Vesturheims og giftist þar Jóni Einarssyni og komust tvær dætra þeirra upp, Kristín og Herdís Margrét. Bréf þetta er ritað um eða eftir 1890, en Guðrún lést árið 1894.


Polar Park P.O. 23. des. 1900

 

Háttvirti góði vin!

            Í byrjun hinna fáu orða er jeg ætla mjer nú að tala við þig gegnum pennann, óska jeg þjer fyrst og fremst gleðilegra jóla, gleðilegs nýárs og umfram allt gleðilegrar 20. aldar eða svo mikils af henni sem æfidagar þínir kunna að endast; æfidagar þínir og æfidagar allra þinna, - jeg óska ykkur þess öllum í drottins nafni.

            Það er nú orðið svo langt síðan jeg hef skrifað þjer og enn lengra síðan þú hefur skrifað mjer að jeg veit í rauninni ekki hvað jeg á nú helst að skrifa. Síðasta brjefi mínu svaraðir þú aldrei. Jeg býst við að það sje af því að jeg hafi meitt tilfinningar þínar útaf peningakröfu Jóhanns bróður míns á hendur Ingibjargar – mig minnir – Daníelsdóttur, sem þá var til heimilis hjá þjer. Um hina peningalegu hlið þess máls veit jeg ekkert nú í seinni tíð; brjef við að Ingibjörg þessi hafi einhvern veginn sæst á málið við móður sína í Nýja Íslandi – en hitt veit jeg að afskipti mín af því máli urðu til þess að jeg hafði mig út úr húsi hjá báðum ykkur Jóhanni bróður mínum.

            Og fyrr og síðar en þetta gjörðis hef jeg verið fenginn til að skrifa heim brjef viðvíkjandi erfum Vestur-Íslendinga og málalokin hafa til þessa öll orðið á einn veg, þau hafa öll orðið til þess að gera mig að enn meiri Pessimista gagnvart Íslendingum þar heima ef annars var unnt að gera það.

            Enn til þín og konunnar þinnar og heimilisins þíns ber jeg svo hlýjan hug – hlýrri ef til vill en til nokkurra annarra óviðkomandi manna eða staða þar heima að jeg minnist þín ætíð þegar best liggur á mjer og klakinn þiðnar frá hjartanu svo það fer að finna til lífs og yls útaf endurminning einhverrar sólskinsstundar á vesalings gamla landinu.

            Eptir svona langan tíma veit jeg ekkert hvað jeg ætti helst að setja á þessar fáu línur. Jeg held helst að segja þjer eitthvað af sjálfa mjer. Jeg seldi næstliðið vor fasteign mína í Selkirk eptir meira en 10 ára dvöl þar í bænum og keypti aptur land og dálitla búslóð 16-17 mílur norðaustur þaðan og hjerumbil 3 mílur austur frá Rauðá austur í jaðrinum í flæðilandi því hinu mikla er liggur inn frá Winnipegvatni en norður að því eru ekki meira en 5-6 mílur hjeðan. Sá hængur er nú samt við þessa fasteign að gamlir eigendur hennar eiga innlausnarrjett á henni og ef þeir nota hann verð jeg að líkindum að fara hjeðan á næsta vori með aðeins álíka mikla peninga í vasanum og jeg hef borgað fyrir landið. En auk þess á jeg dálítið bú, 14 nautgripa höfuð, 18 kindur, 2 hesta ásamt talsverðu af dauðum munum.

            Jeg hef kunnað hjer vel við mig og okkur hefur liðið fremur vel sem frumbýlingum. Nágrannar mínir hjer eru, einn Íslendingur, nokkrir Svíar, fáeinir enskir menn, Galisíu menn, Þjóðverjar og kynblendingar. Á næsta vori flytja tvær fjölskyldur hingað úr Nýja Íslandi og byggja hjer rjett við hliðina á mjer.

            Þó að það kenni nokkuð margra þjóðernislegra grasa kringum mig get jeg ekki betur sjeð en allir nágrannar mínir sjeu yfir höfuð almennilegt og skikkanlegt fólk að minnsta kosti eru Svíarnir, sem næstir mér búa góðir grannar.

            Árið útlíðandi hefur verið með erfiðara móti fyrir marga. Veturinn næstliðni var mildur og snjólaus að mestu og strax í vor með apríl hvarf hinn litli snjór, byrjaði þá síheiður sólskinsdagur nærri því regnlaus og opt afar heitur, sem náði allt fram í miðjan ágúst. Eptir það kom slæmur rigningakafli um 2-3 vikur, síðan var haustið allt og tíðin til þetta mjög góð en hveiti uppskera brást stórkostlega á stórum pörtum og heyskapur gekk fremur seint vegna grasleysis fyrst og svo rigninga. Yfirleitt má jeg samt fullyrða – að jeg held að Íslendingum líði heldur vel hjer vestra. Þeir verða ögn efnaðri með hverju árinu sem líður einkum þeir, sem landbúnaðinn stunda. Í bæjunum gengur mörgum það samt ógnar seint en meiri hlutinn stendur í lífsábyrgð fyrir einu eða fleirum 1000 dollara og bætir það mikið úr útlitinu.

            Margir hinna eldri íslenskra bænda hjer vestra eru orðnir ríkir eptir íslenskum mælikvarða; lönd þeirra og lausir aurar mörg þúsund dollara virði sumra hverra. Í Nýja Íslandi munu landar jafn fátækastir, þó eru þar nokkrir efnaðir menn sumpart af fiskveiðum og sumpart af griparækt. Gamli Jón bróðir Benidikts sýslum. Sveinssonar hafði haft um 40 mjólkandi kýr í sumar er leið og mun það vera með því allra hæsta í Nýja Íslandi.

            Jeg vona að þú takir ekki hart á mjer þó jeg slái botninn í þennan búnaðarbálk.

            Ef mig hendir engin ný óhamingja vona jeg eptir að geta hjer í fámenninu lifað eins skemmtileg jól og nokkurn tíma áður. Með síðasta pósti – á föstudaginn var – fjekk jeg auk hinna venjulegur Winnipeg blaða Predikanir sjera Jóns Bjarnasonar hinar ný prentuðu, sem jólagjöf frá Halldóri Bardal. Einnig sendi hann mjer 10. ár Aldamóta alveg nýprentað og 3 síðustu blöðin af “Verði ljós”. Jeg bar hlýjan hug til “Kirkjublaðsins” sáluga meðan það kom út, en miklu þykir mjer samt vænna um “Verði ljós”. Fyrir mig er það uppbyggilegast af öllu, er jeg hef heyrt eða lesið guðfræðilegs efnis, nú á síðustu árum. Jeg hef aldrei slegist í flokk þeirra er hafa horn í síðu kristinnar trúar; og hjer vestra eru þeir þó sorglega margir – en sjálfur er jeg þó og hef verið mjög trúarlítill. Mjer hafa fundist mótsagnirnar svo margar og svo mikil þoka yfir kenningu prestanna einkum eins og jeg kynntist henni heima á Íslandi óendanleg endurtekning alþekktra trúarlærdóma með óendanlegum Biblíu tilvitnunum sem ýmist sönnuðu sitthvað eða ekki neitt af því sem prestarnir eða sunnudaga bækurnar kenndu. Það eru einkum tvö atriði sem jeg tek mjer sjerstaklega til inntekta af því sem sjera Jón skýrir að er um innblástur Biblíunnar og um Krist í lægingar stöðunni. Guðfræðingarnir hafa til þessa haldið svo mjög fram hinni guðdómlegu persónu Krists á hans hjervistar dögum, að hann hefur orðið mjer og líklega fleirum alveg óskiljanleg persóna. Í aldamótunum í fyrra fengum við innblástursfyrirlestur sjera Björns í Minnesota alveg að mjer finnst eins og hann var predikaður heima á Íslandi þá sjaldan á hann var minnst til að skýra hann, og það er þó ekki aðgengileg kenning fyrir mannlega skynsemi. Um rjettmæti skoðunar sjer Jóns Helgasonar og hinna yngri guðfræðinga, á þessari kenning hef jeg náttúrlega ekkert að segja en, miklu er hún aðgengilegri fyrir mína trúarmeðvitund.

            Og svo eru mörg fleiri trúaratriði sem mjög hafa legið á huldu gerð að umtalsefni í “Verði ljós” og allstaðar reynt að skýra þau svo að allir sem vilja ljá því eyra geta haft not af því, sem sagt er án þess trúin haggist.

            Aldamótin, sem komu út í fyrra voru víst með rýrasta móti sem við var að búast. Jeg vona að þjer finnist þessi nýju bæta það upp.

            Í bók sjera Jóns hef jeg ekkert að kalla lesið. Mjer þykir vænt um hana því mjer þykir vænt um manninn og mjer þykir mjög væntu um að fá nýja bók til að lesa á sunnudögum. Það þarf ekki að vera neitt ljettmeti sem maður les ef það á að vera jafn áhrifamikið eptir að búið er að lesa það 10-20 sinnum. Jeg trúi því naumast að sjera Jón lækki í áliti íslensku þjóðarinnar austan eða vestan hafs eptir að hún hefur lesið þessa bók ofan í kjölinn, og þá einkum menntaði hluti hennar.

            Jeg bið þig að heilsa frá mjer Jóhanni bróður mínum, og segja honum að ekkert bjef hafi jeg enn fengið frá honum síðan með Jóhanni Bjarnasyni, en því brjefi hefi jeg strax svarað og keypt ábyrgð á því svari. Jeg get því líklega ekki komið brjefi til hans hjeðanaf fyrr en í mars. Þó hann hafi skrifað mjer og það brjef sje nú aðeins ókomið.

            Jeg held þetta sje orðið nógu langt, ekki síst ef það skildi hneyksla þig eins og síðasta brjef mitt, en að því get jeg ekki gert. Jeg verð að lýsa hlutunum eins og þeir koma mjer fyrir sjónir eða þegja ella. Vertu svo með öllum þínum í guðsfriði. Þinn einl. vin Gestur Jóhannsson.

 

Og að síðustu Gleðileg jól!


Staddur á Brandagili 10. des. 1902

 

            Hjartkæra Guðný mín.

Ég fór í gær vestur að Stað til þess að fá sunnanbrjefin áður en ég skrifaði þjer og sumum örðum, og svo af því að ég var svo óþolinmóður að mjer fannst ég ekki geta beðið 2 daga eptir frjettunum af því hvernig þjer liði. Mjer er það sönn gleði að frjetta það af þjer að þú þjáist ekki, og ef ekkert er þjer meira til ama eða leiðinda, en umhugsunin um það, hvað þín langa lega sje mjer kostnaðarsöm, þá máttu róleg hrinda frá þjer leiðindunum út af þeirri tilhugsun, því það máttu vita, að ósárt væri mjer það að láta aleigu mína, ef það gæti orðið til þess að þú fengir heilsu, hvað þá heldur að láta andvirði nokkurra skræðna, sem mjer eru gagnslausar, þó fjemætar sjeu – en gera mjer nú þetta stóra gagn að útvega þjer í vetur þá bestu aðhlynningu og læknishjálp, sem kostur er á hjer á landi. Ég þakka þjer hjartanlega fyrir brjefið þitt, og jólakortið til okkar mömmu þinnar. Þau minna okkur á jólunum á þig – en til þess hefði nú reyndar ekki þeirra þurft, því að mjög opt hvarflar hugurinn til þín, og því spái ég að á jólunum verði engi oss frændunum nær í anda en einmitt þú.

            Á dagsetningu brjefs þíns sje ég það, að Árni vegabótastjóri Zakaríasson getur ekki hafa verið kominn suður þegar þú skrifaðir, því að hann fór úr Miðfirðinum ekki fyrr en 28. nóv. en þú skrifar 1. des. Árni kom norður aptur um 20. nóv. til þess að koma brúnni á Sveðjustaðaá, svo að nú er engin torfæran á Hrútafjarðarhálsi. Með Árna skrifaði ég þjer það mesta sem ég gat til tínt þá, og nú er þá því við að bæta, að enn helst sama blessuð sumarblíðan, svo að vinna má að öllum útiverkum, og reyni ég eptir föngum að færa mjer í nyt dugnað vinnumanns míns Helga Ögmundssonar, og vona ég að tíðin haldist svo lengi að í vor megi á Mel sjá þess glöggvan vott, að ég hafi reynt að nota þessa blessaða sumarblíðu eptir föngum, en því ræður himnafaðirinn eins og öllu öðru, hvort ég lifi það að sjá 63. afmælið mitt.

            Ég gerði mig svo djarfan að fara í brjefið til Imbu sem var ákaflega þykkt, þegar ég ekki fann neitt brjef til mín frá þjer, því að Jón frændi Jakobsson skrifaði mjer að hann áður en póstur fór hafi boðið þjer að taka af þjer bref til mín, en að þú hefðir sagt sjer, að önnur hvor þeirra Magnúsdætra hefði tekið af þjer brjefið. Taldi ég því viss þegar ég sá þetta gilda brjef til Imbu, að þar ætti ég brjef frá þjer innan í og því reif ég upp brjef hennar, en allt skal koma til skila, sem í því var.

            Ég skrifa nú Jóni frænda Jakobssyni, og bið ég hann fyrir jólin að koma til þín 5 krónum, og ætla ég fyrir 2 krónurnar af þeim að fá af þjer 4 myndir með næsta pósti handa mjer sjálfum og einstöku vinum; hinar brúkarðu eins og þjer sýnist; það gæti verið í málsverð á jólunum handa einhverjum aumingja.

            Biddu Guðmund lækni frá mjer, að bera systrunum sem hjúkra þjer hjartans kveðju mína og þakklæti, eins skaltu skila hjartans kveðju minni til hvers þess er kemur og vitjar þín, og bið ég guð að blessa þá alla.

            Ég get nú ímyndað mjer, að þú sjert orðin þreytt á að lesa þetta allt annað en fróðlega brjef, og er því best að hætta; ég enda á því að óska þjer gleðilegra jóla og allra heilla og blessunar í bráð og lengi. Vertu svo hjartans barnið mitt kærast kvödd og guði falin af mjer föður þínum

Þorvaldi Bjarnarsyni


Eyfjord 9. desember 1889

 

            Ástkæra nafna mín!

 

            Þó langt sé síðan jeg hafði þá ánægju að njóta nærveru þinnar og alúðlegu vinkynningar hefi jeg samt ekki gleymt þér; nei, þitt innilega og einlæga viðmót hefur opt vakað í huga mér, það styttir marga stund lífsins að apturkalla í huganum ýmsar góðar og glaðar endurminningar liðins tíma. Einkum þeirra stunda er jeg naut í umgengni hollvina minna heima á fróni og þó að okkar kunningsskapur væri ekki langur, fannst mér hann svo innilegur og einlægur, að jeg skoða endurminning þína ásamt minna bestu vina. Um leið og ég skrifa þessar línur finnst mér skylt að minnast á og þakka þér fallegu brjóstnálina sem þú sendir mér áður jeg alfarin steig á skip og sem jeg ætla að bera sjálf til dauðadags sem endurminning frá þér. Jeg mun hafa gleymt að minnast á þetta í bréfinu sem jeg skrifaði þér 11/2 ári eptir að jeg kom hingað vestur. Mig hefur alltaf langað til að fá bréf frá þér aptur, en það hefur orðið ónýt von til þessa. Þú vonast nú eptir kæra nafna að þú fáir langt bréf og fullt af fréttum frá mér þar sem svo langir tímar eru liðnir síðan jeg skrifaði þér síðast, en því miður verður það hvorki svo greinilegt nje fróðlegt sem jeg vildi kjósa. Því þó margt sé hér sem ber fyrir sjónir manns og mætir eigin reynslu á langri og fjölbreytilegri leið eins og lífið mætti sýnast þegar litið er til baka þá verður þó margt smátt atvik - (sem máski er þó vert að muna) – að ríma burt úr minni manns fyrir öðrum stærri atvikum lífsins sem festa sér dýpri rætur. Þess vegna verður það ekki nema höfuð atriðið um hagi okkar og dagleg lífskjör sem jeg vil reyna að segja þér frá. Þó ég viti að Bjarni minn skrifar manni þínum allt hið markverðasta sem fyrir okkur hefur komið hér vestra, það er þá hið fyrsta og besta, að okkur líður öllum vel hvað heilsufar snertir og er það dýrmætt. Guði sé lof fyrir öll gæði okkar veitt.

Uppskera varð hér í rýrasta lagi og orsakaði það af sífelldum kuldum og þurrkum framan af vorinu. Þurrkarnir héldust fram yfir mitt sumar og skrælnaði því víða hveitið og sums staðar sló hagl akrana. Þó urðu fáir Íslendingar hér fyrir þeim óvin og við hér alls ekkert. Og yfir höfuð rættist betur úr uppskerunni en út leit fyrir í sumar. Okkar uppskera var e. ½ hundrað búsel af hveiti. Það sýnist nú nokkuð mikið en við höfum nú sem stendur töluvert við peninga að gjöra því skuldir kalla hvaðanæfa. Því þegar við erum nú búin að borga allt hvað við gátum í haust verða þó eptir um 300 dollara skuld óborguð. En ef lukkan er með vonum við með guðs hjálp að verða laus við þessar skuldir að hausti ef við lifum. Svo þú skiljir nú hvernig á þessum skuldum stendur verð jeg að segja þér hvað við höfum keypt af akuryrkjuvélum. Þá er nú fyrst 2 vélar, önnur að slá og hina að raka engjar með, og kostuðu þær báðar um 100 doll. Svo keyptum við stóra og margbrotna vél til að slá og binda hveiti með, hún kostar 1,50 d. Líka keyptum við hestapar (2 hesta) sem kostuðu 3½ hundruð dollara. Upp í þá skuld létum við 5 nautgripi en borgum í peningum 1.50. Og enn fremur höfum við keypt ýmis akuryrkjutól, svo sem sáðmaskínu, herfi og plóga m.f. og verði maður hér skuldugur er þungt að borga rentur, þær eru háar. Það er mér óhætt að segja að þó margt gangi hér vel þá hefði nú komið í góðar þarfir hefði Ásgeir sent okkur eitthvað af peningunum sem hann heldur leyfislaust fyrir okkur. Þó ekki hefði verið nema helmingurinn af þeim. En það verður seint að Ásgeir borgi, nema ef einhver duglegur gangi í það fyrir okkur. Svo sem til að mynda maður þinn, enda þætti mér það betur niður komið hjá ykkur en Ásgeir. Þú mátt nú ekki taka þetta svo sem jeg sé að berja mér, en þú sérð af því hér undantöldu að peningar verða hér ekki mosavaxnir meðan verið er að eignast öll þau áhöld sem bóndinn þarf að eiga hér til að geta heitið sjálfstæður, en þegar þetta allt er orðin skuldlaus eign bóndans með sæmilega góðu landi, þá fer maður að geta andað léttara og gjöra sér von um þægilega framtíð og þar um höfum við líka góða von með tímanum. Svo þú sjáir, kæra nafna, að við líðum engan skort í búi okkar og við höfum nóg til fæðis og klæðis langar mig að segja þér hvað við höfum af búsmala (og gætum við þó átt eira ef landrými leyfði). Við eigum 7 kýr, 8 geldgripi á ýmsum aldri, milli 10-20 sauðkindur, 30 hænsni, 3 Torkera (það er stór fugl), 2 svín. Svo jeg hef nóg í bú að leggja til matar, -smjör, mjólk, kjöt, egg, hveiti, kartöflur með ýmsum fleiri garðávöxtum. Jeg hefi opt óskað að þú ættir eins mikið af smjöri og mjólk. Já jeg á stundum of mikið þegar ekkert gengur á markaðina. Kaupmenn vilja helst ekkert nema peninga og hveiti, en við konurnar viljum selja þeim smjör, egg, prjónles, m.fl. til að fá aptur kaffi og sykur og ýmsar smá þarfir okkar. Það er helst á veturna að við getum selt þessháttar. Mig langar að tala um við hvort þú veist hvar Kristveig er til heimilis sem var vinnukona hjá mér heima. Mig langar til að geta hjálpað henni hér vestur ef hún vildi því mér tekur sárt til þeirra sem hafa unnið hjá mér. Mér þætti vænt um ef þú góða nafna vildir gjöra svo vel og tala við hana um þetta, ef hún getur ná út fargjaldi hjá Ásgeir þá hefur hún fullt leyfi mitt til þess. Jeg er viss um að hún vinnu vel fyrir sér hér og jeg vildi sjá til með henni, og útvega henni góðu stað að vinn í. Hér kemur varla svo margt eða aldrað kvenfólk, ef það hefur heilsu, að það ekki vinni vel ofan af fyrir sér. Sveitastjórnin ætti að hjálpa henni að ná fargjaldi hjá Ásgeir ef þeir væru hræddir um að hún færi á sveitina. Elsku nafna mín ég vona nú að fá bréf frá þér sem allra fyrst og segir mér margt í fréttum og fyrirgefir mér þetta ómerkilega bréf. Berðu kæra kveðju okkar allra manni þínum og börnum og heilsaðu frá mér innilega vel öllum mínum góðkunningjum sem þú þekkir. Sjálfa þig kveð jeg kæra nafna með ást og virðing og óska þér og þínum allra heilla og blessunar í bráð og lengd.

Þín einlæg elskandi nafna Sigríður Eggertsdóttir

 

Styðji þið alsterk herrans hönd

huggi þig, styrki, gleðji, hressi,

og öll þín lífskjör ég bið að blessi

hann sem að skapti haf og lönd.

Í himninum vona ég hittast fáumst

í heiminum þó ei framar sjáumst.

Lausnarinn, gegnum lí og hel

leiði þig, vina farðu vel.

                                                S.E.


Hvammsdal 3. des. 1890

            Velæruverðugi herra séra Þ. Bjarnarson á Melstað!

Mitt innilegasta þakklæti eiga þessar línur að færa yður fyrir allt ágæti á yðar góðfræga heimili í haust. Jeg sendi yður nú hjer með dálítið af meðölum handa drengnum yðar, og má jeg biðja yður fyrirgefningar á því, hvað það hefur dregist fyrir mjer að taka þau til, en orsökin til þess er sú að hjer er alltaf húsfyllir af meðalafólki nótt og dag, svo jeg hef ekki við að taka til meðölin. Nú á jeg ósvarað á þriðju hundrað brjefum.

            Drengurinn á að taka gl. eptir númeraröð, og brúka hvert gl. í 3 daga samfleytt og taka inn 3 dr. 4-5 sinnum á dag. Við hvert glas á hann að fella úr 3-5 daga, sem hann tekur ekkert inn, og merkist bati eptir að hann hefur brúkað meðölin nokkuð langan tíma, skal fella úr fleiri daga, og alltaf því fleiri, því betur sem batnar og því lengur sem hann brúkar meðölin. Versni honum uppá einhvern máta fyrst í stað, má hann ekki taka eins opt inn og jeg hefi sagt fyrir, en hætta samt ekki við þau, eins og mörgum því miður hættir við. Hann ætti að taka eptir því hvernig honum verður af hverju glasi, og vil jeg svo biðja yður að gjöra svo vel að lofa mjer að vita það með línu á sínum tíma. Batann má ekki heimta undir eins því það getur líklega ekki látið sig gera, vegna þess að sjúkdómurinn er svo gamall. Jeg vona að drengurinn verði dálítið styrkari og kjarkbetri eptir að hann hefur brúkað þessi meðöl, en það verður að brúka þau með reglu og þolinmæði.

            Verkurinn sem hann hefur fyrir brjóstinu v.m. ætti helst að láta undan 5. og 6. gl., en ef þau duga ekki, skal jeg láta 1 eða 2 gl. við honum seinna. Jeg set vanalega upp að það sje tekið inn í þurrum spæni eða hvítasykri, og að einskins sje neytt kl.-tíma áður og eptir að tekið er inn. Það má ekki drekka mikið kaffi, og aldrei renna með mjólk.

            Að endingu vil jeg einlæglega óska þess, að meðölin komi að tilætluðum notum.

            Með kærri kveðju og bestu óskum til yðar, og konu yðar, er jeg með vinsemd og virðingu yðar heiðrandi vin

M. Guðlögsson


Reykjavík 1/12 1902

            Kæri faðir minn!

 

Innilegar þakkir á þessi miði að flytja þjer fyrir þitt ágæta brjef. Frjettir hef ég engar að segja og heldur gengur seint að lækna mig, ég er enn í rúminu og læknirinn segir að sjer þyki gott ef ég geti klæðst fyrir jólin; ég er alltaf þjáningalaus nema hvað hóstinn þreytir mig. Mjer leiðist ekkert nema ef mjer verður að hugsa um hvað þetta verður dýrt fyrir þig en það er ekki til neins að hugsa um það. Ég hef aldrei verið vigtuð síðan ég kom nú með Lauru. Ég hef enn oft hitaveiki en ég er farin að brúka meðal við henni og þá er hún minni.

            Nú erum við þrjár í þessari stofu, stúlkan sem kom þegar Ragnheiður fór, og kona Gunnars Einarssonar kaupmanns hjer í bænum. Ég fer nú að hætta þessu rugli sem ég bið þig að fyrirgefa góði pabbi og taka viljann fyrir verkið, ég á hálf bágt með að skrifa í rúminu. Elín Magnúsdóttir vildi endilega kaupa kort til að gefa mjer til að senda ykkur.

            Ég bið kærlega að heilsa öllu fólkinu. Vertu svo himnaföðurnum á hendur falinn sem ég hef þá von til að lofi okkur öllum heilum að hittast í vor.

            Það mælir þín elskandi dóttir

            Guðný Þorvaldsdóttir


Mel 27. nóv. 1902

 

            Kæra Guðný mín!

 

Árni Zakaríasson kom í vikunni sem leið norður aptur til þess að koma brúnni á Sveðjustaðará, og lýkur hann að öllum líkindum við það í dag eða snemma á morgun og hefir hann lofað mjer að taka þessar línur til þín. Hann sagði mikil tíðindi að sunnan eptir miklar sunnanveðrið, sem og ég lenti í á Stað, þegar ég var að sitja um póstinn um daginn; þá höfðu fokið tvær kirkjur, önnur á Kjalarnesi, en hann vissi ekki hvort það var Brautarholtskirkja eða Saurbæjar, hitt var Hrafnseyrarkirkja, og upp í Borgarfirði höfðu orðið talsverðir skaðar bæði á húsum og heyjum, mest á Geldingará í Leirársveit, þar hafði svipt ofan af húsi yfir 300 fjár. Hjer fyrir norðan hefir ekki frjest neitt af slíkum sköðum þótt veðrið væri mikið, en svo var ofsinn mikill á Hvammstanga að Sigurbjarni með öllu sínu heimilisfólki hafi um nóttina flúið ofan í kjallara. Þetta er líka eina veðrið sem komið hefir, og eptir þetta veður hefir hver dagurinn verið öðrum betri, hægð og frostleysur, jörð nú víðast alauð og má heita alveg klakalaus, getur þú ráðið í það að klaki muni ekki mikill af því að í gær vorum við að rífa upp grjót til þess að hafa í flór í nýja hesthúsinu, sem tóftir var byggt að í vor, og eru nú piltarnir að reiða heim grjótið og fara svo að flóra húsið; ég læt gjöra það til þess að ég síðar getir haft það fyrir sumarfjós. Þú getur getið því nærri að hjer þótti öllum vænt um að frjetta það, að þú ert þó heldur á batavegi; Guðmundi lækni þykir ekkert annað að en hitaveikin; telur hana tefja fyrir batanum, en ég vona samt alls hins besta.

            Á fyrra sunnudaginn var skírt barn þeirra Sigurvins og Katrínar; það heitir Sigurbjörg Helga; á sunnidaginn kemur á ég að skíra hjá Sigurbjarna og Soffíu á Hvammstanga, og menn eru að spá í því að ég í sömu ferð verði rekinn út að Syðri-Kárastöðum til þess að skíra hjá Jóhanni Albert og Dagmeyju, sem eignaðist barn fyrir tæpum 3 vikum. Andrjes í Skarði hefir legið mjög lengi; hann var um tíma talinn af, og einum var sjeð, að hann hjarni við. Læknirinn er hræddur um að sullur í lifrinni sje að grafa úr honum upp eftir lungum. Margrjet dóttir Stefáns á Sauðadalsá liggur mjög þungt, en ekki veit ég hvað að henni gengur; Helga kona Sveins á Reykjum hefir lengi verið mjög vesöl, og veikist mjög alvarlega núna í vikunni, svo að læknirinn var sóttur, en ekki veit ég hvert álit hann hefur á sóttarfari hennar, því að síðan hefir hefir engin ferð fallið. Með næsta pósti vona ég að fá enn betri frjettir af þjer; þegar hann fer af stað úr Reykjavík verður þú búin að vera á 9. viku á sjúkrahúsinu, og vona ég að þá hafi hitaveikin yfirgefið þig, svo að þú takir vel eldi næsta mánuðinn, og verðir orðin spikfeit með þorra. Hjeðan af bæ er ekki neitt tíðinda. Imba frá Kobeinsá kom hjer fyrir helgina og verður hjer framundir jólin til þess að sauma með nöfnu sinni; oss hefir öllum liðið vel, nema hvað giktin hefir einstöku sinnum kvalið mig; hefir nú í vetur tekið fyrir vinstri mjöðmina, þar sem hún áður ávallt hefir legið í þeirri hægri. Ófeigur er að herða sig við að skrifa svo að hann hið bráðasta getir skrifað þjer, en hvenær það verður er ekki gott að segja.

            Flýtisklór þetta verðurðu að sætta þig við að sinni, það er eingöngu aukageta, því vitanlega skrifum við þjer með pósti. Berðu kæra kveðju frá mjer öllum þeim sem vitja þín, og bið ég guð að blessa þá; sjálfa þig tel ég líknarforsjá guðs og árna þjer fyrir hann allra heilla og blessunar.

Þinn elskandi faðir

Þorvaldur Bjarnarson


Staddur á Stað í Hrútafirði 15. nóv. 1902

            Kæra Guðný mín!

Hingað fór ég í gær til þess að vera til taks, þegar pósturinn kæmi, og hafði hugsað mjer að fara í gærkveldi yfir að Fögrubrekku og vera þar í nótt, en í rökkrinu í gær gerði það afspyrnu sunnanrok, að allir töldu óðs manns æði að fara nokkurt fet út svo að hjer varð ég í nótt, og byrja nú á því að skrifa þjer þótt póstur sjé enn ókominn. Nú er mjög skipt um tíð; frá því með veturnóttum hefir mátt heita sauðroða rosatíð, og á fyrra þriðjudag og aðfaranótt miðvikudags 4. og 5. nóv. haugaði niður snjó, svo illa gerðum að jarðlaust mátti heita um allt, nema jaðarinn fyrir vestan Miðfjarðará frá Brekkulæk og alveg út að sjó, og út með sjó út undir Útibleiksstaði; síra Hálfdán frændi skrifaði mjer með pósti og bað mig að taka hross sín til hagagöngu, og framan úr Vesturárdal eru komin hross Daníels og Elínar gömlu móður hans, því þar er alls staðar bjargarbann. Í nótt hefir ákaflega mikið sigið snjóinn svo að hjer fram í firðinum þar sem hvergi sá fyrir neinu, eru komnir upp góðir hnjótar, en nú er roga útsynningur, og er aldrei gott að vita hvernig hann skilur við en ég er að vona, að viðskilnaður hans verði ekki mjög afleitur í þetta sinn; en talsvert hefir hann orðið ótækur hjer í nótt, því hann hefir svipt þili framan undan skemmu hjerna og hafa bræðurnir í morgun verið að smala brotunum út um tún og út fyrir það.

            Þegar ég fór heiman í gær var Böðvar að búa sig út á sand til þess að sækja út að ósnum afla sinn; hann reri í haust hjá Friðrik á Ósi út í Hvalvík fyrir utan Bálkastaði, og í fyrra kvöld komu þeir heim með það síðasta er þeir þurftu að flytja, og var það heppilega sloppið, ef svo skyldi fara að nú sje enn meiri rosavon, en verið hefir. Síldarafli hefir verið framúrskarandi góður hjer inn á Hrútafirði, og er vonandi að hann haldist enn, þótt tregt hafi verið núna nokkra daga fyrir straumum; sem Eyfirðingurinn er stýrir útveg Riis telur góðs vita, segir að síldin hverfi opt undir stórstraumana, og þá bregðist það sjaldan að von sje á nýrri göngu.

            Heiman að er ekkert að frjetta, enda þarf ég ekki að skrifa þjer það, þar sem bæði Imba og Þuríður skrifa þjer. Enn er ekki búið að koma upp nýja hesthúsinu, en allt er við hendina; aptur hefir verið gjört mjög vel við folaldahúsið og kofann út við þrístæðahúsið; það hækkað talsvert, svo að nú er það afbragðs loptgott, svo að Stjarna þín fær þar gott skýli, þegar á þarf að halda.

            Fjarski hefir okkur þótt langur þessi tími, er ekkert hefir af þjer frjest; en með þessum pósti teljum við víst, að koma muni þær frjettir, er á megi marka, hvort þú eigir verulega batavon; við erum öll að óska þess og vona, að þú fáir þá matarlyst að þú getir tekið eldi, því að þá er talinn víst batinn. Verst er ef þjer leiðist. Ég vona að Guðmundur læknir verði þjer í útvegum um bækur, og skaltu hiklaust biðja hann þess. Ég sá í haust í bókunum sem Ragnheiður hafði bókina eptir Monrad gamla: fra Bönnens Verden, og gramdist mjer þá við sjálfan mig að ég ekki skyldi hafa látið mjer koma það til hugar, að ljá þjer með þjer íslensku þýðinguna, sem ég ný sendi þjer; það er verulega góð bók, og gefur ríkt íhugunarefni; ég held mjer sje óhætt að fullyrða, að veikindi þín hafa ekki lítið að því stuðlað að opna mjer heima bænarinnar og gert mig þar að heimagangi því seint og snemma hugsa ég um þig, og aldrei svo að ég þá ekki jafnframt biðji góðan guð að varðveita bæði mig og þig, og allt annað sem mjer er kært.

            Fyrirgefðu þetta flýtiklór og lifðu ætíð blessuð og sæl og guði falin. Berðu kærar kveðju öllum sem að þjer hlynna.

Þinn elskandi faðir

Þorvaldur Bjarnarson


Mel 11. nóvember 1902

            Elskulega systir mín!

 

            Ég ætla nú að passa að þessi póstferð fari ekki eins og sú um daginn því ég hafði samvisku áklögun af því enda þótt ég viti að lítil skemmtun muni vera að lesa bréf frá mér. Ég veit nú varla hvað ég á helst að skrifa því nóg er nú til sem er fullboðlegt fyrir þig. Ekki hefur verið alveg breytinga laust með hjúa haldið því nú er Ranka farin. Hún treysti sér ómögulega að vera hér fyrir kulda og gaf mamma það eptir að hún færi svo það gekk allt ósköp friðsamlega til. Ég get ekki sannara sagt þér en það að ég var fjarski fegin að hún fór því að hefði verið leiðinleg köldu suða eins og hér er kalt núna. Vigdís gamla verður hér aptur á móti. Hún kemur líklega um jólin. Hún hefir verið hjá Fríðu í haust. Svo erum við Þóra búnar að fá vinnukonuna okkar. Lítið erum við búnar að brúka hana en við höfum prjónað skyrtu handa mér, vettlinga handa Böðvari og neðan við sokka handa mér og Óa og Þóra er núna að prjóna háleysta handa pabba. Ég er rétt búin með grófu hyrnuna gráu. En svo prjóna ég líklega aðra fínni á eptir.

            Fyrir mánuði síðan átti að halda fund hér en þá kom enginn nema Benedikt Óli og Magga frá Söndum og Lóa og Mundi frá Útibleiksstöðum og Fríða og Sigvaldi svo þú getur ímyndað þér að ekki var mikið úr fundi og var það þá leiðinlegt því svo mikinn áhuga hafði Benedikt á málinu og var það því skammarlegt að enginn skyldi koma til að kveðja hann eða hlýða á kveðju hans því hann ætlaði að halda fyrirlestur, en nú er hann farinn og heldur vestur á Ísafjörð. Nú er mamma búin að selja Gránu. Magnús á Saurum keypti hana á 30 kr. Böðvar kom heim á föstudaginn var. Hann fór á mánudaginn út eptir því þeir ætluðu að sækja sjó, en svo legaðist þeim og gengu alveg fár á  föstudaginn fer gátu þeir ekki komist heim fyrir hríð, svo lögðu þeir á stað aptur í gær og held ég nú þeim ætti að gefa vel. Ég held hann hefði skrifað þér hefði hann ekki þurft að fara þetta og hann biður kærlega að heilsa þér og segist ætla að skrifa þér seinna. Hann hefur fiskað mikið heldur vel. Mamma biður líka kærlega að heilsa þér og hún segist ætla að skrifa þér um hátíðarnar. Sigríður Sigfúsdóttir kom hér í gær, hún biður hjartanlega að heilsa þér. Ekki fáum við skírnarveisluna á Reykjum því þegar barnið var sólarhrings gamalt fékk það voðalegan stífkrampa svo það var skírt skemmriskírn. Það heitir Ingibjörg. Nú ætla ég að fara í laug í dag svo ég missi ekki af dráttarfærinu yfir ána svo ég má ekki vera að skrifa þér meir í þetta sinn.

            Við hlökkum öll til þegar póstur kemur að fá fréttir af þér því við vonum þær verði góðar. Við treystum bæði lækninum og fólkinu til alls hins best.

Vertu margblessuð og sæl og guð gefi að við eigum eptir að hittast glaðar og heilbrigðar. Þess óskar þín elskandi systir Imba Þorvalds. Þóra og hitt fólkið biður kærlega að heilsa þér.

Í guðs friði þín Imba.

 

Nú er Böðvar kominn alkominn heim. Þeim gekk ágætlega flutningunum.

Þetta ritaði langamma mín, Ingibjörg Þorvaldsdóttir (1881-1958) til systur sinnar


Næsta síða »

Um bloggið

Einkabréf úr safni séra Þorvaldar Bjarnarsonar og Sigríðar Jónasdóttur

Höfundur

Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Sigríður Klara Böðvarsdóttir

Hér birtast gömul bréf úr safni langalangafa og langalangömmu. Þau voru séra Þorvaldur Bjarnarson, prestur á Melstað í Miðfirði, og maddama Sigríður Jónasdóttir. Bréfin birtast eftir mánaðardögum, en ekki eftir árum eða höfundum.

Ég áskil mér allan rétt að færslunum og því þurfa þeir sem vilja vísa í bréfin vinsamlgast að hafa samband (skb hjá hi.is)

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband